Stutta viðtalið: Elstur presta og étur nafna sinn

21. maí 2020

Stutta viðtalið: Elstur presta og étur nafna sinn

Sr. Fjalarr Sigurjónsson, hress og kátur, indælismaður

Hann opnar dyrnar og andlit hans ljómar af fögnuði. Þó er hann að taka á móti nær ókunnum manni.

„Eigum við ekki að halda þessum tveimur metrum,“ segir komumaður fullur af samviskusemi hins hlýðna borgara.

Honum finnst þetta fráleitt og hnussar: „Veistu, að ég hef drepið allar þær veirur sem hafa komist í tæri við mig!“

Og kirkjan.is gengur inn í stofu til hans.

„Tylltu þér,“ segir hann vinsamlega.

Hann segir það vera slys og algjöran misskilning að vera enn lifandi. Það sé nú „skrambans“ verr að heilsan mallar áfram svarar hann spurður um heilsuna. „Ég má ekki vera skárri.“

Sr. Fjalarr er yfirvegaður í elli sinni og hress. „Brattur“ eins og sagt er. Hann heldur heimili í bænum og sér um sig sjálfur en tvisvar í viku kemur kona og ryksugar hjá honum og skúrar. Það telst gott af manni sem er hátt á tíræðisaldri – fæddur 1923 á Kirkjubæ í Hróarstungu í Norður-Múlasýslu. Prestssonur.

Sr. Fjalarr þræðir í spjalli sínu vandfarið einstigi sem er milli hinna glannalegu fullyrðinga um sitthvað og hins fölskvalausa gáska sem er fínlega ofinn í raddblæinn, og óræðs svips sem leikur um andlit hans. Það gerir viðmælanda hans ögn áttavilltan, hann veit ekki alveg hvernig eigi að taka þessu enda virðir hann öldunginn mjög svo sem dygð og uppeldi segir til um.

Fjalarr, það er sérstakt nafn. Systkini hans báru sjaldgæf nöfn: Sindri, Frosti, Máni, Vaka. „Ég spurði nú aldrei út í það af hverju við fengum þessi nöfn,“ segir hann hugsi á svip. „En þau eru falleg.“

Ég lifi á nafna mínum

„Hvernig dettur þér annað í hug,“ segir hann þegar spurt er hvort farið sé út á hverjum degi. „Heldurðu að ég hokri yfir sjálfum mér? Ég er búinn að fá nóg af sjálfum mér,“ segir hann fastmæltur og hlær hressilega. „Er að reyna að komast undan mér, hættur að hlusta á ruglið í sjálfum mér.“

Sr. Fjalarr fer í gönguferðir á hverjum degi og verslanir til að kaupa sér mat. „Ég losaði mig við skrjóðinn og nú er ég með fætur tvo,“ segir hann. Hann er grannur og nettur maður „og hef aldrei verið með neina bagga framan á mér til að bera,“ segir hann með spaugsglampa í auga.

Hver dagur hefur alltaf eitthvað að færa þó það sé kunnuglegt. Hann eldar sjálfur og segist passa sig á því hvað hann setji ofan í sig. Og hvað er það helst  sem hann borðar, spyr tíðindamaður.

„Heilsusamlegur matur“, segir hinn aldni klerkur með þungri áherslu. „Eins og hvað?“ spyr tíðindamaður. „Ég kalla það nafna minn,“ segir séra Fjalarr, „Veistu hvað það er?“

Ekki vissi tíðindamaður það.

„Það er þorskur,“ segir klerkur og svo hlær hann. „Ég lifi á nafna mínum.“ 

Situr ekki aðgerðarlaus

En hvað er prestur að gera yfir daginn?

„Tja, ég dunda í garðinum,“ segir hann einbeittur á svip og tekur í nefið með því að setja neftóbakið í lófann og síðan tekur hann kornin upp með fingrunum og stingur í nasir sér. „Ríf upp illgresið, kem skikki á garðinn, og svoleiðis nokkuð.“ Hann horfir hugsi út um gluggann og tíðindamaður spyr hvort þeir eigi ekki að fara út en hann er ekki á því að svo stöddu og segir garðinn vera eyðimörk miðað við það þegar kona hans sá um hann. Síðan rís hann úr stólnum djúpa og gula. Fer fram og sækir myndir. „Sjáðu,“ segir hann stoltur, „þarna er konan í garðinum og hendur hennar voru sannkallaðar gróðurhendur.“ Og garðurinn var eitt blómahaf. Engum sem farið hefur þar um hefur flogið það í hug að bak við húsið við þessa löngu götu í slakkanum sé lítil Paradís.

