Opinn kærleiksfaðmur í miðri borg

21. febrúar 2020

Opinn kærleiksfaðmur í miðri borg

Á gluggasyllu á efri hæð er stytta af Maríu Guðsmóður og horfir hún yfir borgina

Á fögrum og kyrrum föstudagsmorgni í lok þorra ók kirkjan.is upp Þingholtin með hvellheitan bensínstöðvarkaffibolla í hönd. Spurning var hvort eitthvað væri í kirkjufréttum á þessu morgni sem teygði úr örmum sínum yfir nývaknaðan miðbæinn. Hinar veraldlegu annir virtust aldrei jafn miklar eins og nú – og þetta var eins og önnur ætíð yfirstandandi - og eilíft.

Þegar ekið var fram hjá Ingólfsstræti 12 blöstu við opnar dyr og þar fyrir innan gat að líta systur úr reglu Móður Teresu í miklum önnum.

Í miðju borgarinnar standa þær systur í anda móður Teresu og þjóna náunganum í kærleika. Ilmur af nýristuðu brauði og kaffi kippti fast í komumann sem reyndar hafði lokið sínum morgunverði fyrr um morguninn. Það var í mörgu að snúast í eldhúsinu, fleytifullur pottur með eggjum sauð á eldhúshellunni og þykkt oststykið var sneitt niður af miklum hraða og með órtúlegri listafimi.

„Ég gekk í regluna tuttugu og tveggja ára,“ segir systir Elóísa og andlit hennar ljómar. Hún er frá Filippseyjum og hefur verið hér á landi af og til. „Við komum og förum,“ segir hún hlæjandi, „höfuðstöðvarnar eru í Kalkútta, annars eru við sjálfstæðar.“

Á hverjum morgni kl. 9.30 opna þær veitingastofu sína og öllum er boðið þangað sem vilja. Á borðum er morgunverður og þau sem vilja geta rætt við systurnar. Eins er hægt að eiga bænastund í lítilli kapellu við hlið matsalarins.

Kirkjan.is spyr hverjir komi og systir Elóísa svarar að það sé fólk úr öllum áttum. „Heimilislaust fólk, einmana fólk, flóttafólk, veikt fólk – já alls konar fólk kemur og fær að borða morgunmatinn hér.“ Og hún bætir við að engum sé vísað á dyr. Hún segir að milli þrjátíu og fimmtíu manns komi á hverjum morgni. Þær loka um hádegisbil. En þar með er störfum þeirra ekki lokið. Þær eru í sambandi við fólk hér og þar í bænum, heimsækja einmana fólk og veikt.

Kirkjan.is spyr hvað þær séu margar. Systir Elóísa svarar að þær séu fimm en þær hafi frelsarann með sér í liði og því séu þær í raun og veru óteljandi í andanum.

Kirkjan.is segir að íslenska kirkjan sé að huga að því að opna dagsetur fyrir heimilislausar konur. Systir Elóísa fagnar því og segir allar útréttar hendur til bágstaddra séu nauðsynlegar. Minnstu bræðurnir og minnstu systurnar séu alls staðar þurfandi.

Kirkjan.is spyr hverjir standi undir kostnaði við þennan kærleiksrekstur systranna. Systir Elóísa segir að fjárframlög frá einstaklingum standi undir rekstrinum sem og aðstoð frá ýmsum öðrum aðilum.

„Við byrjuðum uppi í Breiðholti, Hjallaselinu,“ svo fórum við hingað. Gistiskýlið í Farsóttarhúsinu gamla, Þingholtsstrætinu, var ekki langt undan og þaðan komu margir að sögn hennar. Og þeir komi enn eftir að gistiskýlið flutti á Lindargötu.

Systurnar búa á efri hæð hússins og þar er líka rúmgóð kapella.

Kærleiksstarf systranna fer ekki hátt en margir vita af því og meta störf þeirra mikils. Systir Elóísa vildi ekki láta taka mynd af sér. Þær systur eru eitt og þjóna náunganum í kærleika í anda fagnaðarerindis Jesú Krists.

Mynd af einni systur skiptir ekki máli - heldur aðeins mynd frelsarans.

Og eitt var víst eftir þessa stuttu heimsókn til systranna að opinn kærleiksfaðmur þeirra teygir sig víða um borg. 

hsh


Skiltið er hógvært utan á húsinu - litur reglunnar sem margir þekkja


Þessi skildi eftir kerru sína með rúmfötum í fyrir utan


Lítil kapella á fyrstu hæð sem rennur saman við matsalinn


Fullur pottur af eggjum fyrir morgunverðinn


Þorlákur helgi vakir yfir húsinu á stigaskörinni ásamt Mikael erkiengli


  • Frétt

  • Heimsókn

  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Samstarf

  • Trúin

  • Menning

Sr. Guðmundur og sr. Guðrún.jpg - mynd

Fyrri umferð biskupskosninga lokið

16. apr. 2024
...kosið verður á milli sr. Guðmundar Karls og sr. Guðrúnar
Frá Presta- og djáknastefnunni 2023 í Grensáskirkju

Presta- og djáknastefnan 2024 sett á morgun

15. apr. 2024
...í Stykkishólmi