Stutta viðtalið: Meistari Björgvin og frú Margrét

9. maí 2020

Stutta viðtalið: Meistari Björgvin og frú Margrét

Margrét og Björgvin í Akraneskirkju

Föstudagsmorgunn og sólin dansaði yfir bænum.

Þessi fræga maísól. Nú uppi á Skaga.

Það var stillt veður á Akranesi.

Og fáir á ferli.

Búið er að slá utan um kirkjuna vinnupöllum. Mikið stendur til enda var járnið farið að gefa sig.

Það er ekki bara vakandi auga almættisins sem fylgist með guðshúsunum heldur og augu mannanna sjálfra.

Alltaf er einhver verk að vinna. Inni sem úti.

En það var kyrrð yfir öllu.

Kirkjan.is tók í hurðarhúninn á kirkjudyrunum og gekk inn. Kirkjan er fallega máluð af listahjónunum, þeim Jóni og Grétu Björnsson. Og altaristaflan sýnir upprisuna. Kirkjan tekur fagnandi á móti öllum sem stíga þar inn fyrir dyr. Mjúkar og hógværar en þó sterkar lágmyndir úr gifsi eftir Bertel Thorvaldsen eru til sitt hvorrar handar á kórvegg og umvefja komumann.

Lágvært þrusk barst einhvers staðar úr engri átt og talað var í lágum hljóðum.

„Já, ertu kominn,“ heyrðist allt í einu sagt glaðlegri röddu ofan af kórlofti. Það var Björgvin Tómasson, orgelsmiður sem stóð þar við orgelið og brosti vinsamlega. „Gaman að sjá þig.“ Og kona hans Margrét Erlingsdóttir heilsaði einnig glöð á svip.

Það sem situr um okkur öll

„Orgelið er frá 1988, danskt frá Bruno Christensen og sønner,“ segir Björgvin, „hann smíðaði nokkur orgel sem eru hér á landi.“ Hann bætir því við að þetta orgel sé vönduð smíð og að Jón Ólafur Sigurðsson hafi verið organisti hér þegar orgelið kom – en benda má á gott viðtal við Jón Ólaf í Kirkjuritinu og umfjöllun um ritið og það sjálft má lesa hér.

Rykið fylgir manneskjunum og situr um þær. Og það sest inn í orgel eins og annars staðar. Allt ryk þarf að hreinsa því að eðli þess er að hlaðast upp. Það er ekki gott að rykhaugar safnist fyrir í orgelum.

„Þá verður tónninn loðinn og rykugur,“ segir Björgvin og hlær við.

Þau eru mörg orgelin sem hann og kona hans hafa hreinsað og þau vita ekki tölu þeirra. „En þetta er einmitt tíminn til að hreinsa þau,“ segir hann, „þessi kórónuveirutími þegar allt er í lágmarki.“

Hreinsun á orgeli er ekki eins og hver önnur hreinsun. Sóknarnefnd getur ekki blásið til allsherjarátaks í söfnuðinum um hreinsun orgelsins og streymt inn með kraftmiklar ryksugur, kústa, moppur og ilmandi hreinsiefni. Hreinsun orgels er fyrir sérfræðinga. Fyrir þau sem þekkja orgelið hið innra sem ytra.

Og það gera þau Björgvin og Margrét.

Sá sem hannar og smíðar orgel veit hvaða leyndardóm drottning hljóðfæranna geymir. Þekkir styrkleika og veikleika þess. Ekkert kemst undan fránu sköpunarauga hans.

Meistarinn og kona hans Björgvin lærði sína eðla iðn í Þýskalandi og var þar í átta ár. Hann er landskunnur orgelsmiður, er með 41sta orgelið í smíðum og fer það í Keflavíkurkirkju. Orgelsmiðjan hans er á Stokkseyri og stendur við hafið og það er mikið ævintýrahús og hagleiksmenn sem þar starfa. Þar er tíminn ekki til enda orgelið hið tímalausa hljóðfæri Guðs og manna. Margrét er rafvirki og kann til verka í þeirri deild orgelsins. Nú var hún kölluð um stundarsakir til að huga að orgelinu í Hallgrímskirkju í Saurbæ því rafkerfi þess var farið að urga. Þau þurftu að fara og kaupa vænan rafmagnskapal og afgreiðslumaðurinn beindi alltaf orðum sínum til Björgvins, karlsmannsins, því að það hvarflaði ekki að honum konan væri rafvirkinn. „Við hlógum að þessu“, segja þau Björgvin og Margrét.

Orgelhreinsun er vandaverk

Það tekur um fimm vikur að hreinsa orgel. Verkið krefst vandvirkni og kunnáttu – og ekki má flýta sér. Allt tekur sinn tíma. Þau Björgvin og Margrét voru hálfnuð með verkið þegar tíðindamann bar að garði.