Kona hans, Beta Einarsdóttir, (1923-2018), var hjúkrunarfræðingur, og þau áttu tvö börn. Þau voru ekki með neinn búskap á Kálfafellsstað. Enda þótt sr. Fjalarr væri alinn upp við búskap þá stefndi hugur hans ekki í þá átt og auk þess var kona hans ekki fyrir búskap, hún var kona gróðurs og lífs, segir hann.

Tvær systur Betu gengu líka að eiga presta, Þóra Einarsdóttir átti sr. Jón Pétursson og Guðlaug Einarsdóttir átti sr. Guðmund Sveinsson

„Dóttir mín sækir mig á eftir,“ segir hann og það birtir yfir svip hans, „ég þarf áburð í garðinn.“

„Nú svo eru það blöðin,“ segir hann og lifnar allur, „ég kíki í þau.“ Hann segir blöðin koma að nóttu til og þá fari hann á kreik og renni yfir blöðin, les þau. „Ég veit ekkert hvenær ég sef, þetta rennur allt í eitt,“ og svo hlær hann glaðhlakkalega.

Þegar séra Fjalarr er spurður um bóklestur þá svarar hann því til að lesturinn felast í því að rifja upp. „Ég dreg bara fram einhverja skruddu úr skápnum áður en ég fer í rúmið,“ segir hann og kátínan skín úr andliti hans, „og það er alltaf eitthvað nýtt og skemmtilegt þó ég hafi lesið það áður.“

Guðfræðiprófi lauk hann árið 1952. Honum sóttist námið vel enda þótt hugur hans hafi stefnt í annað nám um tíma. Í guðfræðideildinni tókust á tvær stefnur, frjálslyndi og íhaldssemi. Bræðralag var félag hinna frjálslyndari en þeir íhaldssamari voru meðal annars í KFUM - í félögunum voru prestar, guðfræðingar og guðfræðinemar. Sr. Fjalarr skipti sér ekki af þessum félögum og segist ekki hafa verið fyrir svona klúbba og ekki viljað æsa sig í trúarpólitískum málum.

Prestsskapurinn Prestsskap sinn hóf sr. Fjalarr í nýstofnuðu Hríseyjarprestakalli árið 1952 en undir það voru settar Hríseyjar- og Stærra-Árskógssóknir. Hann var vígður þangað 27. júlí sama ár. Í Hrísey kom ungi presturinn víða við fyrir utan prestsskapinn. Hann var gjaldkeri Hríseyjarhrepps, gjaldkeri sparisjóðsins, og sjúkrasamlagsins. Jafnframt kenndi hann unglingum í eynni. En sr. Fjalarr og fjölskylda fluttust árið 1963 að Kálfafellsstað í Suðursveit, í Skaftafellssýslu. Sr. Fjalarr sat í hreppsnefnd þar eystra og sýslunefnd. Auk þess sem hann sinnti ýmsum tilfallandi félagsmálastörfum fyrir sitt hérað. Hann varð prófastur árið 1980 og lét af störum 1989 og fluttist til Reykjavíkur. Sr. Fjalarr var formaður Félags fyrrverandi sóknarpresta 1990-1997.

„Já, við vorum óttalegir gaurar sem vígðumst saman,“ segir hann kankvís á svip staddur í minningunum, „sr. Rögnvaldur Finnbogason, sr. Eggert Ólafsson, sr. Sváfnir Sveinbjarnarson, og sr. Björn Jónsson.“ Hann og sr. Sváfnir lifa báðir í hárri elli.

Kennimaður í Suðursveit

„Og hvernig prédikari varstu?“

„Prédikari?“ hváir hann eins og það sé fráleitt að spyrja um það. „Það voru allir búnir að fá nóg af mér – og ég sjálfur mest,“ segir hann hispurslaust og slær sér á lær.

