Jákvæð og bjartsýn kona

5. nóvember 2020

Jákvæð og bjartsýn kona

Einlæg og hressileg frásögn konu sem hefur frá mörgu að segja

Það eru ekki margar bækur til um prestsfrúr. Þess vegna var kirkjan.is dálítið forvitin þegar hún rak augun í nýútkomna bók: Vigdís Jack – Sveitastelpan sem varð prestsfrú. Það er Gyða Skúladóttir Flinker sem skráir sögu ömmu sinnar. Ugla gefur út og er bókin 240 blaðsíður.

Prestsfrúr gegndu virðingarstöðum í samfélagi fyrri tíðar. Þær voru eiginkonur prestsins og stóðu við bakið á honum í starfi. Veittu prestsheimili forstöðu en það var lengi vel á vissan hátt opinber vettvangur og þá einkum til sveita. Prestsfrúin stóð við hlið prestsins við kirkjudyr við lok guðsþjónustu og dró á vissan hátt virðingarblæ af embætti hans og valdi – prestshjón voru ákveðið samfélagstákn sem áttu að vera öðrum til fyrirmyndar í samfélaginu. Kirkjukaffið sem félagslegur viðburður var oft á hendi prestsfrúnna og forysta til dæmis í kvenfélagi kirkjunnar og öðru kirkjustarfi. Það sjónarmið hefur og heyrst að prestsfrúr hafi verið ólaunað starfsfólk kirkjunnar sem kirkjan hafi ekki alltaf áttað sig á.

En það eru breyttir tímar. Fáar ef nokkrar prestsfrúr í stíl fyrri tíðar frúa eru nú til. Þessi stétt er horfin – hvarf með sjálfstæði kvenna og breyttu samfélagi. Saga þeirra er hins vegar óskráð og vonandi fellur einhver sagnfræðingurinn fyrir henni – þó ekki væri nema fyrir pönnukökuilminum frá prestssetri í fagurri sveit þar sem kirkjugestir streyma inn á prestsheimilið til að þiggja hressingu í lok messunnar.

Þessi bók er heimild um líf prestsfrúar sem lifði tímana tvenna.

En hver er þessi sveitastelpa sem varð prestsfrú?

Skrásetjara, Gyðu Skúladóttur Flinker, tekst vel að setja fram mynd af þessari kröftugu konu sem er ætíð glöð og bjartsýn. Hún lætur ekkert koma sér á óvart og hefur mjög svo jákvæða sýn til lífsins.

Kona sem hefur lifað svo langa ævi hefur frá mörgu að segja. Og frásögn Vigdísar Jack er skýr og glögg. Það var fjölbreytilegt lífsskeið sem beið stúlkunnar ungu sem átti að rota kóp átta ára gömul vestur á Barðaströnd en gat það bara engan veginn vegna þess að augun i honum voru svo falleg og hann saklaus (bls. 24). 

Er ekki líka sagt að selir hafi mannsaugu?

En hún er ákveðin. Það kemur snemma fram. Skírð Guðmunda og er Sigurðardóttir, kölluð Munda, og ekki ánægð með það. Hún breytti nafni sínu rúmlega tvítug í Vigdís. Fædd fyrir vestan, í Skálanesi í Gufudalssveit á Barðaströnd 1929, elst fjögurra systkina, fædd í torfbæ og alin þar upp til níu ára aldurs. Kvartar ekki undan því, torfbæir hlýir og allir höfðu nóg að borða. Alin upp við húslestur á sunnudögum og sálmasöng. Margar fallegar æskufrásagnir fylgja og þar er huldufólk ekki langt undan.

En það var ekki framtíð að búa í Skálanesi svo að fjölskyldan flutti til Akraness. Faðirinn fór í fiskivinnu og vegavinnu. Vigdísi leið ekki í fyrstu vel á Akranesi. Hún var „veik úr leiðindum“ og var „sveitó.“ En þetta breyttist allt saman og hún vandist staðnum og lífi á nýjum stað.

Hún er félagslynd og það er augljóslega styrkur þessarar konu út allt lífið – ásamt æðruleysi og dugnaði, umhyggju og hjartahlýju.

Það eru skemmtilegar myndir sem fylgja frá unglingsárum hennar, teknar í íþrótta-og félagslífi í skólanum, skýrar og flottar svart-hvítar myndir. Fermingarathöfnin er henni minnisstæð og hún á enn fermingarkort frá þeim degi. Svo komu stríðsárin til Akraness eins og á aðra staði, þau höfðu áhrif á börnin. Hún og vinkona hennar kynnast breskum hermanni og hún birtir skemmtilega mynd af þeim með honum (bls. 57).

Forsetar til fyrirmyndar
Þá segir hún skemmtilega sögu af Sveini Björnssyni forseta. Vigdís var hjá frænku sinni á Álftanesi. Þar sem hún og vinkona hennar eru að rölta til að ná Hafnarfjarðarstrætisvagninum kemur forsetabíllinn og nemur staðar hjá þeim. Forsetinn býður þeim far í bæinn, en þær voru að fara í bíó! Og þær fengu líka far heim á Álftanes með forsetanum og bílstjóra hans þegar bíósýningunni var lokið (bls. 61) – svipar til frásagnarinnar þegar Guðni forseti bauð strákum tveim að fljóta með í forsetabílnum á leið úr sundi.

Vigdís er atorkusöm, fer snemma að vinna, sem sendill og saumakona. Í huga hennar blundaði að læra hjúkrun. Vann sautján ára gömul í niðursuðuverksmiðju á Akranesi og fer síðan sem ráðskona hjá vegagerðarmönnum í Borgarfirði – en faðir hennar var í vegavinnuflokknum. Síðan vinnur hún sem kaupakonu og vinnukona í Reykjavík. Alls staðar kemur hún sér vel og sýnir að hún er heilsteypt manneskja, dugleg og heiðarleg.

