Ritfregn: Bros hans og góðvild bræddi marga

24. febrúar 2020

Ritfregn: Bros hans og góðvild bræddi marga

Sr. Pétur Sigurgeirsson (1919-2010), biskup

Þegar sr. Pétur Sigurgeirsson var spurður af Víðförla í lok embættistíðar sinnar sem biskup Íslands 1989 hver hafi verið forgangsverkefni hans sem biskups þegar hann settist á biskupsstól, svaraði hann afdráttarlaust svo:

„Að virkja leikmenn í kirkjulegu starfi. Mér var það ljóst úr prestsstarfinu, hve nauðsynlegt er að fá söfnuðinn sem virkastan í þjónustuna. Presturinn á svo sannarlega ekki að annast alla hluti.“ (Víðförli, 7. árg., 3. tbl., 1989, bls. 12).

Aðalgreinin í Andvara, tímariti Hins íslenska þjóðvinafélags, er eftir dr. Hjalta Hugason, prófessor, og fjallar hún um sr. Pétur Sigurgeirsson, biskup.

Andvari hefur gjarnan þann háttinn á að birta eina höfuðgrein í hverju tölublaði og ekki svo ósjaldan er dregin fram einhver persóna úr sögunni og saga hennar rakin. Fólk sem hefur komist til valda og áhrifa í samfélaginu og látið margt gott af sér leiða. Sannir íslenskir þjóðvinir – eins og nafn félagsins ber með sér.

Sr. Pétur Sigurgeirsson var biskup Íslands frá 1981-1989. Dr. Hjalti rekur sögu hans skilmerkilega og leitast við að greina áhrif hans í hinu kirkjulega samhengi.

Fyrir nokkru flutti Biskupsstofa af Laugavegi 31 og í Katrínartún 4. Bækur og blöð voru flutt eins og gengur og gerist. Upp úr einum kassa ofan af háalofti komu blöð sem æskulýðsfélag Akureyrarkirkju gaf út, sr. Pétur Sigurgeirsson, presturinn þar, var potturinn og pannan í því. Þetta var Æskulýðsblaðið, upp á um 25 blaðsíður. Augljóst var að þegar þessum blöðum var flett að þarna var mikill metnaður ríkjandi í starfi með börnum og unglingum. Í raun og veru ótrúlegt að sjá þessi blöð frá fimmta og sjötta áratug síðustu aldar og drjúgur fengur fyrir þau sem vilja skrá sögu og þróun barna- og æskulýðsstarfs í landinu. 

Barna- og unglingastarf var eitt megineinkenni á starfi sr. Péturs sem dr. Hjalti dregur fram. Höfundur segir að á þeim tíma er sr. Pétur kom til Akureyrar hafi þar „starfað stofnunar- og embættiskirkja.“ (bls. 32). En sr. Pétur hafði víðan sjóndeildarhring, góða menntun og reynslu, sem hann nýtti til að ýta úr vör kröftugu safnaðarstarfi. Hann var að mati höfundar „fulltrúi nýs tíma í prestastétt hér á landi.“ (bls. 27). Svo sannarlega birtist það í starfsgleði hins unga prests og hve honum var lagið að fá aðra til að vinna með sér. Út frá barna- og æskulýðsstarfinu teygðu ýmsir angar sig í hinu norðlenska samfélagi við Pollinn eins og kappróðrar svo eitthvað sé nefnt.

Sr. Pétur var óþreytandi í starfi sínum í þessum málaflokki. Æskulýðssamband Hólastiptis var stofnað, sumarbúðir voru skipulagðar. Lagður var grunnur að æskulýðsdegi þjóðkirkjunnar fyrsta sunnudag í mars. Sú hefð helst enn.

Sem áður sagði fékk sr. Pétur menn til liðs við sig. Starfið var það umfangsmikið að það var ekki á færi eins manns – hann var enda „óhræddur við að kalla safnaðarfólk til starfa á hinum ýmsu sviðum kirkjulífsins.“ (bls. 42).

Sr. Pétur var frumkvöðull að mati dr. Hjalta. (bls. 43).

Það var því kannski ekki tilviljun að hann yrði kallaður til biskupsstarfa. Fyrst sem vígslubiskup og síðar sem biskup Íslands árið 1981. Segja má að hann hafi haft tvö kjörtímabil eins og forsetar Bandaríkjanna til að athafna sig í biskupsembættinu. Það nægir yfirleitt. 

En sr. Pétur hafði ekki aðeins það að markmiði að virkja leikmennina í kirkjunni til starfa. Hann var líka maður hefðarinnar, á vissan hátt íhaldssamur t.d. hvað snerti samband ríkis og kirkju; það samband var ekki að mati hans íþyngjandi fyrir kirkjuna og ef menn teldu sig finna fyrir einhverjum þunga og athafnaskerðingu ættu þeir að líta í eigin barm. Skoðun hans var afdráttarlaus í fóstureyðingarmálum (nú kallað þungunarrof), ekki skylda eyða fóstri þótt verðandi móðir byggi við slæmar félagslegar aðstæður. Allt annað ætti að gera.

