Prestar koma saman

18. ágúst 2020

Prestar koma saman

Prestaskyrta er hluti af einkennisbúningi presta

Boðað hefur verið til aðalfundar Prestafélags Íslands miðvikudaginn 26. ágúst. Fundurinn verður haldinn í Grafarvogskirkju í Reykjavík.

Aðalfundir félagsins hafa jafnan verið líflegir og vel sóttir enda margt um að tala.

Kjaramál verða sennilega ofarlega á baugi í þetta sinn enda hefur margt breyst í þeim efnum að undanförnu. Þau mál hafa líka verið mjög svo til umfjöllunar hjá stjórn P.Í., sem og breytt starfskjör félagsmanna.

Viðbótarsamningur íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um endurskoðun á samkomulagi um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar frá 1997 og var undirritaður í september í fyrra, hefur kallað á nýja nálgun Prestafélagsins í sambandi við ýmis mál og ekki síst kjaramál. Skipuð hefur verið til bráðabirgða Kjaranefnd þjóðkirkjunnar og Biskupsstofu og hefur formaður Prestafélagsins ásamt kjarafulltrúa þess setið einn fund með henni. Sérstakur starfshópur hefur verið skipaður til að fjalla um aukaverk presta og greiðslur í sambandi við þau.

Prestafélagið stóð að stefnumótunarvinnu og í kjölfar hennar voru skipaðir þrír starfshópar: kjaramálahópur, faghópur og kynningarhópur.

Á síðasta aðalfundi Prestafélagsins var skipuð starfsnefnd sem fékk það hlutverk að skoða „stjórnsýslu kirkjunnar, ákvarðanir kirkjuþings og kirkjuráðs með tilliti til laga og starfsreglna hvað varðar breytingar á skipun prestakalla og meðferð fjármuna úr sjóðum kirkjunnar.“ Niðurstaða þessarar nefndar er athyglisverð en hún er sú að verkefnið hafi ekki verið á færi nefndarinnar vegna þess að takmarkanir voru á erindisbréfi hennar og auk þess hefði hún haft takmarkaðar heimildir til að afla gagna til að gera stjórnsýsluúttekt á stofnunum kirkjunnar.

Prestafélag Íslands varð aðili að Bandalagi háskólamanna (BHM) í maí í fyrra. Formaður félagsins situr í formannaráði BHM sem kemur saman að jafnaði einu sinni í mánuði.

Formaður Prestafélags Íslands er sr. Ninna Sif Svavarsdóttir og með henni í stjórn eru þau sr. Bryndís Malla Elídóttir, varaformaður, sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson, kjaramálafulltrúi, sr. Kristín Pálsdóttir, gjaldkeri, og sr. Ingólfur Hartvigsson, ritari. Stjórnin fundar að jafnaði einu sinni í mánuði.

Prestafélag Íslands var stofnað á prestastefnu þann 28. júní 1918.

hsh









  • Samfélag

  • Viðburður

  • Frétt

Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta
Bænagangan 3.jpg - mynd

Bænagangan 2024

23. apr. 2024
...á sumardaginn fyrsta