Dyr opnar og bekkir merktir

17. maí 2020

Dyr opnar og bekkir merktir

Sr. Sigurður Árni Þórðarson, sóknarprestur í Hallgrímskirkju og Grétar Einarsson, glaðir í kirkjudyrum

Kirkjan.is skaust í morgun á milli kirkna til að athuga hvernig nokkuð hefðbundið starf færi af stað eftir nokkurt hlé. 

Um tíuleytið var rennt að Langholtskirkju. Þar inni sat organistinn og æfði sig á orgelið fyrir guðsþjónustuna. Þetta var vissulega í fyrra fallinu sem tíðindamaður var þar á ferð og þegar litið var yfir kirkjubekkina var ekki að sjá þar neinar merkingar.

Kirkjan.is hitti Kristján J. Eysteinsson, kirkjuvörð, Háteigskirkju við dyrnar og sömuleiðis klerkinn, sr. Eirík Jóhannsson. Þar eru bekkir ekki merktir sérstaklega en skilti við innri dyr sem hvetur fólk til að virða fjarlægðarmörk.

Kór Bústaðakirkju var að æfa sig þegar kirkjan.is leit þar inn vel fyrir kl. 11.00. Þar eru merkingar mjög skýrar og allir sjá strax hvar á að setjast.

Úr Langholtinu var ekið niður í Áskirkju. Þar hitti tíðindamaður organistann Bjart Loga Guðnason sem opnaði fyrir honum. Inni fyrir var klerkur, sr. Sigurður Jónsson, og Jónína Dagmar Ásgeirsdóttir, kirkjuvörður. Fjarlægðarmörk eru augljós á þessum bænum þar sem hvít snyrtileg slaufa í bekkjunum markar af metrana tvo.

Kirkjan.is hitti þar fyrir í dyrum Hallgrímskirkju sr. Sigurð Árna Þórðarson og Grétar Einarssonar en aldrei þessu vant er ekki gengið um aðaldyrnar heldur sunnanmegin og norðanmegin. Hallgrímskirkju er skipt í tvö hólf og merkingar eru skýrar.

Í Dómkirkjunni eru sprittbrúsar á borðum til sitt hvorrar handar þegar gengið er inn. Ekki var að sjá að bekkir væru sérstaklegar merktir.

Í Neskirkju er annar hver bekkur lokaður af með málningarlímbandi. Þar er skýr merking.

Kópavogskirkja er sömuleiðis með skýrar bekkjamerkingar, letrað á miða og málningarlímband þvert á bekkjum til að marka tvo metra af.

Plokkmessan í Bessastaðasókn gekk vel fyrir sig og smellti kirkjan.is mynd af fólkinu en vel gekk að plokka. Stundinni þar lauk úti við kirkjuvegg með kaffi – og kleinum.

Bekkir Hafnarfjarðarkirkju voru vel merktir með smekklegum spjöldum.

Í lok þessarar kirkjuskotsferðar kom kirkjan.is við hjá þeim í Ástjarnarkirkju en þeir voru með guðsþjónustu úti í hrauninu, við hlið kirkjunnar. Þar fór allt fram með miklum sóma og fjarlægðarmarka gætt í hvívetna að sögn prestanna, sr. Arnórs Bjarka Blomsterberg og sr. Bolla Péturs Bollasonar. Boðið var upp á pylsur í lok guðsþjónustunnar. Viðgerðir standa yfir á gólfi Ástjarnarkirkju en galli reyndist í því.

Ljóst er eftir þessa stuttu yfirferð að söfnuðirnir eru mjög svo vakandi í sambandi við smithættu vegna kórónaveirunnar. Gott bil er milli kórfélaga og fólks í kirkjunum. Spritt á öllum stöðum – og víðast hvar merkingar. Og fjöldatakmörkun virt í einu og öllu. Gengið er út frá því að þar sem ekki eru merkingar minni prestar safnaðarfólk sérstaklega á að hafa í heiðri nálægðarregluna.

Ef ætti að veita fegurðarverðlaun fyrir bekkjamerkingar þá hreppir Áskirkja þau eflaust, svo falleg og nett var hvíta slaufan hjá þeim sem markaði metrana tvo.

hsh

Hvítar slaufur á bekkjum Áskirkju