„Ég sagði nú við eftirmann minn þarna í Öræfunum að hann yrði að taka til hendinni og kristna þá því ég hefði afkristnað söfnuðinn,“ heldur hann áfram í vinsamlega ögrandi glannaskap sínum og ljúfum gáska. Þetta er ákveðið stílbragð karaktersins ef svo má segja og viðmælandi verður bara veskú að lesa úr því. En það er græskulaus kátína sem svífur yfir vötnunum og leggur grunn að dæmalausu æðruleysi og góðvild sem stafar frá þessum öldungi. En í grúski sínu sér kirkjan.is ekki betur en að afar gott orð hafi farið af séra Fjalari og þá sér í lagi hafi líkræður hans þótt vandaðar og samdar af innsæi og kærleika.

Og hvernig var að fara um prestakallið í Suðursveitinni?

„Fór um á jeppum ... og Trabant!“, segir hann og hlær hátt, „já maður komst dálítið langt Trabant,“ og bætir því að hann hafi alveg hætt að keyra nú í vor.

Það er margt minnisstætt úr prestsskapnum segir sr. Fjalarr en flest er það nú svo að hann geymir það fyrir sig. „Ég hef lent í ýmsu, þannig,“ segir hann alvarlegur á svip og íhugull.

Á leiðinni út rekur tíðindamaður augun í mynd af öldurmannlegum presti og spyr hver það sé. Þetta er faðir hans – og hann rennir þumli undir annað axlabandið og tínir hægt út úr sér sögu föður síns. Hann var fæddur á Jökuldalsheiði og hóf skólanám við Flensborg í Hafnarfirði, fór síðan í Lærða skólann. Hætti námi og fór til Winnipeg. Þar stundaði hann guðfræðinám og líka í Chicago – hann var átta ár ytra. Síðan kom hann heim og lauk guðfræðiprófi og tók vígslu – og var prestur þar eystra, á Fljótsdalshéraði.

Gæfumaður

Þegar hann er spurður í gáttum útidyra hvort hann sé gæfumaður þá svarar hann því til að það væri skömm af því að þakka ekki fyrir sig enda þótt hann hafi ekki alltaf verið gáfulegur á sínu vitsviði – eins og hann orðar það - og tekið alls konar aukaspor. Hver gerir það svo sem ekki?

Tíðindamaður þakkar sr. Fjalari fyrir skemmtilegt spjall en hann svarar um hæl: „Þú átt ekki að vera að eyða tíma þínum í svona aumingja eins og mig.“ Og svo hlær hann strákslega og brosir breitt. Þegar ég geng upp tröðina stendur hann í dyrunum og veifar hendi brosandi.

hsh


Ungir menn á leið út á akurinn. Á vígsludegi 27. júlí 1952: Frá hægri: sr. Fjalarr Sigurjónsson (f. 1923), sr. Björn Jónsson (1927-2011), sr. Sigurgeir Sigurðsson (1890-1953), biskup, sr. Eggert Ólafsson (1926-1969), sr. Rögnvaldur Finnbogason (1927-1995), sr. Sváfnir Sveinbjarnarson (f. 1928).


Þessi mynd er tekin 15. júlí 1956 við Kirkjubæjarkirkju í Hróarstungu.
Sr. Fjalarr (1923), er lengst til hægri á myndinni, presturinn í miðju er faðir hans, 
sr. Sigurjón Jónsson (1881-1965) í Kirkjubæjarprestakalli í Hróarstungu, en þetta var síðasta ferming hans og hann þá að láta af embætti 75 ára gamall, hafði þjónað í 36 ár. Presturinn lengst til vinstri er sr. Einar Þór Þorsteinsson (f. 1929), en hann þjónaði prestakallinu til 1959.

Fermingarbörnin sem fermd voru þennan dag eru frá vinstri: Ásmundur Þórarinsson (1942), Björn Eiríksson (f.1942), frá Bót, Stefanía Valdís Stefánsdóttir (f.1942), frá Bót, og Geirfinnur Einarsson (1942-1974). (Mynd: Héraðsskjalasafn Austfirðinga).

Morgunblaðið 15. júlí 1956, sagði frá þessari síðustu fermingu sr. Sigurjóns, föður sr. Fjalars. Í Kirkjum Íslands, 24 bindi, bls. 183, segir svo um sr. Sigurjón: 
„Sigurjón á Kirkjubæ varð þjóðsagnapersóna í lifanda lífi, óvenjulegur ræðurmaður og sérstæður persónuleiki. Með honum lauk nærfellt sjö alda sögu prestssetursins sem lagt var formlega niður 1970.“


Klerkur tekur í nefið og er íhugull á svip


Mynd af Kálfafellsstað eftir dótturson sr. Fjalars

Sr. Fjalarr ritaði eftirfarandi minningarorð um eiginkonu sína í Morgunblaðið 13. mars 2018. Þau sýna ást og hlýju, söknuð og von. Persónulegur stíll hans kemur og vel fram.

