Vísitasíu biskups frestað

17. mars 2020

Vísitasíu biskups frestað

Efri hluti altaristöflunnar í Hjarðarholtskirkju í Stafholtstungum sýnir himnaför Jesú - sjá neðri hlutann inni í fréttinni en hann sýnir kvöldmáltíðina. Taflan var gefin kirkjunni 1746

Um síðustu helgi ætlaði biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, að halda vísitasíu sinni um Vesturlandsprófastsdæmi áfram og þá í Stykkishólmsprestakall. Samkomubannið sem tók gildi á miðnætti s.l., sunnudags setti hins vegar strik í reikninginn og hefur vísitasíunni verið frestað um sinn. Vísitasíunni verður fundinn nýr tími þegar að því kemur og þá sem áður í samvinnu við heimamenn.

En biskup var á ferð í Stafholtsprestakalli fyrir rúmri viku eða nánar til tekið hinn 9. mars s.l. Með í för voru sem áður biskupsritari, sr. Þorvaldur Víðisson, og prófasturinn á Borg, sr. Þorbjörn Hlynur Árnason.

Fyrst var förinni heitið í Hjarðarholtskirkju í Stafholtstungum, sem reist var árið 1895. Kirkjan er fallegur helgidómur og reisulegt hús í látleysi sínu; nýmáluð og mikil sveitarprýði. Hjónin Hrefna B. Jónsdóttir og Þorvaldur T. Jónsson tóku á móti biskupi og föruneyti.

Þá lá leiðin í Stafholtskirkju sem er önnur perla í prestakallinu og var reist 1875-1877. Erla Gunnlaugsdóttir, Brynjólfur Guðmundsson og Þorvaldur Tómas Jónsson sóknarnefndarfólk, tóku á móti biskupi í kirkjunni. Upp að kirkjunni eru brattar tröppur og hafa verið ræddar nokkrar leiðir til að bæta aðgengi og er málið í vinnslu. Ljósahjálmur frá um 1700 er kominn í kirkjuna að nýju frá Byggðasafninu í Borgarnesi.

Klukkur Stafholtskirkju hljóma með þessum hætti.

Eftir hádegið fór síðan fram kirkjuskoðun í Norðtungukirkju sem reist var árið 1953 en þar hefur kirkja staðið um aldir. Kirkjan er snotur helgidómur. Magnús Skúlason formaður sóknarnefndar tók á móti biskupi og föruneyti.

Að lokum fór fram kirkjuskoðun og fundur með sóknarnefnd í Hvammskirkju í Norðurárdal. Þar hefur kirkja staðið frá því á tólftu öld. Núverandi kirkja var reist árið 1880 og er fallegur helgidómur. Nýlega var skipt um ofna í kirkjunni og eitt og annað málað í henni. Næstu verkefni sóknarinnar er að huga að lagfæringum í kirkjugarðinum og koma upp upplýsingaskilti um kirkjuna og garðinn. Fulltrúar sóknarinnar sem tóku á móti biskupi voru Rósa Arilíusardóttir, Þórhildur Þorsteinsdóttir, Gróa Erla Ragnvaldsdóttir, Sigurjón Valdimarsson, Þórir Finnsson og Bergur Hauksson.

Mikil sjálfboðin vinna er unnin í kirkjunum, þá sérstaklega sem snýr að kirkjugörðunum. Reksturinn á hverjum stað er í öruggum og traustum höndum þrátt fyrir gríðarlega skerta tekjustofna, þ.e.a.s. niðurskurð á sóknargjöldunum. Þrátt fyrir það er mikil prýði af kirkjunum öllum í prestakallinu.

hsh/ÞV

Þorvaldur Víðisson tók myndir


Tvískipt altaristafla í Hjarðarholtskirkju


Neðri hluti altaristöflunnar - trélíkneskin af gamalli altaristöflu