Saga kristniboða

15. október 2020

Saga kristniboða

Fróðlegar minningar kristniboðshjóna

Nýlega kom út bók um líf og starf kristniboðanna Kjellrunar Langdal og Skúla Svavarssonar. Það er sr. Vigfús Ingvar Ingvarsson sem skráir. Textinn er samsettur með þeim hætti að þau hjónin segja frá lífi sínu í sitt hvoru lagi og saman. Þá er texti af hendi skrásetjarans sem miðlar margvíslegum fróðleik um kristniboðsstarfssvæði þeirra hjóna.

Bókin ber þann einlæga titil sem kemur svo vel heim og saman við sögu þeirra hjóna þegar bókin er lögð frá sér: Það er alveg satt! Frásögnin er nefnilega sem betur fer laus við alla upphafningu og gort. Það er fölskvalaus einlægni og fúsleiki til starfa sem er rauði þráðurinn í bókinni og lífi þeirra. Salt, ehf., útgáfufélag, stendur að útgáfu bókarinnar.

Starf kristniboðans er köllun og þá köllun skilja ekki allir. Hún sækir akkeri sitt í kristniboðskipunina í lokaorð Matteusarguðspjalls.

Skúli er norðanmaður, fæddur á Akureyri 1939. Sagt er lipurlega frá æsku hans og uppvexti. Hann er ósköp venjulegur drengur í bænum og tekur sér margt fyrir hendur eins og barna og unglinga var siður fyrrum. Slippstöðin á Akureyrir dró marga að sér og þar var margt að sjá. Svo fór að Skúli lærði skipasmíðar og það átti eftir að koma sér vel fyrir hann enda þótt hann smíðaði ekki skip. Það var ekki ónýtt að hafa smið á starfsvettvangi trúboðs þar sem húsakynni voru bágborin. Kristilegt starf er ekki langt frá drengnum og hann dregst að því og er mjög áhugasamur um það. Þetta var vaxtartími kristilegs starfs þar nyrðra, KFUM og K var stofnað þar. Svo var ráðist í að kaupa Hólavatn og hefja þar sumarbúðarekstur í anda starfsins í Vatnaskógi. Skúli er sjálfsbjarga og einhendir sér í verkin. Hann fór í biblíuskóla í Fjellhaug í Noregi og fékk þar köllun til að gerast kristniboði. Síðan bætti hann við menntun sína. Stundaði sjálfsnám í bréfaskóla og enskunám hjá menntaskólakennara á Akureyri og hélt áfram í biblíuskóla. Þegar lokið er kynningu á Skúla stígur fram eiginkona hans, Kjellrun, og rekur sína sögu. Hún er fædd í Volda í Noregi árið 1942. Hún var barn að aldri þegar köllun til kristniboðs gerði vart við sig hjá henni. Hún lærði hjúkrun og fór í biblíuskóla – og kristniboðsskóla – á Fjellhaug. Þar kynnast þau Skúli. Þau voru vígð sem kristniboðar í Vatnaskógi 1966. Þá beið þeirra áframhaldandi nám í kristniboðsfræðum, tungumálanám og fleira, til þess að undirbúa þau með sem bestum hætti undir trúboðið.

Síðan er starfssaga þeirra rakin. Það er mikil saga og frá mörgu að segja eins og gefur að skilja. Starf kristniboðanna er veröld út af fyrir sig og drífur margt á daga þeirra. Fjölskyldulíf þeirra skipar vissan sess því að börnin fæðast eitt af öðru - fjölskyldulíf trúboðanna er samofið köllun þeirra. Og kristniboðsstarfið er umfangsmikið starf og þar sem Skúli var verkmaður kom margt í hans hlut en hjúkrunarfræðingurinn, kona hans, var og á kröfuhörðum vettvangi. Þau hófu störf í Eþíópíu og frásögnin af fyrstu árum þeirra þar er forvitnileg og dregur fram frumbýlingsbúskap í mörgu tilliti sem okkur er framandi. Fyrst í Gídóle og svo Konsó. Sagan er sett saman úr urmul af mjög hversdagslegum og óvenjulegum atvikum, smáum sem stórum, og lýsandi staðháttum svo að lesandi fær nokkuð glögga mynd af lífi þessa unga fólks. Það er trúin sem knýr það áfram. Þau eru kristniboðar, hann er trúboðsprestur, kennari, og hún hjúkrunarfræðingur, trúboði. En það banka líka margvísleg vandræði upp á og veikindi. Þá er stjórnmálaástandið ótryggt en svo er að sjá sem kristniboðar skipti sér sem minnst af því og er það eflaust hyggilegast. Margar hættur eru semsé í þessum framandi og starfskrefjandi umhverfi. En Kjellrun telur að þau hafi notið sérstakrar englaverndar því allt hafi farið vel hjá þeim. Það reynir á þau persónulega – eins og þegar þau þurftu að senda börnin sín í heimavistarskóla þegar þau urðu sjö ára. Slíkt kallaði fólk á Snæfellsnesi einfaldlega fráfærur. Og þegar móðir Skúla andaðist þá komst hann ekki að útförinni – slíkt var ekki gerlegt á þeim tíma. Ófriður í Eþíópíu olli því að starf þeirra hjóna hélt þar ekki áfram en þau sneru sér að kristniboðsstörfum í Kenía. Nýtt tungumál þurfti að læra sem og að setja sig inn í nýjar aðstæður í nýju landi.

Uppbyggingu og skipulagi kristniboðsstarfs verða ekki gerð skil í stuttu máli og er kannski í raun eingöngu fyrir þau sem eru gerkunnug þeim málaflokki.

Það sem lífgar og styrkir frásögn hjónanna og skrásetjarans er mikill fjöldi mynda (reyndar ekki stórar myndir) sem varpar mjög fróðlegu og skemmtilegu ljósi á starf kristniboðanna og aðstæður þeirra. Mjög gaman er að rýna í þær og velta fólki og umhverfi fyrir sér.

Í bókinni er stuttur kafli um forsendur kristniboðs (nr. 8) sem er mjög áhugaverður og vikið að upphafi íslensks kristniboðs. Í næsta kafla þar á eftir er fjallað um eðli kristniboðsins og þegar ólíkar heimsmyndir mætast. Hér er svarað að nokkru leyti fyrir margvíslega gagnrýni sem forystufólk í kristniboð hefur mátt sitja undir svo áratugum skiptir eins og menningarniðurbrot o.fl.

Trúboðið hefur fært heimafólki menntun, skólar eru reistir og sjúkrahús. Öll menntun eflir hvert samfélag.

Starfssaga þeirra Skúla og Kjellrunar meðal Pókotþjóðflokksins í Keníu er rakin skilmerkilega og sem fyrr er margt sem ber fyrir augu og eyru. Enginn hafði starfað þarna áður að kristniboði og fólkið að sögn Skúla varla séð hvítan mann áður og flestir höfðu ekki heyrt minnst á meistarann frá Nasaret. Starfið var algjört uppbyggingastarf nánast að öllu leyti og enn og aftur kom í ljós að gott var að Skúli kunni að munda hamar og sög. Í frásögninni sér maður að þau hjónin búa mjög af góðri reynslu og manndómsþroska á nýjum vettvangi.

Svo er að sjá sem það sé í eðli kristniboðs að kristniboðarnir hverfi sjálfir af vettvangi þegar innfæddir hafa öðlast burði til að taka við starfinu. Heimamenn ganga til verka og njóta víðtæks stuðnings þeirra trúboða og trúboðsamtaka sem ruddu brautina. Þessi stuðningur er margvíslegur. Til dæmis heimsóknir trúboðanna á gamlar slóðir til að halda tengslum, hvetja og örva til dáða.

Kjellrun lítur um öxl í lokakafla bókarinnar. Hún segir meðal annars frá breyttri stöðu kvenna í Keníu. Konur voru ósýnilegar og einskis virði í gamla pókotsamfélaginu. Þær höfðu ekki einu sinni nafn. Kristnin hefur gefið þeim rödd.

Gefum Kjellrunu orðið:

Staða konunnar
„Konur höfðu enga rödd í samfélaginu ... Þær fengu ekki að eiga neitt, allt sem þær unnu fyrir var eign eiginmannsins. Yrði kona ekkja, fékk hún ekkert... Þær hafa ekki einu sinni nafn! Þegar barn fæðist fær það nafn eftir kringumstæðunum sem það fæðist í. Ef rigndi þá var nafnið Regn, fæddist það þegar kýrnar voru að koma heim um kvöldið, heitir það Mjaltatími... Þegar kona eignast barn, breytist nafnið – hún heitir nú eftir elsta barni sínu. Ég heiti t.d. Mamma Kristínar eða hét, réttara sagt, því nú er ég amma og heiti Amma Thelmu. Það vekur alltaf jafn mikil fagnaðarlæti í kirkjunni þegar ég kynni mig með mínu rétta nafni, „Ko Chenan´gat, en það heitir Thelma því hún er fædd að næturlagi. Þessi nafnasiður hefur ekki breyst þrátt fyrir að konurnar hafi allt aðra verðleika en áður. Næstum allir sem eru skírðir, af báðum kynjum, velja sér annað nafn í viðbót við pókotnafnið, oftast ensk nöfn eða biblíunöfn. – Í kirkjunni fengu konur rödd, allt frá fyrsta degi. Hér leyfðist þeim að stíga fram og vitna eða syngja um Frelsara sinn og það gera þær óhikað og með mikilli gleði.“ (bls. 171-172).

Því má vel koma til safnaða sem eru að velta fyrir sér safnaðarstarfi að bókin er heppileg til nota í starfinu, til dæmis mætti hugsa sér að skipta köflunum sem eru 21 að tölu milli fólks. Hver einstaklingur myndi segja frá í stuttu máli því sem einn kafli hefur fram að færa. Enn og aftur – myndirnar allar eru náma út af fyrir sig. Og ekki væri verra að fá þau hjón í heimsókn í söfnuðina ef kostur væri og segja frá lífi sínu – völdum atvikum því að frá mörgu er að segja og þá ekki síst þeirri trú sem knýr þau áfram.

Þegar kristniboðsstörfum þeirra hjóna lauk á vettvangi fluttu þau til Íslands og Skúli var ráðinn sem framkvæmdastjóri Sambands íslenskra kristniboðsfélaga en lauk störfum árið 2005. Þau fóru þó til starfa í Keníu 2005-2007. 

Nú búa þau í elli sinni í Garðabæ og horfa þakklátum augum yfir farinn veg. 

Kirkjan.is mælir eindregið með þessari ágætu bók og þakkar fyrir.

hsh


  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Frétt

Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta
Bænagangan 3.jpg - mynd

Bænagangan 2024

23. apr. 2024
...á sumardaginn fyrsta