Alltaf nýjar hugmyndir í Árbænum

7. mars 2020

Alltaf nýjar hugmyndir í Árbænum

Árbæjarkirkja - mynd tekin með snjallsíma

Í kirkjustarfi skýtur alltaf nýjum og nýjum hugmyndum upp. Sérstaklega í barna- og unglingastarfi en sá aldursflokkur er opinn fyrir öllu og fullur af sköpunargleði sem smitar út frá sér – og ekki síst til hinna fullorðnu.

Æskulýðsdagur þjóðkirkjunnar hefur verið á dálítilli hreyfingu ef svo má segja. Samkvæmt dagatali kirkjunnar var hann 1. mars sl. En allt er breytingum háð.

Kirkjan.is sá til dæmis að hann var haldinn á Akureyri viku fyrr – og það var vegna vetrarfrís í skólum. Aðrir söfnuðir hafa líka brugðið á það ráð að færa hann til vegna þessa.

Nú verður æskulýðsdagurinn haldinn á morgun í Árbæjarkirkju. Það er 8. mars – kl. 11.00.

Og enn bætist við hinn langa lista af alls konar messum: Tækni- og snjallsímamessa í Árbæjarkirkju á æskulýðsdegi þeirra og þjóðkirkjunnar.

Enginn fær umflúið tæknina. Og hver getur verið án snjallsímans? Hann er flaggskip manneskjunnar í nútímanum – undratæki afþreyingar, menntunar, lista og sambands.

Þau í Árbæjarkirkju blása semsé til æskulýðsdagsins. Dagskráin er fjörleg og margbreytileg. Börn úr barnastarfi kirkjunnar syngja, dansa, leika og lesa. Börn úr tíu-tólf ára starfinu sýna leikþátt.

„Tik tok“ myndband verður sýnt og stuttmynd barnanna frumsýnd. Barnakór Árbæjarkirkju syngur undir stjórn Kristínar Jóhannesdóttur.

Þau sem stýra þessari hressilegu samkomu eru sóknarpresturinn sr. Þór Hauksson, og djákninn Ingunn Björk Jónsdóttir, músíkantinn Kristín Jóhannesdóttir, Anna Sigga Helgadóttir, Aldís Elva Sveinsdóttir, Anna Lilja Steinsdóttir, Jens Elí Gunnarsson og Guðmundur Karl Einarsson. Öflugur hópur svo ekki sé meira sagt! Öll leggjast þau á eitt svo stundin verði sem eftirminnilegust.

Þessa vikuna er góðgerðarvika í barnastarfi Árbæjarkirkju og því verða börnin með góðgerðarsölu. Seldar verða umhverfisvænar vörur á sanngjörnu verði eftir guðsþjónustuna. Ágóðinn rennur til Hjálparstarfs kirkjunnar til kaupa á sumarleikfögum fyrir íslensk börn.

Og það sem sker úr er að kirkjugestir eru hvattir til að koma með farsíma í kirkjuna!

Í því liggur ekki nein smáræðis spenna: Hvers vegna? Yfirleitt er nú fólk beðið um að slökkva á símanum – eða börnin beðin um að skilja hann eftir heima, að minnsta kosti að hafa hann á „sælent“ í skólatöskunni eða símahólfinu. Svarið fæst á morgun. Kannski kemur það í símann? Hver veit.

Það verður svo sannarlega þess virði að líta við í Árbæjarkirkju á morgun.

Heimasíða Árbæjarkirkju er hér.

hsh


  • Æskulýðsmál

  • Barnastarf

  • Frétt

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Starf

  • Trúin

  • Menning

  • Samfélag

logo.png - mynd

Síðari umferð kosningar biskups Íslands

25. apr. 2024
...hefst 2. maí næstkomandi.
Ólafur Egilsson

Vinir Hjálparstarfsins fræðast um starfið

24. apr. 2024
...stilla saman strengi
Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta