Sumarstund í kirkjunni

29. júní 2020

Sumarstund í kirkjunni

Í Dómkirkjunni í morgun. Fremst frá vinstri: Margrét Bóasdóttir, söngmálastjóri, Ragnheiður Sverrisdóttir, djákni, sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup, sr. Þorvaldur Víðisson, biskupsritari. Miðröð frá vinstri: Bryndís Böðvarsdóttir, Sigurður Már Hannesson, Þorgeir Albert Elíesersson, Matthildur Bjarnadóttir. Efsta röð frá vinstri: Guðrún Eggertsdóttir, Edda Hlíf Hlífarsdóttir, Snævar Jón Andrésson, Hilmir Kolbeins

Í dag fór fram útskriftarathöfn í Dómkirkjunni í Reykjavík.

Í þetta sinn voru það aðeins guðfræðikandidatar en enginn djáknakandidat sem luku starfsþjálfun sem kærleiksþjónustusvið Biskupstofu sér um að hluta til. Guðfræði- og trúarbragðadeild kemur að starfsþjálfuninni með kennslu kennimannlegra fræða og sér auk þess um starfsmenntunarhlutann samkvæmt samningi. Þess má geta að samningur guðfræði- og trúarbragðadeildar og þjóðkirkju var endurnýjaður fyrir skemmstu, sjá hér.Starfsreglur um þjálfun prestsefna má sjá hér hér og um djáknaefna hér.

Það var vígslubiskupinn á Hólum, sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, í umboði biskups Íslands, sem ávarpaði kandidatana og afhenti þeim útskriftarskírteini sín.

Margrét Bóasdóttir, söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, stjórnaði söng.

Útskriftarathöfn er einu sinni á ári og nokkrir guðfræðingar voru þá þegar útskrifaðir á háskólaárinu.

Þau sem tóku á móti útskriftarskírteinum sínum í dag voru:

Bryndís Böðvarsdóttir, mag. theol.
Edda Hlíf Hlífarsdóttir, mag. theol.
Guðrún Eggertsdóttir, mag. theol.
Hilmir Kolbeins, mag. theol.
Matthildur Bjarnadóttir, mag. theol.
Sigurður Már Hannesson, mag. theol.
Snævar Jón Andrésson, mag. theol.
Þorgeir Albert Elíesersson, mag. theol.

Einnig útskrifaðist á árinu Ægir Örn Sveinsson, mag.theol., en hann var fjarstaddur.

Sumar í kirkjunni Segja má að það sé sumarstund í kirkjunni þegar svo efnilegur hópur aflar sér guðfræðimenntunar og starfsþjálfunar til að gegna störfum í þjóðkirkjunni.

Í kaffisamsæti við lok athafnar kvaddi Ragheiður Sverrisdóttir, djákni, sér hjóðs og þakkaði Elísabetu Bertu Bjarnadóttur fyrir þátt hennar í starfsþjálfuninni á liðnum árum en hún lætur nú af störfum hjá Fjölskylduþjónustu kirkjunnar.

Þetta segir Ragnheiður Sverrisdóttir, djákni, um starfsþjálfunina:
„Starfsþjálfunin fer fram á ábyrgð Biskupsstofu og var með svipuðu sniði á liðnu ári og undangengin ár. Skilyrði til að komast í starfsþjálfun fyrir prestsefni er að hafa lokið BA-prófi frá guðfræði- og trúarbragðadeild H.Í., og vera byrjuð í mag.theol.-námi. Djáknaefni í BA-námi þurfa að vera búin með 1 ár (60e) en þeim sem eru í viðbótar-diplómanámi er heimilt að byrja strax í upphafi námsins við H.Í. Í upphafi eru tekin viðtöl við umsækjendur sem verkefnisstjóri og Elísabet Berta Bjarnadóttir, félagsráðgjafi hjá Fjölskylduþjónustu kirkjunnar, hafa tekið. Sr. Þorvaldur Víðisson og sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir taka viðtöl við prestsefnin. Þá taka nemendur persónuleikaprófin PAI (Personality Assessment Inventory), og DIP-Q (The DSMIV and ICD-10 Personality Questionnaire (DIP-Q.). Niðurstaða þeirra er bæði kynnt viðkomandi nemanda, verkefnisstjóra, biskupsritara og þeim tveim sem taka viðtölin við þau. Viðtöl við biskup eru í upphafi og lok þjálfunarinnar. Þá er leiðtoganámskeið, kynning á stofnunum og starfi kirkjunnar; kyrrðardagar, þjálfun úti á vettvangi og í lokin matsviðtöl. Marteinn Steinar Jónsson, sálfræðingur, annast sálfræðiprófin og viðtöl tengd þeim. Hann sér einnig um leiðtoganámskeiðið. Mikilvægur hluti af starfsþjálfuninni fer fram úti á vettvangi, aðallega í söfnuðum en einnig á sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum og í orlofi aldraðra á Löngumýri í Skagafirði. Bæði prestar og djáknar eru starfsþjálfunarkennarar og sinna leiðsögn og þjálfun nema. Ýmsir aðrir starfsmenn safnaða tengjast þessari þjálfun því nemandi þarf að kynnast öllum þáttum starfs kirkjunnar. Í upphafi þjálfunar úti á vettvangi gera nemandi og starfsþjálfunarkennari samning sín á milli um starfsþjálfunartímabilið og fyrirkomulag þess. Leiðsögn starfsþjálfunarkennara er afar mikilvæg.“  

hsh


Sr. Solveig Lára ávarpar útskriftarnemana


Elísabet Berta Bjarnadóttir, félagsráðgjafi hjá Fjölskylduþjónustu kirkjunnar, hefur lengi
komið að starfsþjálfun nemanna og lætur nú af störfum. Ragnheiður Sverrisdóttir
ávarpaði hana af því tilefni og afhenti henni blómvönd í þakkarskyni


  • Frétt

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Skipulag

  • Trúin

  • Viðburður

  • Biskup

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut