Fólkið í kirkjunni: Þorpið hógværa

12. ágúst 2020

Fólkið í kirkjunni: Þorpið hógværa

Árni Hinrik Hjartarson, sóknarnefndarformaður Kirkjuvogssóknar

Það eru ekki allar kirkjur sem skarta kórónu Danakonungs á veðurvita sínum.

Það gerir lítil kirkja á fámennum og hljóðlátum stað sem er reyndar ekki langt frá alþjóðlegum flugvelli þar sem ys og þys setja mark sitt á lífið allan sólarhringinn enda þótt heldur hafi dofnað yfir því á veirutíðinni.

Skiltið á Keflavíkurveginum segir að það séu 9 kílómetrar að Höfnum. Semsé á næstu grösum.

Þegar kirkjan.is ekur þangað á sólbjörtum degi sést í fjarska ögn bogadregin lína við himin sindra í tíbránni þar sem kirkja er fyrir miðju en vinalega hallandi hús til beggja handa. Þetta minnir á myndir úr tímalausum ævintýrum.

Þessi kirkja er Kirkjuvogskirkja. Hún var reist árið 1861, vígð 26. nóvember. Elsta kirkja á Suðurnesjum. Ártalið er á veðurvitanum ásamt fangamarki þess er stóð fyrir byggingu þessa kirkjuhúss, Vilhjálms Kristjáns Hákonarsonar, W Ch H, og kannski dálítil angan af einhverju konunglegu þar suður með sjó, tvöföldu vaffi og sjéhái, til að vega upp á móti hversdagslegum ilmi af þarabreiðum og hvítbrimandi sjó.

Kirkjan.is hitti Árna Hinrik Hjartarson, sóknarnefndarformann í Kirkjuvogssókn, og tók hann tali.

Árni Hinrik er maður á besta aldri, hógvær og öruggur í framkomu. Hann er fæddur og uppalinn í Keflavík, skírður af sr. Birni Jónssyni og fermdur af sr. Ólafi Oddi Jónssyni.

Hann hefur búið rúman áratug í Höfnum, starfar sem fjármálastjóri í Fríhöfninni, er viðskiptafræðingur. Erill þessa stóra vinnustaðs á hug hans yfir daginn en þegar vinnu er lokið er rennt heim til hinnar hljóðu Hafna, Kirkjuvoginn – en þar reisti hann sér hús við sjóinn.

Dregist inn í kirkjumálin

„Ásbjörn heitinn Jónsson bað mig um að koma að málum Kirkjuvogskirkju á sínum tíma,“ segir hann þegar spurt er um kirkjutenginguna. „Og ég hef verið sóknarnefndarformaður í átta ár.“ Hann hefur sogast inn í starf kirkjunnar á prófastsvettvangi og er gjaldkeri héraðsnefndar. Það er gömul saga þegar gott fólk og vandað með starfsþekkingu og menntun kemur til starfa í kirkjunum að þá er kallað á það úr ýmsum áttum. Svo var einnig með Ásbjörn Jónsson, hæstaréttarlögmann og Suðurnesjamann, hann var kirkjunnar maður heima í héraði og sat á kirkjuþingi og í kirkjuráði. Öflugur maður og sanngjarn, um það sammæltust kirkjan.is og Árni Hinrik.

„Hér í sókninni búa ríflega 110 manns,“ segir Árni Hinrik, „sóknin tilheyrir Njarðvíkurprestakalli.“ Hann bætir því við að messurnar séu þrjár eða fjórar á ári. „Presturinn kemur með kórfélagana með sér,“ segir Árni Hinrik, „og messurnar eru vel sóttar af heimamönnum sem og af fólki sem hefur flutt annað.“

Áður var Kirkjuvogskirkju þjónað frá Útskálum og síðar Grindavík.

Rekstur svona fámennrar sóknar eins og Kirkjuvogssóknar er ekki auðveldur og gamalt kirkjuhús getur verið dýrt spaug og lesarinn athugi að það orð á náttúrlega alls ekki við að öllu leyti á þessum stað. Minjastofnun hefur lagt þeim lið við framkvæmdir sem og Jöfnunarsjóður sókna.

Árni Hinrik sýnir kirkjuna og þekkir sögu hennar. Áttar sig vel á menningarsögulegu hlutverki hennar sem og trúarlegu í þessu litla samfélagi. Kirkjan er einstakt hús. Þegar dyrum er lokið upp er í raun gengið rakleiðis inn í kirkju því að forkirkjan rennur saman við kirkjuskipið. Og það er hátt til lofts sem er stjörnum prýtt. Hún er björt og rúmgóð.

Altaristaflan dregur fljótt auga komumanna að sér en hún er í myndarlegum tréramma, háum og bogadregnum, með súlum til sitt hvorrar handar. Efst er gullinn kross á undirstöðu sem minnir á kórónu. Myndefni hennar er kunnuglegt: upprisa frelsarans.

Það var Sigurður Guðmundsson (1833-1874) sem málaði altaristöfluna árið 1865 og er hún eftirmynd af töflu dómkirkjunnar í Reykjavík. Annars telja margir að kirkjunni svipi um mjög til dómkirkjunnar að ýmsu leyti hvað ýmis hlutföll snertir.

„Það óhapp varð fyrir nokkrum árum að hitavatnslögn brast í kirkjunni og olli skemmdum,“ segir Árni Hinrik. „Altaristaflan skemmdist meðal annars því að mikla og þétta gufu lagði frá sjóðandi heitu vatninu.“ Altaristaflan var send í viðgerð sem kostaði 800.000 krónur. „Viðgerðin tókst vel,“ segir Árni Hinrik, en bendir þó á að sjá megi merki hennar ef vel er að gáð og er það eins og svo margt annað sem gerist á langri ævi manns eða hlutar að alltaf má sjá einhver ör sem segja sína sögu.