Í nokkuð ítarlegu viðtali við Kirkjuritið við starfslok sagði sr. Pétur þegar hann var spurður hvað hefði verið efst á blaðið hjá honum þegar hann settist á biskupsstól:

„Að halda áfram í sama horfi þeim embættisstörfum, sem ég tók við. Það var mér mikilsverður og góður skóli að hafa verið prestur á Akureyri og vígslubiskup frá 1969 og hlotið þá reynslu í starfi, sem því fylgdi.“ (Kirkjuritið, 55. árg. 3.-4. hefti, 1989, bls. 117).

Samkirkjuleg málefni voru honum hugleikin og lagði hann sinn skerf þar fram. Eins friðarmál.

Prestastefnan á Hólum 1982, fyrsta stefnan sem sr. Pétur kallaði til, fjallaði mjög svo um málefni friðar. Hann var friðarins maður og maður mannúðar og samvinnu þjóða í milli. Orð hans um friðarmál í áðurvitnuðu viðtali í Kirkjuritinu eru enn í fullu gildi – og sýna að hann var framsýnn maður því að umhverfismál koma og við sögu í þessum orðum hans:

„Það er fyrst nú á tímum eins og gjöreyðingarhættan hafi í fullri alvöru vakið menn til verndunar lífríki jarðar og umhverfi þess. Hvað er til bjargar? Ismar hafa runnið skeið sitt og eru að gera þessa síðustu daga. Með vopnavaldi hafa heimsveldin risið og fallið. Eins fer fyrir heiminum í heild, ef ekki er snúið við með breyttu hugarfari og farið eftir orðum hans, sem sagði: Slíðra sverð þitt! (Matt. 26.52). Þennan frið gefur enginn nema Kristur sjálfur.“ (Bls. 110-111).

Höfundur minnir á að í tíð sr. Péturs varð leikmannastefnan að veruleika. Það var snar þáttur í þeirri skoðun hans að mikilvægt væri að virkja hið almenna kirkjufólk – lyfta þyrfti upp hlutverki safnaðarfólksins og gefa því vettvang sambærilegan við prestastefnu. Eins taldi hann nauðsyn á að útvíkka hina vígðu þjónustu kirkjunnar með því að vígja djákna til þjónustu við náungann.

Í lokaorðum sínum segir dr. Hjalti að sr. Pétur hafi verið í „í fararbroddi fyrir þeim sem fluttu íslensku sveitakirkjuna á mölina og jafnframt inn í samtímann. Í stað embættis- og stofnunarkirkju vildi hann byggja upp starfs- og safnaðarkirkju.“ (bls. 72). Þetta eru góð eftirmæli – umhugsunarverð og rétt.

Höfundi er það ljóst að honum er nokkur vandi á höndum að rita um sr. Pétur. Hann þekkti hann býsna vel að norðan og síðar sem prestur og prófessor í guðfræðideildinni. Segir að menn gætu fengið það á tilfinninguna að þessi grein væri ættskotin fornum biskupasögum í helgisagnastíl. Sr. Pétur var ekki helgur maður. Höfundur segir að hann hafi getað verið „ýtinn“ – og þá aðeins ef um var að ræða kirkjumál.

Sr. Pétur var einstaklega ljúfur maður í samskiptum, vildi öllum vel eins og sagt er. Það er auðvitað mikill kostur en gengur ekki alltaf upp í lífinu. Það kom fyrir að hann gat verið ögn áttavilltur á prestastefnum þegar uppi voru mjög svo ólík sjónarmið – og svo nú sé ekki talað um þegar fundarskaparsérfræðingar í hópi presta þöndu brjóst og sperrtu stél – þá gat verið snúið að vera biskup. En góðvild og bros sr. Péturs gat brætt marga. Hann var virtur vel sem biskup, mönnum þótti vænt um hann. Farsæll biskup á góðri tíð. Og hann naut þess eins og höfundur segir að vindar voru ekki farnir að blása hart um kirkjuna eins og síðar varð. Stormur tímans fer misvel með menn – það vita allir.

Dr. Hjalti hefur skrifað yfirvegaða og vandaða grein um líf og starf sr. Péturs og hafi hann þökk fyrir. Kirkjan.is hvetur sem flesta til að verða sér úti um tímaritið Andvara og lesa greinina.

hsh  • Biskup

  • Fræðsla

  • Frétt

  • Guðfræði

  • Menning

  • Trúin

  • Útgáfa

  • Biskup

  • Fræðsla

  • Menning

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut