Stutta viðtalið: Afleysing er ánægjulegt vandaverk

22. september 2020

Stutta viðtalið: Afleysing er ánægjulegt vandaverk

Sr. María Gunnarsdóttir í Hvammstangakirkju

Sr. María Gunnarsdóttir er í afleysingum á Breiðabólsstaðarprestakall en þar eru þrjár sóknir: Breiðabólsstaðarsókn, Tjarnarsókn og Hvammstangasókn. Sóknarpresturinn þar, sr. Magnús Magnússon, er í námsleyfi.

Þau sem eru í afleysingum ganga inn í starfið eins og það er á hverjum stað en koma eflaust með sínar áherslur í einu og öðru.

Kirkjan.is spurði sr. Maríu hvernig það væri að koma inn sem afleysingaprestur.

„Það getur verið mjög stressandi,“ svarar sr. María, „Ég er að stíga í spor þar sem vanur maður og vinsæll hefur farið um og á örugglega eftir að verða oft á í messunni!“ segir hún og bætir við með glettnisglampa í augum að hún sé búin að vara söfnuðinn við og því gangi allir til kirkju af miklu umburðarlyndi og kærleika eins og reyndar fólkið þar fyrir norðan sé yfir höfuð. Allt fari fram með ró og spekt segir sr. María. Henni hafi verið vel tekið og sé hún mjög þakklát fyrir það.

„Ég frétti það að ég væri fyrsti kvenpresturinn sem þjónar í Breiðabólsstaðarprestakalli og það fannst mér skemmtilegt að heyra,“ segir hún ánægð á svip. Segir hún að nýrri manneskju fylgi alltaf annar bragur og öðruvísi andrúmsloft. „Ég vona að fólkið sæki kirkjuna sem áður og á ekki von á öðru.“

Þegar sr. María er spurð hvort hún gangi beint inn í starf sóknarprestsins eða hafi einhvern annan hátt á svarar hún: „Ég gekk inn í ákveðið safnaðarstarf þegar ég kom – ég var kölluð í þessa afleysingu með mjög skömmum fyrirvara þannig að það tók mig smá tíma að átta mig á stöðu mála.“

Á Hvammstanga er venja að hafa svokallaða Kynslóðamessu. Þá er það æskulýðsfélagið sem sér um kaffi og meðlæti eftir messuna. Eldri borgarar eru sérstaklega hvattir til að sækja þessa messu og er hún yfirleitt vel sótt.

Kynslóðamessan
Sr. María segir að Kynslóðamessan hafi til dæmis ekki verið með hefðbundnu sniði. Breytingin fólst í því að hún útskýrði flesta messuliðina: signinguna, bænina, ritningarlestrana og guðspjallið. Þetta gerði hún vegna þess að fyrir nokkru hitti hún fermingarbörnin í Vatnaskógi og spurði þau hvaða upplifun þau hefðu af því að mæta í kirkju. „Þau sögðust oft ekki skilja hvað um væri að vera í messunni,“ segir sr. María. Auk þess ræddi hún um prédikunina og form hennar og sagði frá embættisklæðum prestsins og skrúða. Í kirkjukaffinu hafi hún svo komist að því að þetta hafi verið góð upprifjun fyrir alla.

Hún segist örugglega koma til með að setja með einhverjum hætti sitt mark á safnaðarstarfið eins og alltaf megi búast við af þeim sem sinni afleysingum. Hvort það hins vegar festist í sessi, leiði tíminn einn í ljós.

„Það er mjög gott æskulýðsstarf hérna og TTT-starf,“ segir sr. María en þessi skammstöfun stendur fyrir börn 10-12 ára. „Kirkjuskólinn fer svo af stað í október og það verður gaman að fá yngsta hópinn í heimsókn í kirkjuna.“

„Ég heimsæki sjúkrahúsið aðra hvora viku og föndurstofuna hjá íbúunum í þjónustuíbúðunum og þar fæ ég að segja sögur og spjalla við fólkið,“ segir hún. „Sjúkrahúsinu þjónum við sr. Guðni Þór Ólafsson á Melstað, og skiptumst á að heimsækja fólkið og erum með helgistundir í fallegu kapellunni á sjúkrahúsinu.“

Sr. María er mikil hestakona en nú er smáhlé á hestamennskunni hjá henni þar sem hún er búin að taka járn undan hestum. Hún segir krakkana í TTT-starfinu vera klára hestamenn enda er rík hefð fyrir hestamennsku í héraðinu. Þá hafi hún heimsótt skólann til að auglýsa æskulýðsstarfið og TTT-starfið. Það hafi skilað sér í góðri mætingu og skemmtilegum fundum.

Afleysingastörf eru vandasöm, spennandi og ánægjuleg. Hver prestur hefur sinn stíl og sínar áherslur og söfnuðurinn er vanafastur en tekur öllum fagnandi og með þakklæti.

Hún leysir af
Sr. María hefur unnið undanfarin ár á fræðsludeild biskupsstofu. Hún var vígð til afleysinga haustið 2019 og þjónaði þá í Laufásprestakalli í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi og hins vegar á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Facebókarsíða Hvammstangakirkju.

hsh


Margt spennandi í æskulýðsstarfinu á Hvammstanga - blörruð mynd vegna persónuverndarlaga
  • Barnastarf

  • Frétt

  • Menning

  • Messa

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Trúin

  • Æskulýðsmál

Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta
Bænagangan 3.jpg - mynd

Bænagangan 2024

23. apr. 2024
...á sumardaginn fyrsta