Litla sóknin: Konan á Sæbóli

5. ágúst 2020

Litla sóknin: Konan á Sæbóli

Bettý vakir sem engill yfir kirkjunni við ysta haf

Þegar komið er ofan Sandsheiði sér í fjarska í lítinn hvítan díl við sjávarbrún Önundarfjarðar.

Þar er hin einstaka kirkja, Sæbólskirkja í Önundarfirði.

Kirkjuhaldarinn tekur fagnandi á móti gesti og segir að fjöldi manns hafi komið þar við frá því snemma morguns.

Fólk er á ferð. Og Sæbólskirkja á Ingjaldssandi er snoturt guðshús sem dregur marga sumarferðalanga til sín. Sæbólssókn er fámenn, aðeins þrjú þar innanbúðar.

Hún heitir Elísabet Pétursdóttir, kölluð Bettý, og hefur búið hér í rúm þrjátíu ár. Bóndi og handverkskona og ann litlu kirkjunni á Sæbóli sem væri hún hjarta hennar. Þessum stað er hún bundin tryggðarböndum.

Bettý segir sögu sína í fám orðum. Fædd í Reykjavík en send innan við ársaldur vestur á Ingjaldssand til afa síns og ömmu. Hún gekk í skólann á Flateyri. Síðan var förinni heitið til Ameríku og þar bjó hún hjá amerískri frænku sinni í eitt ár og sótti skóla og ferðaðist mikið með fjölskyldu hennar. Heim kom hún og fór í skólann á Núpi, hvað annað? Og síðan í húsmæðraskóla. Bjó síðan á Flateyri og vann þar sem á Ísafirði. Bettý kom á Sæból árið 1989 og hefur búið þar síðan – sonur hennar um tvítugt býr þar með henni en vinnur útí frá. Þau er bæði í sóknarnefndinni.

Á leið frá bæjarhúsi að kirkju segir Bettý skilmerkilega frá gömlu kirkjunni og bendir á staðinn þar sem hún stóð.

Gamla kirkjan fauk Gamla kirkjan sem byggð var árið 1858 og var um 30 fermetrar að stærð, turnlaus með tveim gluggum á hvorum stafni, fauk í norðvestan stórviðri í janúar 1924 á Pálsmessu. Margt muna eyðilagðist í fokinu. Annar ljósahjálmanna bjargaðist þó skemmst hefði, sá er frá 1649, á hann eru inngreypt 14 karlmannsnöfn. Sagnir herma að nöfnin fjórtán séu tilkomin vegna þess að þeir dönsku menn hafi í sjávarháska heitið að gefa fyrstu kirkjunni sem þeir sæju, gjöf í guðsþakkarskyni fyrir lífbjörg sína.

„Þarna stóð semsé gamla kirkjan,“ segir Bettý og bendir á minningarstein mikinn frá árinu 2000 skammt frá, „hún stóð í miðjum kirkjugarðinum sem var hringlaga.“ Í garðinum er aðeins einn legsteinn ofar moldu.

Ný kirkja 1929 Fólkið á Sæbóli var án kirkju í fimm ár – en presturinn sr. Sigtryggur kom og messaði á bænum Hrauni í kirkjuleysinu. Nýja kirkjan var reist 1929 innarlega á Bakkhúsagrund skammt frá sjávarbakkanum á Sæbóli. Það var Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, sem teiknaði hana. Sæból er mjög líklega landnámsjörð og var jörðin kölluð áður Ingjaldssandur. Hið fræga kirknatal Páls Jónssonar biskups frá því um 1200 segir að kirkja sé á Ingjaldssandi

Þegar inn fyrir sáluhlið er komið staldrar Bettý við legstað sr. Sigtryggs Guðlaugssonar og konu hans, Hjaltlínu Margrétar Guðjónsdóttur.

„Hann hér?“ hváir kirkjan.is – „Ekki á Núpi?“ og Bettý svarar að bragði: „Já, hann valdi staðinn – vissi að hann færi á undan henni, fæddur 1862 og hún 1890, – hún var héðan frá Brekku á Ingjaldssandi.“

Það sem dregur augað til sín þegar fyrst er komið inn í Sæbólskirkju er altaristaflan. Enda við hæfi þar sem altari er miðpunktur hverrar kirkju og í raun hver kirkja reist í kringum það.

Spírall lífsins Í fljótu bragði er sem skyggnst sé inn í hverfihjól allífsins þegar horft er til altaris. En þótt hverfihjólið sé merk uppgötvun og gert til að knýja sitthvað áfram þá má segja að annað hjól sé öllu merkara sem altaristaflan sýnir og er það sjálft hjól sólarinnar, það er lífsins spírall, og meira til að kristnum skilningi: upprisusólin sjálf með kross í öndvegi. Bakvið rauðan miðjuhring sem fer um lóðréttan sem láréttan ás krossins er ljós sem varpar fram mjúkri birtu.

Þessi altaristafla, og kross, er hugmynd sr. Sigtryggs á Núpi, og máluð af kennara við Núpsskóla.

Á altari er danskur silfurkaleikur og patína frá 1736.

