Störf kirkjuþings í gær

14. september 2020

Störf kirkjuþings í gær

Frá fundi kirkjuþings 2020 á Grand Hótel Reykjavík

Fundum kirkjuþings 2020 var fram haldið í gær.

Mörg mál komu til umræðu og þeim vísað til nefnda og annarrar umræðu.

Nokkur umræða varð um orðið embætti en gerðar eru tillögur um að það falli úr starfsreglum og þess í stað kemur orðið starf. Sjá sumir eftir orðinu og telja ekki nauðsynlegt að fella það út. Aðrir telja það bundið við ákveðna starfsmenn ríkisins og þar sem kirkjan sé ekki lengur eins bundin ríkinu og áður þá eigi að fella það niður. Þá var nefnt að orðið starf væri alþýðlegra orð og yfir orðinu embættismaður væri valdsmannslegur svipur. Einnig hafi verið reynt að hafa málfar beggja kynja á starfsheitum og koma út orðinu maður.

Mál um heildstæða eignastefna þjóðkirkjunnar var lagt fram, skipa skal þriggja manna nefnd til að móta heildstæða eignastefnu þjóðkirkjunnar og skili hún áliti sínu 2021. Mál nr.16 – vísað til fjárhagsnefndar.

Stundum er sagt að umræða um val og veitingu prestsembætta sé eilífðarmál. Rætt nánast á öllum kirkjuþingum. Reglur settar og þær reynast misvel – þingin leitast eftir megni að lagfæra reglurnar eftir því sem reynslan segir til um þær.

Tillaga að starfsreglum um ráðningu í prestsstörf var lögð fram, mál nr. 17. Snýst málið um val og veitingu prestsembætta. Þar kemur fram að matsnefnd verði lögð niður. Valnefnd kemur til skjalanna: „6. gr. Samsetning valnefndar. Valnefnd er skipuð fimm fulltrúum: Prófasti, sem leiðir vinnuna, þremur fulltrúum sóknarnefnda viðkomandi prestakalls, sem kjörnir eru á sóknarnefndarfundi og lögfræðingi á biskupsstofu eða mannauðsstjóra biskupsstofu.

Miklar umræður urðu um málið.

Almennar prestskosningar, möguleiki til að halda þær, verða felldar niður samkvæmt þessari tillögu.

Mikil umræða varð um málið. Vilji til að einfalda ferlið og fái góða umræðu – fari í nefnd og verði afgreitt með vorinu. Sumir töldu núverandi reglur hafa reynst vel. Málinu var vísað til löggjafanefndar.

Kynning á Hjálparstarfi kirkjunnar
Hjálparstarf kirkjunnar er 50 ára gamalt um þessar mundir. Í tilefni þess var Bjarna Gíslasyni, framkvæmdastjóra Hjálparstarfs kirkjunnar, boðið að kynna hið umfangsmikla starf sem hann stýrir. Kynnti hann helstu verkefni Hjálparstarfsins.

Bjarni sagði líka mikilvægt að ræða fjármálin. Fjárvelta Hjálparstarfsins er um 300 milljónir á ári. Það eru 2300 gjafarar sem gefa mánaðarlega til starfsins og nást inn eftir þeirri leið um 50 milljónir – þennan hóp kallar Bjarni hjálparliða. Kirkjumálasjóður styrkir Hjálparstarfið um 10-12 milljónir árlega. Þá fær Hjálparstarfið húsnæði á Háaleitisbraut endurgjaldslaust. Bjarni sagðist vera þakklátur fyrir stuðninginn og vera þakklátur Guði fyrir að fá að vera í þessu starfi. Hann hvatti þó kirkjuþing til þess að gera betur ef duga skyldi.

Mál nr. 18  var lagt fram en það er tillaga að starfsreglum um héraðsfundi og héraðsnefndir. Fyrri reglur óbreyttar inni í þessu plaggi, tvær greinar þar sem um er að ræða orðalagsbreytingar, eina efnisbreytingin er í þeirri grein þar sem getið er um 5% í 11. grein. Málinu vísað til allsherjarnefndar.

Mál nr. 19 og 20 voru sett saman í eitt. Tillaga að starfsreglum um breytingu á starfsreglum um val og veitingu prestsembætta nr. 144/2016, með síðari breytingum. Meira og minna orðabreytingar. Nýr kafli um starfslok.Kallað var eftir skilgreiningu á prestsstarfinu eða embættinu. Málinu vísað til allra nefnda.

Tillaga um flutning á sóknarprestsskyldum, nýjung, kom fram í máli nr. 20: Tillaga að starfsreglum um breytingu á starfsreglum um presta. Við 11. gr. starfsreglnanna bætist ný málsgrein svohljóðandi: „Heimilt er, með samþykki hlutaðeigandi presta og sóknarnefndar eða sóknarnefnda, að færa sóknarprestsskyldur með reglulegu millibili milli presta í prestakalli, enda sé gert um það skriflegt samkomulag framangreindra aðila. Prófastur skal staðfesta slíkt samkomulag svo það öðlist gildi.“

Mál nr. 21 var lagt fram: Um prestssetur og aðrar fasteignir þjóðkirkjunnar. Þar segir: „Kirkjuráð skal auglýsa á almennum markaði allar fasteignir þjóðkirkjunnar, sem það hefur ákveðið að selja með samþykki kirkjuþings. Kirkjuráð skal taka hæsta tilboði eða hafna öllum.“ Vísað til fjárhagsnefndar.

