Karlar í krapi

28. febrúar 2020

Karlar í krapi

Alltaf kaffi og vínarbrauð í Karlakaffinu

Safnaðarlíf er mjög svo fjölbreytilegt í borginni – og söfnuðum úti á landsbyggðinni.

Í Fella- og Hólakirkju er Karlakaffi einu sinni í mánuði, síðasta föstudag hvers mánaðar, að morgni dags og stendur yfir í um eina og hálfa klukkustund. Þá koma ýmsir gestir og ræða sín fræði og hugðarefni. Það eru menn frá ýmsum sviðum mannlífsins, rithöfundar, sagnfræðingar, knattspyrnuþjálfarar, fyrrum hæstaréttadómarar, iðnaðarmenn, - sem sé menn héðan og þaðan.

Kirkjan.is leit við í morgun í „efri byggðum Reykjavíkur“ eins og þau segja í útvarpinu. Þar var smá þæfingur en engin ófærð.

Prestarnir tóku á móti körlunum við kirkjudyr, hressir í bragði, „nýi“ sóknarpresturinn í Breiðholtsprestakalli, sr. Guðmundur Karl Ágústsson og sr. Jón Ómar Gunnarsson.

Breiðholts-, Fella- og Hólaprestaköll mynda nú eitt prestakall, Breiðholtsprestakall frá því í nóvember 2019. Sjá hér.

Í Fella- og Hólakirkju streymdu inn á þessum morgni rúmlega þrjátíu karlar. Allir eftirlaunaþegar og mjög áhugasamir um umræðuefni dagsins. Þeir prestarnir sögðu reyndar að færðin drægi aðeins úr aðsókninni en yfirleitt kæmi dágóður hópur og rúmlega fimmtíu karlar mættu þegar best léti.

En þessir karlar létu ekki smáþæfing trufla sig, enda karlar í krapi, ef svo má segja, og hæfði umræðuefni dagsins.

Gestur morgunsins var Oddur Sigurðsson, jarðfræðingur – og sérfræðingur á sviði jöklafræði.

Oddur Sigurðsson ræddi um bráðnum jökla og loftslagsbreytingar. Hann sýndi fjöldann allan af myndum sem sýndu ótvírætt að margir jöklar eru að hverfa, eða deyja, eins og hann komst að orði. Hlýnun jarðar af mannavöldum hófst með iðnbyltingunni og hefur haft meiri áhrif en menn grunar.

Myndir þær sem Oddur sýndi eru einstakar í sinni röð. Hann hefur tekið þær svo áratugum skiptir og eru þær merk heimild um breytingu á landi – og þá einkum jöklum.

Veðurstofa Íslands varðveitir safn Odds en það eru um 55.000 myndir.

Erindi Odds var stórfróðlegt og var hann spurður margra spurninga.

Og að vanda var boðið upp á kaffi og vínarbrauð.

Karlakaffið í Fella-og Hólakirkju er dæmi um vel heppnaðan þátt í safnaðarstarfi sem krefst ekki mikilla útgjalda – heldur hugmyndaflugs.

Þetta er snjallt og einfalt – fræðandi og gott samfélag hjá þeim í Fella- og Hólakirkju. 

Heimasíða Fella- og Hólakirkju


Oddur Sigurðsson flutti stórfróðlegt erindi


Fella- og Hólakirkja á svölum vetrarmorgni 




  • Forvarnir

  • Frétt

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Viðburður

  • Menning

  • Samfélag

Forsetahjónin og vígslubiskupshjónin við Hóladómkirkju

Afar vel sótt Hólahátíð

18. ágú. 2025
...forseti Íslands flutti Hólaræðuna
holarihjaltadal.jpg - mynd

Hólahátíð 2025: Forseti Íslands flytur Hólaræðu

12. ágú. 2025
Hólahátíð fer fram dagana 16. - 17. ágúst n.k. Halla Tómasdóttir forseti Íslands flytur Hólaræðuna að þessu sinni.
garpsdalskirkja2.jpg - mynd

Kirkjuklukkum á Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi hringt samtímis til stuðnings íbúum Gasa

05. ágú. 2025
Fimmtudaginn 7. ágúst kl. 13:00 verða kirkjuklukkum dómkirknanna þriggja á Íslandi hringt og hvetja biskupar Íslands til þess að öðrum kirkjuklukkum verði hringt samtímis. Systurkirkjur Þjóðkirkjunnar í Noregi, Svíþjóð...