Kirkjan er mjög svo sterk í látleysi sínu, björt og bekkir í mildum jarðarlit með keltneskum vafningi á bekkjarbríkum sem vísa til hins keltneska kross sem rís upp af suðurstafni.

Bettý fer varfærnishöndum um hvern grip kirkjunnar og augljóst að hver og einn þeirra er sem helgur dómur í augum hennar. Hún segir frá því að vatn hafi runnið niður við altarið og ofan á litla Kristsstyttu sem þar er og altarisdúkinn. „Ég þvoði dúkinn upp úr lopasápu sem er náttúruvæn,“ segir Bettý, „og setti svo matarsóda á hann og á eftir að gera það nokkrum sinnum.“ Undir Kristsstyttunni er grænt filtefni og hefur Bettý sett þar undir tappa úr plasti til að dúkurinn dragi ekki í sig lit frá filtinu. Hér er séð fyrir öllu.

Sitt hvoru megin við altarið eru tvær súlur og í öðrum þeirra fór reykháfurinn um en í hinni var geymdur skrúði kirkjunnar. „Hér var hempan hans sr. Sigtryggs geymd þegar hann var á lífi,“ segir Bettý, „hún er núna uppi á kirkjuloftinu.“ „Og þá í plasti,“ spyr kirkjan.is full umhyggju, og Bettý svarar: „Nei, það færi þá alveg með hana, hún er bara eins og hún er.“ Þessi hempa verður umhugsunarefni um stund hjá kirkjunni.is. Hempur ljúka lífi sínu með ýmsu móti. Sumir prestar eru grafnir í hempu sinni og upp úr öðrum saumuðu prestsekkjur sér möttla.

Keltneskur kross og rafmagnskross

Miklar endurbætur hófust á kirkjunni árið 2008 að frumkvæði sr. Guðrúnar Eddu Gunnarsdóttur, þáverandi sóknarprests á Þingeyri, og í samvinnu við Magnús Skúlason, arkitekt. Bettý ljómar í hvert sinn er hún nefnir nafn sr. Guðrúnar Eddu og telur hana vera mikla velgjörðarkonu staðarins – sem og eiginmann hennar, dr. Einar heitinn Sigurbjörnsson, prófessor. „Guðrún Edda er í dýrlingatölu hjá mér,“ segir Bettý.

„Þegar rafmagnið kom 1967 þá vildu menn alls staðar hafa ljós,“ segir Bettý, „og þá kom þeim til hugar að taka ofan keltneska krossinn og setja upp ljósakross.“ Keltneski krossinn sem prýddi kirkjuna var brotinn niður. Hún segir að veður geti verið svo hörð ofan af Sandheiðinni að þau eiri fáu enda sprungu perur í rafmagnskrossinum hvað eftir annað. „Ef þú vilt láta sandblása eitthvað fyrir þig þá skaltu koma með það til mín og ég set það hér á hlaðið og veður sér um afganginn,“ segir Bettý og hlær við.

Og keltneski krossinn kom aftur þegar endurbætur hófust.

Keltneski krossinn gefur kirkjunni sterkan svip og er sem lítil kóróna á henni. Bettý lýsir nákvæmlega hvernig mót nýja keltneska krossins var gert af hagleiksmönnum þar vestra og hann síðan steyptur upp á staðnum. Þetta hafi veri nákvæmnisverk og þegar mótin voru tekin utan af þurfti aðeins að pússa ögn af svo vel var hann steyptur.

Guðs ráðstöfun Kórónuveirufaraldurinn olli því að messan um verslunarmannahelgina var blásin af og eins ball í félagsheimilinu Vonarlandi. Kannski má segja að í hlutfalli við íbúafjölda hafi kórónuveirufaraldurinn hvergi gert meiri usla á Íslandi en í Sæbólssókn í Önundarfirði! Messa og ball hurfu í einu vetfangi! En Bettý segir þetta vera Guðs ráðstöfun í kórónuveirufárinu til að afstýra því að hver sé ofan í öðrum.

Já, eina fasta messan í þessari litlu sókn með stóra hjartað er þessi um verslunarmannahelgina. Það er lokað út á Sand – eins og heimamenn segja – yfir veturinn nema fyrir snjósleða – en sé vetur óvenjulega snjóléttur er fært.

Bettý bóndi, kirkjukona og handverkskona er kvödd í hlaði. Kirkjan er lánsöm að eiga fólk sem stendur vörð um kirkju og verðmæti hennar á afskekktum stöðum – og á því þakkarskuld að gjalda.

Þetta er kirkja fólksins á Ingjaldssandi, Sæbólskirkja.

Þetta er ein af litlu sóknum landsins.

Þetta er þjóðkirkjan.

hsh


Bettý fyrir utan Sæbólskirkju


Séð inn Sæbólskirkju - bekkir eru fimm hvoru megin


Á bekkjarbríkum eru keltneskir vafningar


Kirkjan á Sæbóli 


Keltneski krossinn sómir sér vel á suðurstafni kirkjunnar

Betty´s handcraft  

 




  • Menning

  • Samfélag

  • Frétt

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut