Biskup heimsækir Kaffistofu Samhjálpar

28. maí 2020

Biskup heimsækir Kaffistofu Samhjálpar

Heimsókn í Kaffistofu Samhjálpar í dag

Í dag heimsótti biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, Kaffistofu Samhjálpar í boði Valdimars Þórs Svavarssonar, framkvæmdastjóra samtakanna. Með biskupi í för voru þau sr. Þorvaldur Víðisson, biskupsritari, Ragnheiður Sverrisdóttir, djákni, Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálpartarfs kirkjunnar, og sr. Hreinn S. Hákonarson, sérþjónustuprestur.

Biskup og fylgdarlið hennar snæddi hádegismat í boði Samhjálpar og Valdimar Þór fræddi um starfsemina ásamt Jónu Björgu Howard, verkefnastjóra Kaffistofunnar.

Kaffistofa Samhjálpar er til húsa í Borgartúni 1a sem er ekki langt frá höfuðstöðvum þjóðkirkjunnar, Biskupsstofu, í Katrínartúni 4. Kaffistofan hefur opið frá kl. 10.00-14.00 alla virka daga og ögn styttra um helgar og hátíðir. Boðið er upp á morgunkaffi og hádegismat.

Valdimar Þór sagði að framreiddar væru um 180 máltíðir á dag eða hátt í sjötíuþúsund á ári. Hann telur mikla þörf á rekstri Kaffistofunnar og hefur aðsóknin aukist nokkuð þétt. Fram kom kom að mun fleiri karlmenn en konur nýta sér þjónustu Kaffistofunnar.

Jóna Björg Howard, verkefnastjóri, lýsti daglegum rekstri Kaffistofunnar og þeim ágæta anda sem þar ríkir. Sagði hún það ótrúlegt hvað allt gengi vel fyrir sig enda þótt skjólstæðingarnir væru stundum misvel upplagðir. Þó getur komið til ýfinga milli gesta með stuttum fyrirvara en oftast tekst starfsmönnum að lempa mannskapinn. Valdimar Þór sagði fyrirtæki vera mjög velviljuð Kaffistofunni og gæfu þau þeim matvæli. Jóna Björg sagði þetta vera góð matvæli og holl. Hún sagðist hafa hörkugóðan mannskap í eldhúsinu og þar kæmi meðal annars við sögu fangahjálpin Vernd.

Þráinn Bj. Farestveit, var og viðstaddur heimsóknina, en hann er framkvæmdastjóri Verndar. Lýsti hann því hvernig Vernd tengdist rekstri Kaffistofunnar en það er fyrst og fremst með því að útvega henni starfsmenn í eldhúsið og önnur tengd störf. Þessir starfsmenn eru vistaðir á áfangaheimili Verndar og eru að ljúka afplánun. Eitt af skilyrðum þess að þeir eru vistaðir þar er að þeir hafi vinnu eða sæki skóla. Samstarf Verndar og Kaffistofunnar hefur staðið yfir í fjöldamörg ár og gengið ljómandi vel.

Maturinn sem gestirnir borðuðu var afbragðs góður og sá hinn sami og gestir og gangandi fengu er þar voru þá biskup og fylgdarlið hans var á staðnum. Var um að ræða forrétt, aðalrétt og eftirrétt.

Margt var spjallað um aðstæður utangarðsfólksins og þeirra sem minna mega sín í samfélaginu. Umræður voru góðar og gagnlegar og spurt var um margt sem snertir þennan samfélagshóp sem býr við fjölþættan vanda. 

Dagsetur fyrir konur Þessi heimsókn var gott og þarft innlegg inn í þá umræðu og vinnu sem fram fer að tilhlutan sr. Agnesar, biskups, í sambandi við að koma upp dagsetri fyrir heimilislausar konur. Ragnheiður Sverrisdóttir, djákni, veitir þeirri vinnu forystu og er ráðgert að dagsetur kirkjunnar fyrir konur taki til starfa með haustinu. Hjálparstarf kirkjunnar mun halda utan um þá starfsemi.

Biskup þakkaði í lokin Samhjálparfólkinu kærlega fyrir móttökurnar og athyglisverðar upplýsingar. 

Á aðalmynd með frétt, frá vinstri: Valdimar Þór, Ragnheiður, Þráinn, Bjarni, sr. Agnes, Jóna og sr. Þorvaldur

Facebókarsíða Kaffistofu Samhjálpar

hsh


Málin rædd. Frá vinstri: Bjarni, sr. Agnes, Jóna, sr. Þorvaldur, Valdimar Þór, og Ragnheiður, djákni


Maturinn var til fyrirmyndar og sýnir kærleika og virðingu sem borin er fyrir skjólstæðingum Samhjálpar


  • Frétt

  • Hjálparstarf

  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Biskup

Ólafur Egilsson

Vinir Hjálparstarfsins fræðast um starfið

24. apr. 2024
...stilla saman strengi
Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta
Bænagangan 3.jpg - mynd

Bænagangan 2024

23. apr. 2024
...á sumardaginn fyrsta