Vegleg gjöf sem ber ávöxt
Sú góða hefð hefur skapast í Seltjarnarnessöfnuði að fermingarbörn fái Biblíuna að gjöf. Þessi hefð komst á fyrir nokkrum árum þegar einn velunnari kirkjustarfsins bauðst til að greiða fyrir Biblíur sem fermingarbörn fengju afhentar í kirkjunni. Síðan hefur Biblíugjöfin ýmist verið kostuð af söfnuðinum eins og nú eða velunnurum kirkju og kristni.
Í dag er Biblíudagurinn og af því tilefni fengu fermingarbörn þessa árs Biblíuna afhenta af fulltrúum safnaðarins, þeim Svönu Helen Björnsdóttur og Ólafi Egilssyni.
Börnin fá að velja hvernig eintak þeirra er á litinn, hægt er að velja á milli hvítrar Biblíur, svartrar og rauðrar. Nöfn þeirra voru lesin upp og komu þau að altarinu og fengu Biblíu sína afhenta sem þau þökkuðu prúðmannlega fyrir.
Kirkjan.is var viðstödd og var þetta hátíðleg athöfn, börnin voru mjög þakklát og ánægð með að fá bók bókanna í hendur. Eitt er víst að þessi gjöf mun koma þeim að góðu haldi í lífinu og margborga sig.
Eflaust eru fleiri söfnuðir en Seltjarnarnessöfnuður sem gefa fermingarbörnum Biblíuna án að þess að það fari kannski hátt. Sem flestir söfnuðir ættu að huga að því með hvaða hætti þeir geta gefið fermingarbörnum Biblíuna.
Í guðsþjónustunni flutti Níels Páll Eggerz, sem er að ljúka doktorsnámi við Hebreska háskólann í Jerúsalem, Faðir vorið á arameísku en það var tungumálið sem Jesús frá Nasaret talaði. .
Sóknarpresturinn sr. Bjarni Þór Bjarnason þjónaði fyrir altari í guðsþjónustunni og sr. Sighvatur Karlsson, héraðsprestur, prédikaði. Friðrik Vignir Stefánsson var við orgelið og félagar úr kammerkórnum sungu.
Að lokinni guðsþjónustu var svo opnuð málverkasýning sr. Sighvats Karlssonar, héraðsprests í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra. Nánar verður greint frá því hér á kirkjan.is á morgun.
Svana Helen Björnsdóttir las upp nöfn fermingarbarna, sr. Bjarni Þór hlýðir á
Biblían bíður fermingarbarnanna
Fræðsluerindi
Áður en guðsþjónusta hófst í morgun flutti dr. Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor, erindi um forvera sinn á kennarastóli gamlatestamentisfræða í Háskóla Íslands sem hann kallaði: Próf. Þórir Kr. Þórðarson - Biblían í lífi hans og starfi. Fjölmenni hlýddi á dr. Gunnlaug og erindi hans var einlægt og skemmtilegt.
Dr. Þórir Kr. Þórðarson (1924-1995) var áhrifaríkur kennari í Gamla testamentisfræðum og kenndi heilli kynslóð guðfræðinga. Hann var mikill kirkjunnar maður og sat auk þess í borgarstjórn Reykjavíkur í tvö kjörtímabil og hafði forystu um að ýta úr vör félagsþjónustu borgarinnar. Dr. Þórir var eftirminnilegur maður og litríkur persónuleiki.