Kirkjan á einnig fallegan hökul eftir Guðrúnu Vigfúsdóttur (1921-2015), veflistarkonu, og skírnarstöpull og skál úr silfurpletti drifin blómaskrauti sem sr. Jón Thorarensen (1902-1986), gaf en hann ólst upp í Kotvogi í Höfnum. Eins eru ljósakrónur kirkjunnar veglegar. Þá á kirkjan silfurkaleik ásamt patínu úr silfri frá árinu 1860 og sjöarma eikarljósastjaka frá 1943.

Framkvæmdir

Viðgerðir standa yfir á kirkjunni. Skipt hefur verið um fjalir og lista á ytra byrði kirkjunnar þar sem þess gerðist þörf og hugað að gluggum. Kirkjan snýr rétt, eins og menn segja, það er að horft er til austurs þegar horft er til altaris, horft mót upprisu sólar og upprisunnar í trúarlegu tilliti. Austurhlið kirkjunnar þurfti á mestri endurnýjun að halda enda suðaustanáttin votviðrasöm og hryssingsleg.

Kirkjan.is gengur með Árna Hinriki í kringum kirkjuna og hann sýnir hvað gert hefur verið og er hinn hæstánægðasti með vinnubrögðin. Strýkur um gluggakarm af umhyggju og eftirtekt.

Umhverfis Kirkjuvogskirkju er kirkjugarður. Árni Hinrik segist slá hann oft sjálfur og einnig hafi aðrir lagt þar hönd að verki. Í garðinum eru nokkur minningarmörk, krossar úr pottjárni frá seinni hluta nítjándu aldar, vel ryðgaðir, fallegir í ryðklæðum sínum, en ryðið nær þó ekki enn í gegn. Flest leiðanna eru vel hirt. Sagan er líka þarna í garðinum eins og öðrum kirkjugörðum og staldrað er við leiði Vilhjálms Kristjáns Hákonarsonar (1812-1871) sem var forgöngumaður fyrir byggingu kirkjunnar á sínum tíma.

Það er vinalegt að sjá hesta á beit við hliðina á kirkjugarðinum en þeir horfa sínum stóru forvitnisaugum á mennina tvo í kirkjugarðinum.

Þegar við göngum inn í kirkjuna aftur nemur Árni Hinrik staðar við tröppurnar sem eru úr rauðsteini. Hann segir að til standi að fjarlægja þær og smíða tröppur úr timbri. Þröskuldur er illa fúinn og ekki auðvelt að komast að honum nema steintröppurnar víki. Síðan á að líma innri hurð upp en spjöld hennar eru farin að gliðna.

Á næsta ári verður kirkjan 160 ára og þess verður minnst. Ýmislegt verður gert fyrir kirkjuna áður en þau tímamót ganga í garð. Til stendur að mála hana alla að innan og hafa nú þegar verið fengnir menn til verksins.

Þá á kirkjan á lítið safnaðarheimili, það er gamli skólinn í Höfnum, sem hún fékk að gjöf frá hreppnum áður en sameinast var Reykjanesbæ. Skólinn var síðan gerður upp en þak var ónýtt og gluggar skemmdir. Ýmist kalla heimamenn þetta skólann eða safnaðarheimilið. Þetta húsnæði kemur að góðum notum þegar halda skal hæfilega fjölmennar samkomur.

Mannlífið í þorpinu

Fólkið í þorpinu sækir vinnu til Keflavíkur og Stór-Reykjavíkursvæðisins. Það er frekar ungt fólk sem býr í Höfnum og börn eru mörg. Börnum er ekið í skólann inn til Njarðvíkur. Fyrirtækið Stofn-Fiskur í Höfnum veitir fólki líka vinnu en það ræktar laxahrogn til útflutnings og hrognkelsi til lúsaáts. Árni Hinrik segir staðinn hafa verið mjög vinsælan til kvikmyndatöku, jafnvel svo vinsælan af einhverjir hafi kallað hann Hollywood. Landslag á Reykjanesinu er um margt kröftugt og óvenjulegt, það heillar marga. Og litla og snotra þorpið við Voginn hrífur sömuleiðis.

Undanfarin ár hafa tónleikar verið í Kirkjuvogskirkju á Ljósanótt þeirra Reyknesinga og kaffisala til styrktar kirkjunni. Ýmsir tónlistarmenn hafa komið þar eins og KK og Valdimar. Þessir tónleikar hafa verið mjög sóttir segir Árni Hinrik, alltaf fullt hús. Líkast til verður ekkert um Ljósanæturtónleika þetta árið vegna kórónuveirufaraldurs.

Kirkjuvogskirkja er prúð og yfirlætislaus þar sem hún stendur sína vakt í þorpinu hógværa við Voginn eins og hún hefur bráðum gert í 160 ár. Um hana er vel hugsað og afmælisárið er framundan. Hún er í góðum höndum Árna Hinriks og annarra velunnara hennar. Það er gott að vita.

Árni Hinrik Hjartarson, sóknarnefndarformaður Kirkjuvogskirkju í Höfnum, er einn af þeim fjölmörgu sem stendur við bakið á kirkjunni sinni.

Kirkjan er söfnuðurinn. Fólkið.

hsh


Altaristaflan er 155 ára - Sigurður Guðmundsson málaði 


Altaristaflan merkt með nettum upphafsstöfum Sigurðar


Kirkjuvogskirkja - mynd tekin nokkrum dögum áður en viðtalið var tekið