Umhverfisorganistinn

30. júlí 2020

Umhverfisorganistinn

Kristján Hrannar Pálsson

Kristján Hrannar Pálsson organisti er skapandi maður og hefur komið víða við í tónlistinni þó ungur sé. Lært klassískan píanóleik, svo á jazzpíanó, þá greip orgelið huga hans og hann tók kirkjuorganistapróf. Samið lög og texta, verið útsetjari og framleiðandi. Leikur á píanó, kontrabassa, harmonikku og gítar. Gaf út sólplötu Anno 2013, þar sem hann sló í gegn sem raftónlistarmaður. Árið 2016 gaf hann út spunaplötuna Artic Take One þar sem loftslagsbreytingar koma við sögu og hann flutti erindi um verkið á Artic Circle-ráðstefnunni í Hörpu.

Tónlist og virk skapandi hugsun sem ólgar í  honum renna inn í deiglu líðandi stundar þar sem kraftar takast á um allt milli himins og jarðar. Hann er knúinn til að taka afstöðu.

Mál málanna – umhverfismál – framtíð barna og fullorðinna. Allra.

Listin er ekki hlutlaus – álitamál samtímans verða oft viðfangsefni hennar. Það er eðlilegt. Listamaðurinn starfar í tímanum – ekki í tímaleysi.

Í fyrra fékk Kristján Hrannar verðlaun úr Tónmenntasjóði kirkjunnar til að ljúka við orgelverkið +2,0°C sem fjallar um hlýnun jarðar.

Ekki einhamur
Hann er organisti og tónlistarstjóri í Reykjavík, faðir, og mjög svo virkur á twitter. Og á twitter skiptir mestu að setja hugsun sína fram með eggbeittum hætti í fáum orðum og íra út í hana kímni, oft svartri, og krydda með knýjandi spurningu eða staðreynd sem skellt er á steikarapönnu umræðunnar og kemur þá oft í ljós hvort hún var á síðasta söludegi. Það tekst Kristjáni Hrannari með tilþrifum. Ekki einhamur maður myndi einhver segja. Öflugur og frjór, maður anda og tóns. Maður sem ýmsar kraftar bærast í og togast á eins og í sönnum listamanni.

Kirkjan.is spyr þeirrar jarðbundnu spurningar hvernig honum dottið í hug að semja umhverfistónverk.

Napalmsprengjur orgelsins „Mér finnst áhugaverðasta tónlistin alltaf spretta úr einhvers konar andstöðu eða grasrót. Þar er hægt að orða hluti án orða,“ svarar Kristján Hrannar. „Frægasta dæmið um þetta er ábyggilega Jimi Hendrix að líkja eftir napalmsprengjum á rafmagnsgítarnum þegar hann spilaði bandaríska þjóðsönginn. Napalmsprengjur orgelsins finnst mér vera loftslagsváin sem er í þann mund að skella á okkur öllum. Ég hafði gert píanóplötu um loftslagsmál og þegar ég byrjaði að læra á orgel vissi ég að þetta væri hið fullkomna hljóðfæri til að fanga alla plánetuna í músík.“

Hvað annað hugsar kirkjan.is enda er orgelið drottning hljóðfæranna.

Listamenn galdra fram list sína í þeirri von að hún muni hafa áhrif á aðra. Og kirkjan.is spyr hvort Kristján Hrannar telji að verkið muni hafa áhrif á aðra sem kalli á fleiri slík verk úr öðrum áttum.

Litlar og sætar orrustur „ Já ég vona það að sjálfsögðu,“ segir Kristján Hrannar glaðbeittur. „Nú eru margir að nota veðurtölur, hitastig og fleiri aflestra úr veðurtölvum til að forrita músík, og koma henni í hljóð, en hjá mér snýst þetta frekar um okkar innri díalóg, hvernig okkur líður sjálfum gagnvart þessu. Okkur finnst við sjaldan vera jafn mennsk og breysk þegar við reynum að feisa þetta gríðarstóra vandamál. Við viljum helst loka augunum fyrir því, eða velja okkur litla og þægilega bardaga sem breyta í raun ekki neinu, af því við þorum ekki að takast á við kapítalismann sem er að rústa jörðinni. Þessi breyskleiki í sjálfum mér, og okkur öllum, er það sem ég reyndi að fanga.“

Kirkjan.is hafði aldrei heyrt af notkun slíkra aflestra – og ekki haft hugmyndaflug til þess enda aðeins hlýðin og skyldurækin með ófrumlegasta hætti þegar orkuveitan biður hana um að lesa af mælum tvisvar á ári eða svo – hún mun fylgjast spennt með þessum frjósama og frumlega tónlistarmanni þar sem hugmyndirnar svella.

En orgelið – hver er framtíð þess?

Stofnunin sem umlykur orgelið er hrædd „Stærsti kostur og galli orgelsins er að það er fast inni í kirkjunum, sem þýðir að það getur aldrei farið í neina „útrás“ eða slitið sig við kirkjuna sem stofnun,“ segir Kristján Hrannar yfirvegaður. Hann telur að umræða kirkjuyfirvalda um framtíð kirkjunnar sé oft óafvitandi umræða um framtíð orgelsins og orgeltónlistar. „Sú staðreynd að margir hafa áhyggjur af framtíð orgelsins er því ekki orgelinu sjálfu að kenna sem hljóðfæri, enda heyrir maður engar áhyggjur af t.d. framtíð sellósins þó það hafi ekki breyst mikið í aldaraðir. Það er stofnunin sem umlykur hljóðfærið sem er alltof rög við að horfast í augu við að hún stýrist af ótta og er sífellt að bregðast við utanaðkomandi hlutum frekar en að móta sína eigin nútímalegu stefnu.“

Í myndbandinu hér fyrir neðan fjallar Kristján Hrannar um tónverk sitt og leikur nokkur brot úr því á orgel Laugarneskirkju.

Nú gefst fleira fólki kostur á njóta verksins því að Kristján Hrannar ætlar í ferð um landið á næstunni með orgelverk sitt um loftslagsvána. 

Verkið er aðgengilegt og ögrandi í senn, skipt í 21 kafla í stíganda, þar sem hver kafli tjáir hækkun hitastigs á jörðinni um 0,1°C.

Tónleikaferðalagið
Föstudagur 31. júlí 2020 - Hóladómkirkja Hólum í Hjaltadal klukkan 20.30 Laugardagur 1. ágúst 2020 - Dalvíkurkirkja klukkan 20.30                         
Sunnudagur 2. ágúst 2020 - Akureyrarkirkja klukkan 17.00 

hsh


Verkið var frumflutt í Hallgrímskirkju á Vetrarhátíð í febrúar 2020.

  • Menning

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Trúin

  • Viðburður

  • Frétt

Ásta Guðrún Beck

Nýr starfsmaður

10. ágú. 2020
Ásta Guðrún Beck
Kirkjan.logo  - það besta.jpg - mynd

Laust starf - öflugur bókari

08. ágú. 2020
Umsóknarfrestur til 24. ágúst
Nr. 20.JPG - mynd

Ein saga – eitt skref

07. ágú. 2020
...lært af sögu misréttis gagnvart hinsegin fólki innan kirkjunnar...