Ljómandi gott Kirkjurit

5. maí 2020

Ljómandi gott Kirkjurit

Kirkjuritið og sterkt kaffi í viðeigandi könnu

Það eru nokkur tíðindi að tímarit um kirkjumál skuli hafa verið vakið til lífsins í pappírsformi. Mörg tímarit hafa flúið inn í hina rafrænu veröld og þá fyrst og fremst af fjárhags- og hagkvæmnislegum ástæðum. Í þessu efni er nærtækast að minnast þess að hin gagnmerka Ritröð Guðfræðistofnunar (Studia Theologica Islandica)sem gefin var út á pappír í áratugi hvarf hinn í hinn rafræna heim og lifir þar ágætu lífi. Þau sem þekkja til útgáfumála í rafrænum búningi vita betur en aðrir að það er ekki nóg að ritið svífi um í heimi netsins: það verður að minna fólk á að þarna sé tímaritið, þarna sé bókin. Tilbúin til lestrar í þessu formi sem mörgum þykir afskaplega þægilegt. Ef efni bóka og tímarita er ekki lesið þá er skrifað út í tómið.

Útgáfa tímarita er vandasöm og fjárfrek – ekkert tímarit lifir án kaupenda og áskrifenda. 

Kirkjuritið er sem sé komið út eftir nokkurt hlé. Það er 1sta tölublað 85ta árgangs, 2020. Prestafélag Íslands gefur út og kostar útgáfuna af félagsgjöldum – félagsmenn fá blaðið sent til sín. Auk þess er blaðið opið öllum á netinu og í aðfararorðum þess er biðlað til sókna um að gerast „styrktaráskrifendur.“

Ástæða er til að fagna þessu framtaki að vekja hið gagnmerka rit til lífsins og óska Prestafélaginu og ritnefnd til hamingju með tiltækið.

Ritnefndin Öll þau sem komið hafa að útgáfumálum vita að í þeim gerist ekkert af sjálfu sér. Þar þarf oft að minna á, toga og ýta, og iðulega bregðast menn vonum og engar greinar sjást. Svo eru aðrir sem standa við allt sitt og eru eins og stafur á bók. Ritnefndina skipar vaskur hópur klerka: Þorgeir Arason, ritstjóri, Arnaldur Máni Finnsson, Hildur Inga Rúnarsdóttir og Ólöf Margrét Snorradóttir.

Efnið er fjölbreytilegt og það er gott út af fyrir sig. Því meiri líkur að það höfði til fleiri lesenda en þeir skipta jafnmiklu máli og höfundarnir.

Fernt skal nefnt hér sem kirkjan.is vill vekja athygli á í Kirkjuritinu og kallar fram skylda þanka:

Í fyrsta lagi er einstaklega skemmtilegt og fróðlegt viðtal við Jón Ólaf Sigurðsson sem sr. Ólöf Margrét Snorradóttir tók. Hann hefur verið starfandi organisti frá árinu 1964 og rekur sögu sína í stuttu máli. Það var hinn ómótstæðilegi hljómur orgelsins sem dró hann ungan að árum að hljóðfærinu. Saga Jóns Ólafs er margbrotin og hann hefur víða leikið á orgel. Auk þess situr hann í sálmabóknefnd og getur miðlað af þekkingu sinni og reynslu af kirkjuakrinum. Saga Jóns Ólafs minnir á að sögu organista á Íslandi á eftir að rita. Það er býsna merkileg saga af músíkölsku kirkjufólki vítt og breitt um landið sem margt af litlum efnum en þeim mun meiri hæfileikum hóf nám í orgelleik. Sá sem slær hér lyklaborð minnist þess þá hann var prestur að nokkrir aldnir organistar vestur á Snæfellsnesi sögðust hafa farið í tíma hjá Sigurði Birkis söngmálastjóra. Sjálfur fór söngmálastjórinn um sveitir landsins með ferðaharmóníum og kenndi fólki undirstöðuatriðin. Þetta var flest bændafólk sem stóð við bak kirkju sinnar og tróð harmóníum í þröngum dal eða við litla vík og þau voru misgóð. En aldrei var gefist upp. Og svo fóru þau flest á námskeiðin í Skálholti hjá Hauki Guðlaugssyni, söngmálastjóra, og áttu ekki til orð yfir gagnsemi þeirrar menntastefnu.

