Skírnin og veiran

12. maí 2020

Skírnin og veiran

Í Háteigskirkju - skírnarfontur

Kirkjulegar athafnir eru athafnir nálægðarinnar – eins og reyndar hið kristna samfélag er. Fjölskylda og vinafólk koma saman á stundum gleði og sorgar. Nálægðin er styrkjandi – og hún huggar. Það þekkja allir. Þétt faðmlag við útför, hressilegt faðmlag við hjónavígslu og slegið létt á bak, gleðiríkt faðmlag umvefur alla í skírninni og fermingunni. Manneskjan finnur mennskuna í nálægðinni, hjá öðru fólk

Nú er dregin markalína eins og kunnugt er.

Tveir metrar. Komdu ekki nær náunga þínum en í tveggja metra fjarlægð, já þú átt auðvitað að elska hann en ef hann fer inn fyrir metrana tvo áttu að stugga við honum. En að sjálfsögðu af mikilli elskusemi fyrir honum og sjálf/um/ri þér.

Í upphafi kórónufaraldursins var ljóst að skírnin væri viðkvæmari athöfn en aðrar kirkjulegar athafnir þar sem fjölskylda kemur saman, aldnir sem ungir. Ekki var ljóst hvort barnið væri í einu og öllu varið fyrir smiti þó svo talað væri um að börn smituðust síður.

Hörpuskel Biskup sagði í bréfi sínu til samstarfsmanna sinna 17. apríl s.l., að spurt hefði verið hvort hægt væri að skíra barn við þessar kringumstæður. Vissulega væri það hægt en það yrði að gæta fyllstu varúðar og fara að öllum tilmælum. Síðan sagði sr. Agnes: „Bent hefur verið á að í stað þess að ausa barnið vatni með hendi mætti nota hörpuskel eins og tíðkast í kristinni kirkju þó ekki hafi það verið útbreiddur siður hér á landi. Prestar verða að finna út með foreldrunum hvernig best er að bera sig að.“

Kirkjan.is spurði nokkra presta um það hvernig þeir hefðu brugðist við í söfnuðum sínum hvað skírnina snertir.

Mjög margir prestar sögðu að strax í upphafi kórónufaraldursins hafi skírnum hreinlega verið skotið á frest – og sá hafi verið vilji foreldranna. Sumum skírnum hefði verið frestað jafnvel fram til hausts. Fólk hafi verið öryggislaust og ekki viljað tefla neinu í tvísýnu. Best væri að halda að sér höndum.

Enda þótt fjölmörgum skírnum hafi verið frestað þá hafa margir prestar skírt börn allt frá því að veiran lét fyrst á sér kræla og fram til þessa dags. Það kom fram hjá þeim að athafnirnar væru fámennar og engar skírnarveislur eins og tíðkast hafa heldur kemur aðeins alnánasta fjölskylda saman en þó ekki alltaf. Margir foreldrar hugsa svo gott til glóðarinnar þegar líður á sumarið að blása til skírnarfagnaðar. Allir hefðu fullan skilning á því að ekki ætti að vera að safna fjölda fólks saman enda þótt stundin væri hátíðleg og dýrmæt.

Mælst væri til að allir virtu tveggja metra regluna, menn þvæðu sér um hendur og sprittuðu sig. Þetta væri lykilatriði.

Margt er breytt Prestar hafa haft misjafnan hátt á því að skíra við þessar aðstæður. Þeir þvo sér að sjálfsögðu vandlega um hendur og spritta sig (eru margir sjálfir með lítinn sprittbrúsa á sér eða í hempuskjóðu sinni) – skírnarfonturinn er sérstaklega hreinsaður hjá nokkrum. Þegar kemur að því að ausa barnið vígðu vatnið þá biðja sumir prestar um að foreldri geri það og þeir sjálfir fara með orðin: „NN, ég skíri þig í nafni föður, sonar og heilags anda.“ Einn prestanna nefndi það sérstaklega að þetta væri í anda hins almenna prestsdóms. Með þessari aðferð taldi hann fremur auðvelt að virða tveggja metra regluna. Aðrir prestar hafa notað hörpuskel eins og biskup gat um í bréfi sínu, og ausið með henni – forðast að koma við barnið - og vatnið. Einn prestur sem er að undirbúa nokkrar skírnir hefur sjálfur tínt hörpuskeljarnar sem notaðar verða. Annar notar skel sem hann fann á stað sem hann segir vera fegursta stað á Íslandi, og upp úr henni hefur kvarnast og minnir það á svo margt í lífinu. Og þó skel sé notuð þá teygja menn eins rækilega úr handlegg sínum eins og frekast er kostur. Einn sagðist sleppa handayfirlagningu þegar farið væri með Faðir vorið þó honum þætti það súrt í broti – en handbókin geri líka ráð fyrir að foreldri eða guðfeðgin leggi hönd yfir höfuð skírnarbarnsins. Þá sagðist annar prestur ætla að nota hanska við skírnirnar. Enn annar prestur gat um það að í einu tilviki hefði skírnarathöfn hjá honum verið streymt til vina og kunningja fjölskyldunnar - athöfnin sjálf var því fámenn. Já, og hann sprittaði hendur sínar ekki sjaldnar en fimm sinnum eftir að vera kominn á skírnarstað.

Sumir prestanna kjósa að skíra í kirkjunum enda þar rýmra heldur en á mörgu heimilinu. Fari þeir og skíri í heimahúsi þá sé það morgunljóst að sú athöfn verði fámenn. Prestur sagði það harla erfitt að halda tveggja metra regluna á heimili þar sem verið væri að skíra barn. Einn prestur sagðist eingöngu við þessar aðstæður skíra í kirkjunni en fara ekki í heimahús en flestar skírnir hans væru yfirleitt heimaskírnir. Í kirkjunni væri náttúrlega hátt til lofts og vítt til veggja – og góð loftræsting – það væri kostur. Hann bæri ábyrgð á skírnarathöfninni og vildi gera það með fullum sóma. Skírnarveislan – eða kaffi – væri á hendi fjölskyldunnar sem bæri ábyrgð á henni.

Nokkrir prestar telja að kirkjustjórnin eigi að gefa út miklu nánari fyrirmæli í þessum efnum og telja ekki rétt að leggja það alfarið í hendur presta hvernig þeir hafa skírnarathöfnina um hönd við þessar óvenjulegu aðstæður.

Einn prestur sem var að undirbúa skírn tiltók sérstaklega að ekki yrði sungið við athöfnina heldur myndi hann lesa sálminn. Í ljósi umræðu um að söngatferlið gæti verið hugsanleg smitleið þá væri ekki æskilegt að láta alla viðstadda þenja raddböndin við skírnina.

Allmargir prestar höfðu það á orði að þeim þætti þetta ögn snúið og skrítið. Til dæmis að mega ekki draga kross á enni skírnarbarnsins og brjóst, í einu tilviki sá móðirin um það. Og öllum finnst óþægilegt að geta ekki óskað fólki til hamingju með þéttu handtaki eða faðmlagi. Við skírnir sé gleði og vinátta, nánd og snerting, ríkjandi enda miklu verið að fagna.

Vestfirðir hafa skorið sig úr í kórónufaraldrinum og þar hafa sóttvarnarreglur verið harðari en annars staðar og kirkjustarfið dregið dám af því – eins og skírnir. Samkomubannið hjá þeim vestra var í fyrstu miðað við fimm manns og þau eru nýkomin upp í fimmtíumanns.

Ábyrgð og árvekni Allir prestarnir sýna mikla varúð og árvekni í þessum aðstæðum – og fulla ábyrgð. Þeim er augljóslega mjög í mun að vanda til allra verka. Þeir halda sig fjarri fólki, þá sem nemur þessum tveimur metrum, eins og hægt er. Það er af sem áður var við slíkar aðstæður þegar nálægðin réð ríkjum og jafnvel í sumum tilvikum við lok skírnar að prestar tóku skírnarbarnið sér í faðm í kór eða heima í stofu þar sem skírt var og lyftu því hressilega upp og knúsuðu innilega.

En allir sögðu prestarnir að nú væri fólk farið að huga að skírnum sem frestað var. Sumarið væri komið og fólk óþreyjufullt. Kirkjurnar opna 17. maí næstkomandi en hámarksfjöldi viðstaddra er fimmtíu manns og tveggja metra reglan er enn í gildi. Allt fer þetta hægt af stað og vel verður að standa að verki.

Þó að sumarið sé komið þá er veiran ekki farin.

En hún fer. 

hsh


Hörpuskel - sú saga er til að Jóhannes skírari hafi notað
hörpuskel þegar hann skírði Jesú




Sprittbrúsar eru víða um þessar mundir. Kirkjan.is frétti hins vegar um eitt dæmi þess
að sótthreinsistandari væri í forkirkju - knúinn með rafhlöðum


  • Fræðsla

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Trúin

  • Covid-19

Ólafur Egilsson

Vinir Hjálparstarfsins fræðast um starfið

24. apr. 2024
...stilla saman strengi
Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta
Bænagangan 3.jpg - mynd

Bænagangan 2024

23. apr. 2024
...á sumardaginn fyrsta