Stutta viðtalið: Kirkja og menning undir Jökli

4. júlí 2020

Stutta viðtalið: Kirkja og menning undir Jökli

Sr. Arnaldur Máni Finnsson - bak honum Maríumynd i Staðastaðakirkju eftir Tryggva Ólafsson. Myndina tók Steingrímur Þórhallsson, organisti

Kirkja hefur verið á Staðastað frá því á 12. öld.

Staður á Ölduhrygg er umlukinn djúpri fegurð og sögu aldanna.

Sr. Arnaldur Máni Finnsson, sóknarprestur, hefur taugar til lista, sögu og fegurðar. Í honum blundar dálítið brot af sr. Jóni Prímusi. Prestur sem hugsar sjálfstætt og lætur ekki hversdagslega hluti trufla sig um of.

Margfræg dulúð Jökulsins eina og segulmagn hreyfir við þungum straumum sálardjúpsins – og menn vita jafnvel ekki af því. Það er gott. Og veit á gæfu. Og Jökullinn stendur opinn, sagði séra Jón Prímus á sinni tíð. Og sennilega er svo enn – að minnsta kosti hefur ekki frést að honum hafi verið lokað. Ekki einu sinni á kórónuveirutíð.

Trúar- og menningarhátíð hefst á morgun í kirkjunni á Stað á Ölduhrygg. Klukkan 15.00. Dagskráin er tileinkuð Maríu guðsmóður en kirkjan á Staðastað var henni helguð í kaþólskri tíð eins og svo margar aðrar.

„Tónlist er þar í öndvegi,“ segir sr. Arnaldur Máni glaður í bragði. Til stendur að flytja í fyrsta sinn ný tónverk við gömul Maríukvæði ásamt klassískum helgitextum og sálmum. „Það eru Maríusysturnar í Stykkishólmi sem flytja ásamt Hljómórum.“

Hljómórar er skemmtilegt orð.

Hverjir eru þeir?

„Tríó þriggja organista af Vestfjörðum – kannski galdraorganistar, hver veit?“ svarar sr. Arnaldur Máni dularfullur á svip.

Tónverkin eru eftir þau Jón Gunnar Biering Margeirsson og Rúnu Esradóttur

Listrænn stjórnandi er Dagný Arnalds.

Maríusysturnar eru þær María Birhen Ng Ngiti, María Sabiduría de la Cruz og María de Pentecostés.

Sr. Arnaldur Máni kemur og við sögu í flutningnum.

Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Vesturlands og Menningarsjóðnum undir Jökli.

Jörð og himinn snertast „Helgistundin á morgun er nokkurs konar sögulína milli jarðar og himins, sett upp eins og stutt ferðalag um veröld Maríu,“ segir séra Arnaldur Máni. „Kannski er þetta ferðalag ekki nein borgarlína. En það er örugglega heimslína.“

Veröld Maríu guðsmóður í nútímanum  getur kallað á miklar vangaveltur– þegar Guð hefur samband við jörð og felur ungu konunni Maríu að fæða guðsoninn í heiminn – eða með orðum séra Jóns Prímusar:

Gott samband gulli betra „Þegar fífill kallar með ilmi á flugu að gefa henni hunáng; og flugan ber frjóin úr blóminu burt með sér í leiðinni og sáir þeim í fjarlægum stað, - það kalla ég mikið samband.“ (Halldór Laxness, Kristnihald undir Jökli, bls. 189).

Dagskráin í Staðastaðarkirkju á morgun er spennandi. Og hví ekki að skreppa vestur á Nes?

Enginn verður svikinn af því. Fegurðin skilur að minnsta kosti eftir fjársjóð í hjartanu. Það er ekki ónýtt.

Nú, svo er Jökullinn örugglega opinn.

hsh


    Söngvahátíð 7.jpg - mynd

    Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

    23. apr. 2024
    ...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta
    Bænagangan 3.jpg - mynd

    Bænagangan 2024

    23. apr. 2024
    ...á sumardaginn fyrsta