Eftirmæli
„Nú er hún Beta mín, vörður og verndari um sjötíu ár og gott betur, farin í sína fyrstu heimsreisu. Vegurinn til lífsins liggur um himindjúpin og þar einhvers staðar í eilífðar útsæ vakir Eylendan allra, sem á fósturjörð er ekki lengur vært að lifa. Nú hefur hún fengið botn í það sem ég var oft er færi gafst að staglast á öðrum til ama og leiðinda. Gáfulegra væri mér að guma minna af sérvisku minni í eilífðarmálunum og fara mér hægt og bíða átekta í skjóli efans. Það næðir vonandi ekki um mann á meðan.

Það eru orðin mörg árin frá fyrstu kynnum. Þá vorum við að greiða götu fólksins í þessu landi – eins og fjöldi annarra í sömu iðju – úr troðningum inn í nútímann. Sagan segir að austur á Gyðingalandi boðaði Jóhannes vegabætur þjóð sinni og þar var úr öðrum jarðvegi að pæla en nánast á bökkum Jöklu. Svo komu verkalok og leiðir skildi. Beta kaus sinn menntaveg og ég baukaði í mínum skóla til loka. Enn urðu endurfundir og nú við Sundin blá – hún komin í Hjúkrunarskólann. Hún hafði fundið það sem í eðli bjó að hjúkra þjáðum og verða að liði að líkna og bera birtu inn í dapran huga. Það fór nú svo að hún sat uppi með mig – hálfráðvilltan á torgum – ekki brást henni kjarkurinn, það er hægt að móta eitthvað nothæft úr röftum. Og svo krækti ég mér í réttindi til að verða talinn maður með mönnum. Við kvöddum borgina í 37 ár. Þau reyndust okkur engin nauðung þvert í mót. Beta setti mark sitt á mannlífið hvar sem við slógum tjöldum.

Heimilið var hennar verk og vé. Hún vildi sjá lífið, gæfuna og gleðina í hjörtum fólksins, í húsinu heima og gróandann í varpanum. Eftir að útivist lauk var haldið í bæinn og nú héldu henni engin bönd. Hún vann við hjúkrun á Hrafnistu um nokkurt ára bil og sló ekki slöku við. Lítil kveðja segir allt sem þarf. Henni var þá eitt sinn lagður miði í lófann af vistmanni:

„Um huga þinn glæðir og létt er þín lund,
þegar lífsins úr flækjum greiðir,
og á það leggur þú alla stund,
að opna nýjar og betri leiðir.“
Af ærnu er enn að taka en fellum talið.

Á þriðja ár átti hún vist á Skjóli. Þar var hlúð að henni af þeim sem réðu á fimmtu hæð og starfsfólki öðru sem meira mæddi á. Hugurinn ber menn annað veifið heim – annað væri undarlegt. Þar er þá einhvers að minnast sem áður var. Hún þakkar vistina og starfsliði öllu allt sem gott var gert. Þar á andi kærleikans til að vernda húsið.

Börnin okkar Anna og Máni eiga auð í sálu sinni – minningarnar um móður sína Betu. Þar var skjólið að finna og þau þakka það á sinn hátt. Niðjar hennar, tengdabörnin Gísli og Anna og venslafólk eru með sama huga að mannbætandi væri að eiga hana að. Hjördís er nú merkisberi systranna níu frá Esjubergi á Akranesi.

Þó allt sé nú klárt á pappírnum, þá eru þriðju endurfundir okkar ekki enn bókaðir. Hún verður að umbera það eins og annað ef slórið endist fram úr hófi. Ef um semst munum við rölta saman um sinn og sjá meira af undrum veraldar. Njóttu þess að vera til og láttu lífið leika um vanga þinn. Kæra vina, sjáumst síðar.

Fjalarr Sigurjónsson.“

 


  • Heimsókn

  • Menning

  • Öldrunarþjónusta

  • Samfélag

  • Trúin

  • Frétt

Bænagangan 3.jpg - mynd

Bænagangan 2024

23. apr. 2024
...á sumardaginn fyrsta
Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs