Vídalín bankar upp á

15. júlí 2020

Vídalín bankar upp á

Ritverk um Jón Vídalín - tvö bindi

Jón biskup Vídalín var fæddur árið 1666 og lést árið 1720.

Þrjú hundruð ár eru liðin frá því að hann lést.

Á þessum tímamótum gefur þjóðkirkjan út í samvinnu við Skálholtsútgáfuna, tveggja binda verk um ævi og ritstörf biskupsins. Höfundur ævisögunnar er dr. Torfi K. Stefánsson Hjaltalín, og einnig tók hann saman ritin í seinna bindi verksins.

Aðfaraorð að fyrra bindi skrifar forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson og að seinna bindi, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.

Hver var Jón Vídalín?

Jón Þorkelsson Vídalín (1666–1720) var biskup í Skálholti um tveggja áratugaskeið en lést langt fyrir aldur fram á leið sinni vestur að Staðastað þar sem hann hugðist mæla yfir moldum mágs síns.

Hann var tvímælalaust best menntaði guðfræðingur landsins á sinni tíð og raunar mun lengur.

Þekktastur er hann fyrir áhrif sín á kristnihald í landinu, einkum vegna Vídalínspostillu og annarra guðræknirita sem náðu mikilli útbreiðslu.

Jón hélt til náms við Kaupmannahafnarháskóla árið 1687 og lauk þaðan prófi í guðfræði og heimspeki.

Að loknu prófi gekk hann í danska herinn þangað til Þórður biskup Þorláksson í Skálholti kallaði hann sér til aðstoðar árið 1691. Jón var settur aðstoðarbiskup 1697 en hið sama ár lést Þórður biskup og í árslok var Jóni veitt biskupsstaðan.

Biskupstíð Jóns var honum örðug um margt, einkum vegna yfirgangs veraldlegra embættismanna og deilna við þá. Þessa sögu rekur dr. Torfi K. Stefánsson Hjaltalín skilmerkilega í ævisögunni og leitar víða fanga í heimildir.

Kröftugur maður Sem biskup var Jón í senn strangur og mildur en ljóst er af rannsókn bókarhöfundar að hann hefur ekki alltaf fengið að njóta sannmælis. Jón hafði gott vald á fornmálunum, einkum latínu og grísku eins og lærðum mönnum sæmdi. Hann þýddi sjálfur stóran hluta Nýja testamentisins úr frummálinu og samdi bæði bréf og ljóð á latínu.


Flest rit hans komu síðast út á 19. öld. Kristindómskverið kom reyndar út um miðja 18. öld, en Miðvikudagspredikanir hans voru næstum jafnvinsælar og Vídalínspostilla en hafa á síðari árum gleymst að mestu.

Úr þessari gleymsku er reynt að bæta með útgáfu þessa ritsafns. Það sem hér kemur á prenti í fyrsta sinn eru predikanir Jóns yfir Faðir vor, þýðing hans á Hebreabréfinu og skýringar hans við það, og að lokum mörg bréfa hans.

Forsala verður á ritverkinu um Jón Vídalín til 15. ágúst sjá hér.

 

   

Glæsilegt myndverk um glæsilegt verk

Jón Vídalín í nútímanum

Vídalín á twitter?
Kannski kannast flestir við reiðilestur Jóns Vídalíns. Hann er sígildur bókmenntatexti sem er lesinn í skólum. Áhrifaríkur lestur og svo hrífandi í orðsnilld sinni og krafti að einn twitter-notandi kallar sig Jón Vídalín og er með mynd af honum – og undir henni stendur: er ekki lengur reiður. Þannig tengist 17du og 18du aldar maðurinn netheimum nútímans. En útgáfan á ævisögu hans og ritverkum á hins vegar að tengja hann raunheimi nútímans.

hsh

Jón Vídalín lést í Biskupsbrekku á Uxahryggjaleið 30. ágúst 1720
Minningarmark var reist þar fyrir nokkrum árum, kross og steinn
Málþing verður um Jón Vídalín 30. ágúst – nánar verður sagt frá því síðar

  • Guðfræði

  • Menning

  • Samstarf

  • Trúin

  • Útgáfa

  • Viðburður

  • Frétt

Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta
Bænagangan 3.jpg - mynd

Bænagangan 2024

23. apr. 2024
...á sumardaginn fyrsta