Kópavogskirkja á hvolfi

18. júlí 2020

Kópavogskirkja á hvolfi

Kópavogskirkja 17. júlí - austurhlið

Það var mikið um að vera í Kópavogskirkju í gærmorgun þegar kirkjan.is leit þar við. Kirkjan var nánast óþekkjanleg þegar inn var komið - allt á hvolfi eins og stundum er sagt. Bekkjum hafði verið staflað út í eitt horn hennar og plast breitt yfir. Á gólfi voru hlífðarplötur og fyrir framan altarið var stóreflis vinnutæki. Og orgelið var hjúpað plasti. Búið var að fjarlægja nokkra af steindu gluggunum á norðurhlið og austurhlið. Tvö vörubretti höfðu verið sett upp á rönd úti í einu kirkjuhorninu og plötu smellt á milli, hókus pókus: kaffiborð! og þau eru misjöfn eins og alþjóð veit. Þetta var ekki dúkað hvítu damaski – nei, kaffistaukar, gosflöskur, vinnuvettlingar og opnir kexpakkar.

Og ástæðan fyrir þessu raski í helgu húsi?

Annar áfangi í listgluggaviðgerð stendur yfir.

Dr. Stefán Oidtmann er kominn enn og aftur til landsins. Hann þekkir vel til Íslands. Fyrirtæki hans sá meðal annars um viðgerð á gluggum Skálholtsdómkirkju fyrir tveimur árum eða svo en það var mikið verk og vandasamt en tókst ljómandi vel.

Fyrir tveimur árum var dr. Stefán staddur hér á landi og þá var gengið í fyrri áfanga verksins í Kópavogskirkju.

Dr. Stefán er hress maður í viðræðu, ljúfur og viðkunnanlegur, og mjög svo áhugasamur um hvert verk sem hann er að sinna í það og það skiptið. Með honum eru þrír starfsmenn fyrirtækisins: Oidtmann: Werkstätten für Glasmalerei – Mosaik – Restaurierungen. Einn þeirra er sonur dr. Stefáns, Mikjáll ef kirkjan.is heyrði rétt (og þó svo hafi ekki verið þá er það býsna gott nafn á starfsmanni í þessum kringumstæðum) og er hann sjötta kynslóð sem vinnur hjá fyrirtækinu en það er 160 ára gamalt – svo sannarlega fjölskyldufyrirtæki!

Oidtmann-fyrirtækið er listiðnaðarverkstæði sem hefur gert glugga í nokkrar kirkjur hér á landi eins og í Skálholtsdómkirkju og Hallgrímskirkju í Saurbæ svo tvær séu nefndar. Listakonan Gerður Helgadóttir (1928-1975) á heiðurinn að þessum gluggum eins og þeim í Kópavogskirkju.

„Fyrirtæki okkar vann þessa glugga á sínum tíma fyrir listakonuna,“ segir dr. Stefán og bætir því við að fjölskylda hans hafi átt vináttu hennar og traust.


Dr. Stefán Oidtmann og sonur hans, fimmta og sjötta kynslóð í listfyrirtækinu

„Það hefur ýmislegt breyst í sambandi við uppsetningu á steindu gleri í kirkjum og öðrum húsum frá því að þessir gluggar voru settir upp fyrir um tæpum sextíu árum.“ Hann segir að fyrirtækið hafi þróað ýmsa nýja verkþætti sem snúa að uppsetningu á steindum gluggum sem orðið hafi til í kjölfar rannsókna.

Að mörgu að hyggja „Það skiptir öllu máli að góð loftræsting sé milli ytra glers og steinda glersins,“ segir dr. Stefán og bendir á steindan glugga á suðurhliðinni og hvernig honum er komið fyrir. Það andar vel á milli og hann er settur nákvæmlega í en þó fáeinir millimetrar milli gluggajaðars og gluggapósts. Dr. Stefán segir að suðurgluggarnir hafi verið verr farnir en til dæmis gluggarnir á norðurhliðinni sem nú er verið að taka út. „Blessuð sólin hefur sín áhrif á gler og umgjörð,“ segir hann brosandi, „svo er það náttúrlega vindur og regn sem taka á öllum húsum.“ Ef fúi grefur um sig í gluggapóstum þá hefst margvísleg efnastarfsemi sem hefur sín áhrif – ekki bara á mannfólkið heldur og allt í kringum sig. Loks er eitt grundvallaratriði sem miklu máli skipti og það sé að þeir komi að viðgerð og hreinsun verksins sem hafi á sínum tíma sett það saman og þekki það í þaula.