Þar koma nokkrir hlutir við sögu þegar hreinsa skal orgel. Sérstakur stillanlegur bursti í stærstu pípurnar og minni burstar í þær minni – það er farið ofan í hverju pípu fyrir sig; loftpressa og ryksuga. Vatn og rök rýja. Engin sérstök hreinsiefni – allt mjög náttúrvænt. Pípur í orgeli eru úr blöndu af blýi og tini, og svo eru viðarpípur.

„Það á að hreinsa orgel svona á átján til tuttugu ára fresti,“ segir Björgvin og bætir því við að kirkjurnar mættu vera aðeins meira vakandi hvað þennan þátt snertir.

„Orgel eru dýr hljóðfæri,“ segir Margrét, „það er nánast íbúðarverð í mörgum þeirra.“ Björgvin tekur undir það og segir þetta orgel í Akraneskirkju sennilega vera sextíu milljón króna stykki. Það gefur auga leið að halda verðu við þessum dýrmætu hljóðfærum. Og auðvitað kostar allt viðhald fé en það kostar enn meira fé að sinna því ekki.

„Þú getur alveg ímyndað þér hvernig liti út heima hjá þér ef ekki væri þurrkað af í þrjátíu ár,“ segir Björgvin og tíðindamaður biður hann lengstra orða kankvís á svip að koma ekki heim til hans. Björgvin skellihlær og segist aldrei hafa fengið þetta svar áður.

Orgel mega ekki rykfalla. Margir halda að orgel sé aðeins nótnaborðið og nóg sé nú bara að strjúka af því. Svo er náttúrlega ekki. Hin stærstu eru vel manngeng. Önnur eru þó nokkur smíð með hurðum og hólfum þar sem ryk smýgur inn.

Hann segir að þegar verið sé að stilla orgel, sem er blásturshljóðfæri, og bankað í pípurnar þá þyrlist rykið stundum óhóflega mikið upp og hóstakviður úr brjósti stillarans segi til um að þarna hafi gleymst að hreinsa. Stundum komi það fyrir að mýs hreiðri um sig í orgelum og er það hið versta mál. Þær valda miklum skemmdum, naga pípur og barka hvort sem þær eru músíkalskar eða ekki.

Mikill munur fyrir og eftir

Þegar komið var upp á kórloftið mátti sjá orgelpípur á víð og dreif. Fyrir ókunnugan má segja að það hafi komið honum svo fyrir sjónir að allt væri úti um allt. En svo var nú alls ekki. Allt var í röð og reglu og meistari Björgvin vissi upp á hár hvað var hvað og hvar hver hlutur átti heima. „En ef þetta væri bílvél í helstu pörtum sínum hér á dreif,“ sagði hann, „þá myndi ég ekki ráð neitt við neitt.“ Og hló hressilega.

Þau segja það ákaflega ánægjulegt þegar fólk finni mun á hljóðfæri eftir hreinsun.

Ryk er nefnilega ekki sama og ryk. Í stóru rými eins og kirkju getur orgel verið mikil rykgeymsla og haft áhrif á loftgæði í húsinu. Þegar búið er að hreinsa rykið finnur fólk strax mun. Þá verður náttúrlega tónninn líka hreinn og tærari í orgelinu og hugsanlega eitthvert örfínt vélasuð er horfið á braut. Stundum finnst fólki hljóðfærið bara vera sem nýtt og kórinn tekur heljarstökk af hrifningu!

Þau vaka yfir orgelum landsins

Björgvin segir orgel í kirkjum landsins vera mjög misjöfn. Mikilvægt sé að standa vel að vali á orgeli þegar kaupa skal nýtt, hvort sem um er að ræða í nýja kirkju eða í eldri kirkju. Ný orgel eru yfirleitt í tíu ára ábyrgð framleiðanda. Góðir framleiðendur sinna orgelum sínum eftir þann tíma. Söfnuðir hafi mikinn metnað þegar verið er að undirbúa orgelkaup og leggi mikið á sig og framkvæmdin er fjárfrek eins og fram hefur komið. Þess vegna má ekki vera með neinn asa þegar orgel eru til umræðu og fara að öllu með gát.

Mikilvægt er að það sé starfandi orgelsmiður á landinu. Ekki bara til að smíða orgel heldur og til að sjá um margvíslegt viðhald og hreinsun. Spurður hvort hann sé með lærisvein þá svarar Björgvin því til að sonur hans, Júlíus „hafi verið í kringum þetta frá því hann var polli og lærði þetta af mér.“ Gott er að vita af því. Enda var það nú svo fyrr á tímum að sonur lærði af föður iðn og sitthvað fleira.

Það var góð tilfinning að kveðja þau meistarahjón Björgvin og Margréti í Akraneskirkju, vökumenn orgela landsins. Án þeirra stæðu sennilega margir söfnuðir fölir á vangann og hóstandi vegna ryks úr pípnaföldum drottningar hljóðfæranna, orgelsins. En þökk sé þeim fyrir gott spjall og umhyggju fyrir hljóðfærunum sem skipa svo veglegan sess í kirkjum landsins.

hsh


Akraneskirkja á fallegum maídegi - byggð 1895-1896


Björgvin og Margrét halda hér á sérstökum burstum til að hreinsa orgel