Þá voru lagðar fram tillögur að starfsreglum um Skálholtsstað. Allnokkrar umræður urðu um málið og var góður rómur gerður að málinu enda þótt fram kæmi að reglurnar væru kannski full margorðar en ekki töldu allir það vera galla enda væri ekki verið að lesa þær á hverjum degi. Starfsreglur enduróma stefnumótunarvinnu í Skálholti og hugflæðisfundi sem þar hafa verið haldnir. Málinu var vísað til allsherjarnefndar.

Tillaga til þingsályktunar um verkáætlun vegna umhirðu jarða þjóðkirkjunnar 2021-2031 – mál nr. 23. Óskað er eftir 20 milljónum árlega í tíu ár. Vísað til allsherjarnefndar. Miklar umræður urðu um málið. Margir töldu að skoða þyrfti málið betur og huga þyrfti að því að sumar þessara jarða eru setnar og aðrar á söluskrá. Verkáætlun var talin vera framsýn og djörf. Bent var og á að hafa samstarf við heimamenn um málið og einnig var bent hvort ráð væri að hafa samráð við skógræktarfélög á landinu. Málinu vísað til fjárhagsnefndar.

Mál nr. 24, tillaga að starfsreglum um breytingu á starfsreglum um sóknarnefndir. Tillagan felur í sér meðal annars að hægt verði að víkja sóknarnefnd brjóti hún lög. Málið rætt og efuðust sumir um að hægt væri að víkja sóknarnefnd frá. Hún væri kosin á aðalsafnaðarfundi. Málinu vísað til löggjafarnefndar.

Tillaga til þingsályktunar um mótun stefnu þjóðkirkjunnar í málum fólks á flótta og umsækjenda um alþjóðlega vernd, var lögð fram. Mál nr. 25. Í málinu kemur meðal annars fram nýlunda: „Til þess að auðvelda framkvæmd og þjónustu verði nokkrir söfnuðir tilnefndir sem móttökusöfnuðir sem vinna með Seekers ministry í þjónustu við flóttafólk. Móttökusöfnuðir eruHáteigskirkja, Laugarneskirkja, Breiðholtskirkja, Ástjarnarkirkja og Keflavíkurkirkja. Með því að útnefna móttökusöfnuði er ekki verið að takmarka þátttöku annarra safnaða í landinu til að vinna að málefnum hælisleitenda og flóttafólks heldur að tryggja þjónustu við fólk á flótta. Hverjum söfnuði stendur til boða að gerast móttökusöfnuður, óski hann eftir því.“ Þá kemur fram að í Breiðholtskirkju sé söfnuður fólks á flótta í mótun undir nafninu Alþjóðlegi söfnuðurinn í Breiðholtskirkju. Alþjóðlegi söfnuðurinn sé „módel-söfnuður“ þar sem flóttafólk, innflytjendur og Íslendingar koma saman í anda Krists. – Mjög jákvætt viðhorf kom fram til þessarar tillögu og var henni fagnað. Málinu var vísað áfram og til allsherjarnefndar.

Fundur hefst kl. 9.00 í dag og fyrsta málið sem verður tekið fyrir er nr. 26: Tillaga til þingsályktunar um brottvísanir flóttafólks sem hefur fengið alþjóðlega vernd í öðru ríki. Flutt af vígslubiskupi á Hólum. „Kirkjuþing 2020 hvetur íslensk stjórnvöld til hætta að vísa umsækjendum um alþjóðlega vernd úr landi án efnislegrar meðferðar hælisumsóknar, þótt þau hafi þegar hlotið hana á Ítalíu, í Grikklandi eða Ungverjalandi. Yfirvöld í þessum löndum virðast þess ekki umkomin að skapa þessu fólki mannsæmandi aðstæður og möguleika á að byggja sjálfum sér og börnum sínum örugga framtíð. Þjóðkirkjan hefur sérstakar áhyggjur af börnum í þessum hópi.“

Fundur kirkjuþings í dag hefst kl. 9.00.

Málaskrá.

Kirkjuþing - streymi.

hsh  • Leikmenn

  • Menning

  • Prestar og djáknar

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Skipulag

  • Þing

  • Frétt

Nýr einkennisklæðnaður kvenbiskupa

Nýr einkennisklæðnaður

18. sep. 2020
...finnsk áhrif
Bjalla kirkjuþings - gefin 1985

Kirkjuþingstíðindi

17. sep. 2020
...fundum kirkjuþings 2020 frestað
Á góðri stund á kirkjuþing. Frá vinstri: sr. Bryndís Malla Elídótttir, sr. Guðrún Karls Helgudóttir, Anna Guðrún Sigurvinsdóttir

Svipmyndir frá kirkjuþingi

16. sep. 2020
Sjón er sögu ríkari