Þá er í öðru lagi athyglisverð umfjöllun sr. Þorgeirs Arasonar um fjármögnun kirkjustarfs undir yfirskriftinni: Er sama hvaðan gott kemur? Margir safnaða þjóðkirkjunnar glíma við rekstrarvanda og kirkjufólk leitar ýmissa leiða til að leysa þann vanda. Segja mætti að rekstrarvandi íþróttafélaga og þá einkum knattspyrnufélaga væri býsna mikill ef ekki kæmi til sala á auglýsingum á fótboltavöllum og íþróttabúningum einstakra liða. Slíkar auglýsingar þykja ekki neitt tiltökumál í þeim geira. Höfundur gerir að sérstöku umtalsefni styrk stóriðjuvers sem rekið er í prestakalli hans en það fyrirtæki styrkti Farskóla leiðtogaefna þjóðkirkjunnar á Austurlandi. Hann getur þess og að önnur fyrirtæki hafi styrkt tónlistarlíf í prestakalli hans með ýmsu móti. Fyrirtæki koma einnig með öðru móti inn sem styrktaraðilar til dæmis með því að kaupa styrktarlínur í bæklingum og blöðum safnaða. Höfundur ræðir hina siðferðilegu hlið á málinu sem skiptir vissulega miklu máli. Öflug fyrirtæki sem styrkja kirkjulegt starf geta ekki fengið neitt „mótframlag“ frá kirkjunum ef svo má segja. Vissulega er slíkum gefendum þakkað við kirkjulegt tækifæri sem hentar og góðar gjafir þeirra svo sannarlega metnar að verðleikum. Æ sér gjöf til gjalda, fullyrðir alþýðuhefðin, en það gengur ekki alltaf upp – en hefur engu að síður áhrif. Getur til dæmis kirkja talað ákveðið gegn umhverfisspillandi stórfyrirtæki sem hefur styrkt hana fjárhagslega svo um munar? Hún getur það auðvitað – en þorir hún?

Góðhugur Það má minna á að stórfyrirtæki hafa gefið gjafir til kirkna og sá rausnarskapur fylgt þeim í sögubókum. Fyrirtæki eru auðvitað hluti af samfélaginu og vilja láta gott af sér leiða. Nefna má dæmi um altaristöfluna í Hallgrímskirkju í Saurbæ sem Hvalur hf., gaf á sínum tíma sem og eirþak kirkjunnar og er getið um í Kirkjum Íslands (30. bindi, bls. 37-38). Skyldi það hafa haft áhrif á hvort talað var úr prédikunarstól Hallgrímskirkju í Saurbæ gegn hvalveiðum eða ekki? (Tekið skal fram að kirkjan.is hefur ekki hugmynd hvort svo hafi verið gert eða ekki).

Þá má og geta þess að mörg stórfyrirtæki studdu við bakið á endurbótum og viðgerðum á gluggum Skálholtsdómkirkju fyrir tveimur árum eða svo. Í þakkarskyni fá merki þeirra að prýða góðan stað á kirkjustaðnum.

Minnast má sögu um bónda einn fyrir austan sem vildi gefa kirkju hökul og spurði hvort hann gæti fært það til frádráttar á skattaskýrslu búsins en prestur taldi það torsótt, þorði ekki að segja langsótt. En samur var góðhugurinn hvurnig sem skyldi nú annars færa hökulinn góða til bókar hérna veraldarmegin. Búhyggindi eru ekki lastverð, minnug orðanna: „Verið því kænir sem höggormar og falslausir sem dúfur.“ (Mt 10.16). 

Í þriðja lagi skal getið ágætrar greinar sr. Guðrúnar Karls Helgudóttur um listina að semja prédikun. Þetta er hið sístæða verkefni kirkjunnar: að prédika orðið. Það getur vissulega verið álitamál hvort samning prédikunar sé list eða íþrótt nema hvort tveggja sé. En sr. Guðrún kýs listina og það er vel út af fyrir sig. Segir samningu prédikunar vera líka því að mála málverk og slíkt verk tekur tíma. Þegar listamaðurinn, prédikarinn, er búinn að senda frá sér listaverkið, prédikunina, þá er hún úr hans höndum. Komin í fang túlkendanna – og þá hefst fjörið! myndi einhver segja – og einkum og sér í lagi þegar misskilningur túlkenda yfirtekur sviðið um stund! Svo getur líka ein mjög svo sértæk túlkun orðið ráðandi – já, og ein aðferð prédikunar sömuleiðis og þá ein tegund guðfræði sem getur sest ofan á allt saman og talið sig vera hina einu réttu guðfræði þá stundina – jafnvel til eilífðar litið í sumum tilvikum. Það er margt að varast og vandi er að prédika svo vel sé. Leiðbeiningar og íhuganir sr. Guðrúnar eru uppbyggilegar, skýrar og hvetjandi.

Í fjórða lagi er alltaf gaman að lesa um þau sem lokið hafa nýlega guðfræðiprófi, hvað þau hafa fyrir stafni og um hvað þau fjölluðu í lokaritgerðum sínum. Það sýnir mikla grósku í huga þeirra og trúarbragða- og guðfræðideildar Háskóla Íslands.

Eitt að lokum: Kápumyndin er tekin af sr. Braga J. Ingibergssyni og heitir: Á leið í Brúnavík. Glæsileg mynd og talar sterku máli til kennilýðsins hvernig svo sem á hana er litið.

Kirkjan.is þakkar kærlega fyrir vandað og fjörlegt Kirkjurit sem lesa má hér.

hsh


  • Frétt

  • Menning

  • Prestar og djáknar

  • Samfélag

  • Trúin

  • Útgáfa

  • Menning

  • Samfélag

Prestar í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra ásamt fyrirlesurum

Vorfundur presta í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra

26. apr. 2024
...síðasti prestafundur sr. Helgu Soffíu sem prófastur
Forsíðumynd-Sumardagurinn fyrst -skrúðganga á kirkjuplani.jpg - mynd

Sumardagurinn fyrsti í Bústaðakirkju

26. apr. 2024
...fjölsótt dagskrá í kirkjunni
Digraneskirkja

Laust starf

26. apr. 2024
...prests við Digranes- og Hjallaprestakall