Grænir söfnuðir

20. maí 2020

Grænir söfnuðir

Kirkjan umvafin grænum gróðri

Náttúran lætur ekki kórónuveirufaraldur hamla för sinni með hækkandi sól. Engar takamarkanir þar á fjölda né nálægð eins og hjá mannfólkinu.

Margir smávinir fagrir birtast þessa dagana í umhverfinu og allt foldarskart lifnar við til að prýða landið, „sem lifandi guð hefir fundið stað“, eins og skáldið sagði.

Sumarið og gróandinn minnir á grænu söfnuðina. En hvað er það?

Grænir söfnuðir nefnist eitt af verkefnum Grænu kirkjunnar eða umhverfisstarfs þjóðkirkjunnar. Það er fólgið í því að söfnuðir landsins skoða umhverfisáherslur sínar, s.s. flokkun rusls, umhverfisvænar samgöngur, orkunotkun en ekki síður hvort umhverfisstarf og grænar áherslur séu að móta helgihald og fræðslustarf, s.s. barna- og fermingarstarf.

Gefinn var út bæklingur Græni söfnuðurinn okkar þar sem er að finna gátlista með 40 atriðum er snúa að umhverfisvernd. Þeir söfnuðir sem eru að uppfylla a.m.k. átta atriði á þessum gátlista hafa fengið viðurkenningu: Á grænni leið. Nú þegar hafa þrettán söfnuðir fengið slíka viðurkenningu.

Tveir söfnuðir hafa reyndar staðið sig enn betur og geta státað af því að hafa uppfyllt 25 atriði eða fleiri á gátlistanum og hafa þessir söfnuðir fengið viðurkenninguna Grænn söfnuður. Fyrsti söfnuðurinn sem náði þessu marki var Árbæjarsöfnuður en síðan hefur Grafarvogssöfnuður líka bæst í þann hóp.

Það er umhverfisnefnd þjóðkirkjunnar sem veitir þessar viðurkenningar og er stefnt að því að með tíð og tíma verði allir þjóðkirkjusöfnuðir landsins orðnir grænir söfnuðir.

Ljóst er að þetta er aðeins upphafið. Í landinu eru 264 sóknir og 81 prestakall og því mikið verk framundan og spennandi að koma þeim öllum á hina grænu grein.  

Kirkjan.is innti sr. Halldór Reynisson, sem situr í umhverfisnefnd þjóðkirkjunnar, eftir því hvernig gengi á vettvangi grænu kirkjunnar. Hann sagði að kórónuveirufaraldurinn hefði sett strik í reikninginn hjá þeim eins og svo víða. Ekkert varð úr fyrirhugaðri ferð austur á land til að kynna grænu kirkjuna. Undirbúningsstarf stendur yfir á Norðurlandi. Þá er í bígerð að efna til sameiginlegra fundahalda grænu safnaðanna nú í sumarlok en það gæti þjappað fólki enn betur saman og orðið öðrum hvatning til að hefja hina grænu kirkjuför sem víðast.

Á grænni leið

Árbæjarsöfnuður
Biskupsstofa
Breiðholtssöfnuður
Garðasókn (Vídalínskirkja)
Grafarvogssöfnuður
Hallgrímssöfnuður
Háteigssöfnuður
Kársnessöfnuður (Kópavogskirkja)
Keflavíkursöfnuður
Langholtssöfnuður
Lágafellssöfnuður
Nessöfnuður
Selfosssöfnuður

Grænn söfnuður

Árbæjarsöfnuður
Grafarvogssöfnuður.

Græn kirkja er hér.

Sjá hér umhverfisstefnu þjóðkirkjunnar.

Græn kirkja á Facebook

hsh


  • Frétt

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Sóknarnefndir

  • Fræðsla

logo.png - mynd

Síðari umferð kosningar biskups Íslands

25. apr. 2024
...hefst 2. maí næstkomandi.
Ólafur Egilsson

Vinir Hjálparstarfsins fræðast um starfið

24. apr. 2024
...stilla saman strengi
Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta