18. maí 2020
Nýr sendiráðsprestur
Biskup Íslands auglýsti fyrir nokkru starf sendiráðsprests í Kaupmannahöfn laust til umsóknar og rann umsóknarfresturinn út á miðnætti þann 2. apríl.
Fjórir prestar sóttu um starfið.
Sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum, hefur sem staðgengill biskup Íslands, ráðið sr. Sigfús Kristjánsson í starfið á grundvelli umsagnar matsnefndar.
Ráðið er í starfið frá 1. ágúst 2020.
Nýi sendiráðspresturinn
Sr. Sigfús er fæddur í Reykjavík 1975 og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1995 og guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands 2001. Hann lauk meistaraprófi í guðfræði á sviði sálgæslufræða 2012. Þá hefur hann sótt fjölda námskeiða á sviði sálgæslufræða, áfalla- og hópslysafræða. Hann hefur verið mjög virkur í starfi skátahreyfingarinnar og starfaði að æskulýðsmálum í Seltjarnarnessókn jafnhliða námi. Hann var vígður árið 2002 til Hjallaprestakalls í Kópavogi og lét af störfum þar árið 2017. Sr. Sigfús var formaður Prestafélags Suðvesturlands 2007-2015. Hann var skipaður verkefnastjóri fræðsludeildar Biskupsstofu árið 2017 og ári síðar sviðsstjóri Fræðslu- og kærleiksþjónustusviðs Biskupsstofu. Kona sr. Sigfúsar er Arndís Th. Friðriksdóttur, sérkennari, og eiga þau tvær dætur.
Starf sendiráðsprests er eitt af störfum sérþjónustupresta þjóðkirkjunnar og lýtur tilsjónar prófasts Reykjavíkurprófastdæmis vestra.
hsh
.jpg?proc=NewsImageSmall)

