Stutta viðtalið: Áhugasöm ungmenni

5. júní 2020

Stutta viðtalið: Áhugasöm ungmenni

Nemendur frá Egilsstöðum og Seyðisfirði í Farskóla leiðtogaefna

Eitt af farsælustu verkefnum kirkjunnar er Farskóli leiðtogaefna.

Kirkjan.is ræddi við sr. Sigríði Rún Tryggvadóttur, prest á Seyðisfirði og prófast í Austurlandsprófastsdæmi, um Farskólann.

„Námið eru tveir vetur og kennt er eftir aðferðafræði sem byggir á æskulýðsþjálfun innan ramma óformlegs náms. Nemendur eru mjög virkir og hafa mikið að segja um útkomu og þróun námsins,“ segir sr. Sigríður Rún.

Í vetur var samstarfið við ÆSKEY (Æskulýðssamband kirkjunnar á Norðurlandi) endurvakið við mikla ánægju þátttakandenda og leiðtoga. Voru rúmlega þrjátíu nemendur frá Norður- og Austurlandi skráðir í Farskólann og þar af er tæplega helmingur að klára seinna árið sitt.

„Farskólinn hefur starfað allt frá árinu 2005 í Austurlandsprófastsdæmi,“ segir sr. Sigríður Rún.

Fjölbreytt námsefni og skemmtilegt  Námsefni vetrarins var hópavinna, það var skoðað hvernig félagsstarf virkar og hvernig á að halda fundi, hvernig á að takast á við vandamál og breyta þeim í verkefni. Hvernig hægt er að nota kvikmyndir í æskulýðsstarf, t.d. sem kveikju að umræðum,“ segir sr. Sigríður Rún. Þá hafi verið fjallað um kristið samfélag í trú og gleði og þjóðkirkjuna almennt. Nemendur hafi fengið kynningu á hjálparstarfi. „Og að lokum voru framsögn og tjáning æfð,“ segir sr. Sigríður Rún og að „samhliða Farskólanum hafi leiðtogaefnin tekið þátt í barnastarfi í sínum sóknum.“

Í vetur fór Farskólinn fram í tveimur helgarsamverum, önnur var á Eiðum og hin í sumarbúðum KFUM/K við Hólavatn.

„Ungmennin okkar kunna að meta þetta samstarf, þau kunna að meta fjölbreytnina og að hitta aðra unglinga og því var ánægja með að endurvekja það samstarf,“ segir sr. Sigríður Rún.

Leiðtogaefnin - þátttakendurnir - eru á aldrinum 14-16 ára frá og í ár voru þau frá Egilsstaða-, Seyðisfjarðar-, Eskifjarðar-, Reyðarfjarðar-, Vopnafjarðar-, Akureyrar- og Glerárkirkju.

Jóhann Þorsteinsson, kennari og starfsmaður KFUM og K, annar höfunda námsefnisins og margreyndur í kennslu og æskulýðsstarfi, var skólastjóri í Farskólanum í vetur. Prestar og æskulýðsstarfsfólk úr báðum prófastsdæmum starfaði með honum.

Hvað verður um leiðtogaefnin?

Kirkjan.is spurði sr. Sigríði Rún hvað yrði svo um leiðtogaefnin og hún svaraði:

Leiðtogar fara í ýmsar áttir „Eftir 10. bekk fara mörg ungmenni í skóla á Egilsstöðum, Norðfirði, suður eða norður. Flestar sóknir missa því leiðtogaefnin sín, en frá mér verða nokkur að vinna í sumarbúðunum við Eiðavatn í sumar. Meðan þau eru í Farskólanum aðstoða þau öll í barnastarfi í sínum sóknum. Við erum því lánsöm. Á Egilsstöðum er framhaldsskóli og leiðtogarnir halda oft áfram í starfinu hjá okkur.“


Sr. Sigríður Rún segir kirkjurnar greiða fyrir sín leiðtogaefni að hluta til en æskulýðssamböndin það sem upp á vantar. „Og svo fáum við góðan styrk frá Fræðslusviði Biskupsstofu.“

Útskrift

Hver söfnuður útskrifar sinn hóp frá sinni kirkju. „Mér finnst það skipta máli því að þá er þetta starf sýnilegt söfnuðinum,“ segir sr. Sigríður Rún. „Hópurinn frá Seyðisfirði útskrifast nú á sunnudaginn og og ungmennin frá Egilsstöðum verða útskrifuð við messu í Eiðakirkju 14. júní.“

Engu þarf að kvíða Farskólinn er svo sannarlega gott dæmi um öflugt starf og vonarríkt í kirkjunni og þess vegna er mikilvægt að standa þétt við bakið á honum. Og þó að allir nemendur skili sér ekki strax inn í kirkjustarf þá er búið að sá þar góðum og sterkum fræjum sem munu fyrr eða síðar bera ávöxt kirkjustarfi til heilla. Kirkjan þarf engu að kvíða á meðan áhugasöm ungmenni láta sig starf hennar varða.

Og hvað sagði nú ekki skáldið góða sem eitt sinn var ritstjóri Bjarka á Seyðisfirði, heimabæ sr. Sigríðar Rúnar:

            Ef æskan vill rétta þér örvandi hönd,
            þá ertu á framtíðar vegi.

Mannauður kirkjunnar leynist víða hjá fólki á öllum aldri. Það er blessun hennar og styrkur á vegi framtíðarinnar.

hsh


Margt um að spjalla í Farskólanum og áhuginn leynir sér ekki