Heimsmarkmiðin og kirkjan

20. mars 2020

Heimsmarkmiðin og kirkjan

Heimsmarkmiðabókin er ríkulega myndskreytt

Heimsmarkmið eru dálítið umfangsmikið orð og augljóst að margt liggur þar undir sem ekki verður afgreitt á einni nóttu.

Sameinuðu þjóðirnar eru rótgróin alþjóðleg stofnun sem nýtur virðingar og trausts. Enda lætur þessi stofnun sér annt um heiminn þó að ekki sé alltaf hlustað á hana. Hún gefst ekki upp því að hún veit að dropinn holar steininn.
Það er ekki lítið sem liggur undir heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Það er í raun allt. Himinn, jörð og líf. Nútíð og framtíð.

Sautján eru heimsmarkmiðin eins og greinar á tré með 169 undirmarkmiðum, laufblöðum. Þau gilda frá árinu 2016 og til ársins 2030. Semsé tíu ár eftir. Öll aðildarríki hinna sameinuðu þjóða eru samþykk þessum markmiðum og hafa skuldbundið sig til þess að leiða þau til öndvegis í ríkjum sínum. Það er lítið.

Það sem undir er kannast allir við því að það er sjálft mannkynið, jörðin, hagsæld, friður og samstarf. Engan á að skilja eftir úti á berangri. Hér er það sjálfbær þróun sem er í fyrirrúmi ásamt hinum efnahagslega veruleika sem og hinum félagslega sem eru eins og allt umvafið umhverfinu – náttúrunni. Eða með öðrum orðum: sköpun Guðs.

Kristin trú telur sig hafa eitt og annað um þetta að segja enda himin og jörð Guðs góða sköpun. Auðheyranlegt er að flestir ef ekki allir tónar í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna eiga sér samhljóm í boðskap kristinnar trúar. Þetta er ekki bara söngur Sameinuðu þjóðanna heldur og söngur trúarinnar. Eða söngur veraldar sem allir vilja taka undir.

Þess vegna var ráðist í að þýða norska bók sem skoðar heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í ljós kristinnar guðfræði. Bókin er gefin út á netinu, hana má lesa hér en hún heitir Heimsmarkmiðabókin - Hvað kristin trú hefur að segja um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Þýðandi er sr. Sindri Geir Óskarsson. 

Sjálf bókin varð til í samstarfi nokkurra kirkna, stofnana og einstaklinga sem hafa gefið sig að þessum málaflokkum og vilja láta rödd sína heyrast. Samstarfið fór svo fram að Kjeld Nordstokke lagði fram guðfræðilegar íhuganir og spurningar. Ein kona lagði til bænir bókarinnar, og önnur myndir. Tvö voru þau sem ritstýrðu henni og fóru yfir textann og svo fólk að hönnun hennar eins og gengur og gerist.

Fræðslusvið þjóðkirkjunnar gefur bókina út í samstarfi við KFUM og K á Íslandi og norsku kirkjuna. Netútgáfa var talin hagkvæmust – og að sjálfsögðu umhverfisvænust.

Í formála bókarinnar segir svo: „Hér á þessum síðum bjóðum við ykkur að ígrunda hvað Biblían og kristin trú hefur að segja um Heimsmarkmiðin. Viðfangsefnið er ekki nýtt fyrir kirkjuna, en Heimsmarkmiðin gefa okkur ný sjónarhorn, nýja samstarfsaðila og ný tækifæri til að ávarpa ástandið. Kirkjur og kristin samtök mynda net sem nær til samfélaga um allan heim. Spurningin sem við stöndum frammi fyrir er hvort við þorum að nýta tækifærin sem við höfum til að vinna að bjartari framtíð?“

En umfram allt er Heimsmarkmiðabókin afhent söfnuðum landsins með þessum hætti. Hér er efni sem þeir geta notað í starfi sínu með börnum og unglingum, í fermingarfræðslu og fullorðinsfræðslu, biblíuleshópum – og í prédikunarundirbúningi. 

Bókin er sjóður sem hægt er að leita í. Það er nær öruggt að þeir söfnuðir sem notfæra sér sjóðinn munu efla starf sitt og jafnvel laða enn fleiri til þess en áður vegna þess að fólk finnur að trú þess skiptir máli og að hún hefur svo margt um heimsmarkmiðin að segja og meira en það: hún vill að unnið sé að framgangi þeirra í heimi Guðs.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna má lesa hér.

Þess skal getið í lokin að til stóðað halda málþing þar sem einn aðalhöfundur bókarinnar, Kjell Nordstokke, ætlaði að kynna hana, og samtímis átti að vera málþing um kærleiksþjónustu á kristnum grunni í samfélagi nútímans. Hvort tveggja var fellt niður vegna kórónuveirufaraldursins.

hsh                                                                                                                  

  
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

 

                                                                                                                                 


  • Æskulýðsmál

  • Alþjóðastarf

  • Frétt

  • Kærleiksþjónusta

  • Safnaðarstarf

  • Samstarf

  • Starf

  • Trúin

  • Útgáfa

  • Viðburður

Gluggi í Seltjarnarneskirkju
05
apr.

Streymi heldur áfram

...kirkjulegt starf á netinu
Rebbi refur og samlokan
05
apr.
Jónshús í Kaupmannahöfn
03
apr.

Þau sóttu um Kaupmannahöfn

Ráðið í starfið frá 2. ágúst