„Ýmislegt“

15. febrúar 2020

„Ýmislegt“

Ýmislegt - Skálholt

Kirkjan.is rakst á þessa auglýsingu í morgun í Morgunblaðinu undir auglýsingadálknum Ýmislegt.

Hún kemur ekki á óvart því að kirkjuráð samþykkti á fundi sínum 7.-8. febrúar s.l. heimild til stjórnar (nú framkvæmdanefndar) Skálholts að „bjóða út rekstur Skálholtsskóla, í samræmi við þau gögn sem lágu fyrir fundinum, að því tilskyldu sem lög og reglur leyfa.“ Stjórn Skálholts lagði þetta til.

Hér má sjá fundargerð kirkjuráðs þar sem fjallað er um Málefni Skálholts.

Sr. Axel Árnason Njarðvík, kirkjuráðsmaður, lét bóka að hann væri á móti þessu og Svana Helen Björnsdóttir, kirkjuráðsmaður, sat hjá við afgreiðslu málsins.

Málið hefur verið rætt í stjórn Skálholts og stjórnarmenn talið að grípa þyrfti til aðgerða. Óbreytt ástand í rekstrinum gengi ekki. Í fjárhagsáætlun fyrir Skálholt 2020 er gert ráð fyrir að því að gisti- og veitingaaðstaða í Skálholti verði leigð út.

Fyrir sex árum var gisti-og veitingareksturinn í Skálholti boðinn út. Fimm buðu í og hófust viðræður við einn aðila. Skólaráð Skálholtsskóla var andvígt því að leigja út reksturinn. Síðan brustu forsendur útleigunnar þar sem í kjölfar rannsóknar verkfræðistofunnar VERKÍS kom í ljós að verulegra útbóta væri þörf á húsnæðinu – voru til dæmis fimm herbergi ónothæf vegna myglusvepps. Fallið var frá því að leigja húsnæðið út - sjá hér fundargerð kirkjuráðs frá 25. nóvember 2014. Ákveðið var að áfangaskipta framkvæmdum við endurbætur á húsnæðinu. Skaðabótamál var svo höfðað af þeim aðila er samningar voru hafnir við um leiguna og það óhagræði sem ferðaþjónusta hans hafði orðið fyrir vegna þess að dregið var í land með útleiguna. Voru honum greiddar skaðabætur. Sjá fundargerð kirkjuráðs frá 16. desember 2014 hér.

Þegar útleigumál á rekstri á gisti- og veitingaaðstöðu í Skálholti ber á góma hefst gjarnan umræða hjá kirkjufólki um það hvernig slíkur rekstur geti farið saman við kirkjulega starfsemi á hinum sögufræga og helga stað í Skálholti þar sem trú og menning fléttast saman. Margir telja að þau sem gerkunnug eru rekstri af þessum toga séu best fær um hann enda kunni þau til verka. Aðrir vilja stíga varlega til jarðar og að allar hliðar máls séu kannaðar til hlítar og óttast ella að núningur geti skapast á milli sjónarmiða kirkjulegrar starfsemi í Skálholti og rekstrarlegra sjónarmiða.

Nú verður spennandi að sjá hvernig mál fara að þessu sinni og hverjir muni óska eftir því að leigja gisti- og veitingareksturinn á staðnum.

Forvitnilegt verður og að sjá hvaða skilyrði verða sett og hve langur leigutíminn verður. Ennfremur hvort leigusamningur teljist samrýmast lögum um Skálholtsskóla - sjá lögin hér - og meðal annars hvernig hin kirkjulega starfsemi í Skálholti fellur að hugmyndum væntanlegs leigutaka og sjónarmiðum hans.

Kirkjan.is mun fylgjast með málinu og lætur í ljós óskir sínar um að allt fari vel.

hsh

 


  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Skipulag

  • Menning

  • Samfélag

Sr. Guðmundur og sr. Guðrún.jpg - mynd

Fyrri umferð biskupskosninga lokið

16. apr. 2024
...kosið verður á milli sr. Guðmundar Karls og sr. Guðrúnar
Frá Presta- og djáknastefnunni 2023 í Grensáskirkju

Presta- og djáknastefnan 2024 sett á morgun

15. apr. 2024
...í Stykkishólmi