Klyppsstaðamessan

21. júlí 2020

Klyppsstaðamessan

Sr. Solveig Lára prédikar á Klyppsstað
Sums staðar eru messur í kirkjum aðeins einu sinni á ári. Það eru gjarnan kirkjur á stöðum sem hafa farið í eyði. En kirkjuhúsið stendur kannski eitt húsa uppi og því er viðhaldið bæði af einstaklingum og opinberum stofnunum. Þessar kirkjur standa í raun ekki aðeins sem minnismerki um kristna trú á stöðum sem farnir eru í eyði heldur og um fólk sem þar bjó, líf þess og menningu. Fólk sem sótti þessa kirkju, fólk sem háði þar lífsbaráttu sína og fékk að lokum hvíldina að kirkju sinni.

Ein þessara kirkna er Klyppsstaðakirkja í Loðmundarfirði.

Um síðustu helgi fór fram hin árlega Klyppsstaðamessa í Loðmundarfirði – í firðinum sem kenndur er við Loðmund gamla sem tók þar land.

Kirkjan.is hafði samband við vígslubiskupinn á Hólum, sr. Solveigu Láru Guðmundsdóttur, og spurði hvernig ferðin austur hefði gengið, en hún prédikaði þar.

„Hún gekk ljómandi vel,“ sagði vígslubiskup, „þegar við lögðum í hann hafði snjóað í fjöll í Hjaltadalnum og alla leiðina austur var frekar kaldranalegt veður þótt miður júlí væri.“ Hún segir að þegar sést hafi í fjöll þá hafi blasað við snjóhvítir fjallstindar. „Messudaginn sjálfan, 19. júlí var hið fallegasta veður enda þótt vindur blési og norðankul væri í lofti. En það var bjart,“ segir sr. Solveig Lára.

Kirkja, saga og menning
Klyppsstaðarsókn lagðist í eyði 1973 en henni tilheyrði Loðmundarfjörður. Flest mun hafa búið í Loðmundarfirði 143 manns um þar síðustu aldamót. Telja menn einangrun vegna samgönguerfiðleika vera meginskýringu þess að byggðin lagðist af.

Kirkjan á Klyppsstöðum stendur á fallegum stað í brekkurót við lítinn foss. Hún var byggð árið 1895, einfalt timburhús án turns og er einn salur án forkirkju. Í kirknatali Páls Jónssonar frá því um 1200 er getið um kirkju á Klyppsstað. Kirkjan var helguð Maríu guðsmóður á kaþólskri tíð.

Á Klyppsstað er skáli Ferðafélags Fljótsdalshéraðs.

„Það var vel tekið á móti okkur þegar við komum þangað,“ segir sr. Solveig Lára. Þar hafi fyrrum prófastur sr. Jóhanna Sigmarsdóttir ásamt Kristjönu Björnsdóttur, sóknarnefndarformanni Bakkagerðissóknar, verið að hella upp á könnuna og smyrja döðlubrauð. Skálavörður er Steinunn Egilsdóttir. 

Þegar til kirkju var komið var klukkum hringt og organistinn, Jón Ólafur Sigurðsson, sestur við orgelið og forspilið hljómaði. Prestarnir sem þjónuðu við messuna ásamt sr. Solveigu Láru voru sr. Jóhanna Sigmarsdóttir, og sóknarpresturinn í Egilsstaðaprestakalli, sr. Þorgeir Arason. Bakkasystur frá Borgarfirði sungu. Meðhjálpari var Kristjana Björnsdóttir.

Kirkjan var fullsetin. Þátttaka var góð í sálmasöng og altarisgöngu.

Kirkjan.is spyr hvaða fólk hafi verið viðstatt.

„Þetta var ferðafólk, og heimafólk úr nágrannabyggðum, börn og fullorðnir,“ segir sr. Solveig Lára.

Kirkjukaffið í sveitinni er alltaf kapítuli út af fyrir sig. Veglegt og skemmtilegt og hollt mannamót. Í ferðamannaskálanum á Klyppstað beið fólksins rjúkandi heitt kaffi, pönnukökur og alls kyns góðgæti.

„Þetta var mjög svo gefandi dagur,“ segir vígslubiskupinn á Hólum, „hvort tveggja fegurð landsins á einstökum stað með sína sögu, og svo að hitta fólkið.“

Úr prédikun sr. Solveigar Láru á Klyppsstað:

Kristin trú má ekki fara í eyði
„Það er ánægjulegt að vera loksins komin hingað en það hefur staðið til í þrjú sumur í röð. Það er gaman að fara yfir fjöll og firnindi og upplifa það að koma á eyðistað. Hér hugsum við til genginna kynslóða, en hér hefur kirkja staðið frá upphafi kristni. Hér hefur verið glaðst og hér hefur verið syrgt. Hér hefur verið beðið og boðað fagnaðarerindið.

Guðspjall dagsins segir okkur frá fjallgöngu, fjallgöngu Jesú og vina hans á óbyggðan stað á uppstigningardag. Þar felur hann þeim mikilvægt hlutverk að fara, skíra og kenna. Þetta var fólk sem tók hlutverk sitt alvarlega. Þau sögðu öðrum frá og síðan hefur boðskapur Jesú Krists gengið frá einni kynslóð til annarrar allt til þessa dags sem við vöknuðum til í morgun.. Þessi orð, skírnarskipunin, eða kristniboðsskipunin eru lesin við hverja skírn. Þar er okkur sem höfum borið börnin okkar til skírnar falin sú ábyrgð að koma boðskap Jesú Krists, kærleiksboðskap Krists áfram til næstu kynslóðar.

Já, þessi orð eru oft kölluð kristniboðsskipunin, því við erum ekki aðeins hvött til að ala börnin okkar upp í kristinni trú, heldur erum við minnt á að segja þeim frá Jesú sem aldrei hafa heyrt um hann.

Kristin trú má ekki fara í eyði. Við vitum að byggðir geta farið í eyði, en ekki kirkjan, ekki kristin trú og hún mun ekki gera það af því að Jesús er upprisinn. Hann lifir og mun láta kirkjuna lifa að eilífu.

Við sáum það vel í kófinu, í samkomubanninu, að þó engar opinberar athafnir væru í kirkjunum þá fann boðskapurinn sér farveg í streyminu. Boðskapurinn stíflaðist ekki, heldur fann sér farveg og streymdi sem aldrei fyrr. Jesús hvetur okkur til að fara, skíra og kenna. Á þeirri vegferð erum við ekki ein því hann heitir okkur samfylgd. Ég er með yður alla daga, allt til heimsins enda. Tökum þann boðskap með okkur héðan úr eyðibyggðum og leyfum honum að streyma til annarra sem á vegi okkar verða í lífinu.”


hsh


Sr. Þorgeir Arason og sr. Jóhanna Sigmarsdóttir


Klyppsstaðakirkja


  • Menning

  • Messa

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Viðburður

  • Frétt

Frá Presta- og djáknastefnunni 2023 í Grensáskirkju

Presta- og djáknastefnan 2024 sett á morgun

15. apr. 2024
...í Stykkishólmi
Sr. Sigríður Gunnarsdóttir

Sr. Sigríður skipuð prófastur

15. apr. 2024
...í Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi
LWF logo.jpg - mynd

Verkefnastjóri á sviði helgihalds

12. apr. 2024
…hjá Lútherska Heimssambandinu