Þennan morgun gekk verkið fremur hægt fyrir sig einmitt vegna þess að það blés hressilega á þessum sumardegi og auk þess hékk hitinn í tæpum átta gráðum í Borgarholtinu í Kópavogi. Menn frá Fagsmíði klæddir vetrargalla voru á vinnupalli á austurhlið að huga að gluggum og umbúnaði þeirra.

Starfsmenn Oidtmanns fóru mildum höndum um listgluggana eins og þeir væru að strjúka ungabarni.

Á sumum gluggum hefur blýtenging milli glerja gefið sig og það þarf að laga. Betri aðferðir við blýtengingar hafa verið þróaðar á síðustu áratugum. Þá tærist blý einnig.

Kirkjan.is spyr dr. Stefán hvort fyrirtæki hans fari víða um í þessum erindagjörðum.

„Við erum núna með verkefni í Austurríki og Írlandi,“ segir dr. Stefán, „og náttúrlega í Þýskalandi.“ Fyrirtækið vinni í mörgum löndum en að sjálfsögðu eru starfandi svipuð fyrirtæki í öðrum löndum sem sjá þá um þessa þætti.

En það eru ekki bara steindir gluggar sem Oidtmann-fyrirtækið sér um að gera við og hreinsa heldur og mósaíkmyndir.

„Við löguðum altarismyndina í Skálholti,“ segir dr. Stefán. Hann segir að þeim hafi verið falið að yfirfara hina glæsilegu mósaíkmynd Gerðar Helgadóttur á Tollhúsinu í Tryggvagötu. Þar standa nú yfir miklar framkvæmdir og fyrirhugað sé að þar verði torg og myndinni verði gert hærra undir höfði en áður.

Dr. Stefán er ánægður með heimsóknir sínar til Íslands og honum þykir vænt um að til hans sé leitað í sambandi við verk Gerðar Helgadóttur – sem og reyndar annarra listamanna.

Gluggarnir verða svo sendir út til Þýskalands til borgarinnar Linnich en þar eru höfuðstöðvar Oidtmanns-fyrirtækisins – sá bær er ekki langt frá stórborgunum Köln, Achen og Düsseldorf. Gluggarnir eru settir í þar til gerðar umbúðakistur. Stefán taldi að gluggarnir yrðu komnir aftur síðla árs en erfitt væri að segja til um það vegna þess að tollafgreiðsla gæti tekið langan tíma.

Oidtmannverkstæðið hefur sett upp glugga í þessum kirkjum:
Hallgrímskirkju í Saurbæ
Kópavogskirkju
Skálholtsdómkirkju
Ólafsvíkurkirkju
Keflavíkurkirkju
Þykkvabæjarkirkju
Hafnarfjarðarkirkju
Hveragerðiskirkju
Selfosskirkju
Neskirkju
Áskirkju.

Kirkjan.is hvetur lesendur sína til að bæta við fleirum kirkju (í gegnum Facebook kirkjunnar) sem þeir kunna að vita af og ekki eru nefndar hér. Fram skal tekið að gluggar eftir Gerði Helgadóttur eru ekki í öllum þessum kirkjum sem nefndar eru – aðrir listamenn koma þar og við sögu.

Listakonan Gerður
„Ég dáist svo að því hve auðmjúkur listamaður Gerður var og hve mikla lotningu hún bar fyrir því sem hulið er. Hún var elskuleg manngerð, hlý og traustvekjandi, óeigingjörn með afbrigðum og lifði fyrir listina eina. Auðmýkt var rík í fari hennar og trúarstrengur hennar styrkur.“                                   
(Sr. Sigurjón Guðjónsson (1901-1995), prestur í Saurbæ í Hvalfirði, hann þjónaði þar þegar listgluggar Gerðar voru settir upp. Úr bókinni: Gerður, ævisaga myndhöggvara, eftir Elínu Pálmadóttur, R. 1985, bls. 177.)

hsh