Á fimmta áratugnum vinnur hún í hvalsstöðinni í Hvalfirði og kynnist þar barnsföður sínum – ekkert varð úr sambandi þeirra enda stóð það ekki til að hennar sögn – segir einlæglega: „Mig hafði lengi langað í barn og Ólafur (barnsfaðirinn, innsk.) var mjög músíkalskur sem var sá eiginleiki sem ég vildi allra helst að barnið mitt fengi. Auk þess var hann skemmtilegur og indæll og því var hann sá barnsfaðir sem ég hafði leitað að.“ (Bls. 77). Hún eignast dreng og það var sr. Friðrik Friðriksson sem skírði, skírt var á kristilegu móti í Vatnaskógi, og telur hún að drengurinn hennar hafi verið síðasta barnið sem hann skírði.

Hún er ung kona í Reykjavík með barn. Rúmlega tvítug vinnukona. Og ævintýrin banka upp á.

Síðan hefst í raun upphaf prestsfrúarsögunnar. Sr. Róbert Jack er nýorðinn ekkjumaður, er prestur í Grímsey og með fjögur börn. Hún gerist ráðskona hjá honum. Það var ævintýraþráin, sem rak hana áfram. Hjúkrunarnámið heyrði sögunni til – en hins vegar átti eðlislæg umhyggja og ástríki hennar eftir að umfaðma ekki bara fjölskyldu hennar heldur og marga vandalausa.

Hún fer til Grímseyjar og sonur hennar með. Þetta er árið 1952. Miðnæturstundir sumranna í Grímsey heilla hana en annars var aðbúnaður þar allur eins og við var að búast á þeim tíma. En Grímseyingar voru í raun ein stór fjölskylda: „Nógur fiskur var í eynni og því engin fátækt.“

Ráðskonan og presturinn gengu í það heilaga á Siglufirði – Vigdís segir gott að engin mynd sé til af brúðkaupinu því að hún hafi verið bólgin á annarri kinninni eftir tanntöku og sr. Róbert hafi verið í rennandi blautum jakkafötum.

Síðan rekur hvert ævintýrið annað – þau flytja úr Grímsey 1953. Brúðkaupsferð til Skotlands er drifin af. Þá halda þau til Kanada, sr. Róbert þjónar þar íslenskum söfnuði í stóru prestakalli – hét þar Árborg. Hlunnindi fylgdu: ókeypis læknisþjónusta og frítt í bíó!

Minning um búr
Fallega og viðkvæma örstutta frásögn er að finna á bls. 106 - hún segir margt. Sonur Vigdísar segir við konu eina þar sem hann var með móður sinni í heimsókn: „Er þetta búrið þitt?“ Konan kemst við og biður drenginn um að segja orðið aftur, búrið, því að – segir hún: „...ég hef ekki heyrt það síðan hún mamma notaði það heima á Íslandi.“

Það voru gerðar kröfur til hennar sem prestsfrúar – „presturinn og prestsfrúin voru nánast eign fólksins,“ segir hún (bls. 113). En hún var „algjör grænjaxl sem prestsfrú,“ – en gekk í kvenfélögin í prestakallinu – og allt fór vel.

En Kanada var ekki framtíðarstaðurinn. Menntun var þar dýr og laun lág. Vigdís og sr. Róbert voru með þrjú barna sinna úti og tvö heima á Íslandi. Þau voru búin að vera þar í tvö ár. Þegar þau komu fengu þau bíl og sagt að hann væri þeirra ef þau yrðu þar í þrjú ár. Bílnum var því skilað. En það var líka önnur ástæða sem olli því að ekki ílentust þau þarna: sr. Róbert var forfallinn knattspyrnuáhugamaður (hafði sjálfur verið atvinnumaður og kom til Íslands til að þjálfa fótboltamenn á sínum tíma) og fótboltalýsingar BBC náðust ekki í útvarp í Kanada!

Heim fóru þau og nú var það Húnavatnssýslan sem beið þeirra. Tjörn á Vatnsnesi í Vestur-Húnavatnssýslu. Sr. Róbert var eini umsækjandinn. Vigdís segir frá því að einn hafi nú verið hængur á þessu, og það var að ekkert íbúðarhús var á Tjörn. Jörðinni hafði verið skipt í tvennt og á hinum helmingi jarðarinnar hafi verið gamli torfbærinn og fjárhúsin. Fyrsta veturinn voru þau fyrir sunnan. Síðan bjuggu þau á Geitafelli og Snælandi þar til prestsbústaður var reistur.

Þau flytja að Tjörn 1957 – en sr. Róbert hafði fengið í september 1955. En þetta varð lífsvettvangur þeirra hjóna eða allt þar til sr. Róbert lét af störfum fyrir aldurssakir.

Þegar prestsbústaður var risinn á Tjörn var hann sem höll, segir Vigdís, svo stór var hann. Þar voru líka haldnar sveitasamkomur, erfidrykkjur og fleira (Mynd á bls.143 er lýsandi, en öll húsin reistu þau hjón eftir 1956 - nema kirkjuna).

Sr. Róbert var sérstakur maður og Vigdís fer svo sem ekki mörgum orðum um hann. Nema þó. Hún segir:

„Róbert sinnti fyrst og fremst prestsstörfum sínum og kom hvergi nálægt heimilisstörfum eða búskapnum. Róbert var mjög óverklaginn og þar að auki var hann mjög ónæmur fyrir þeim mörgu verkefnum sem sífellt þurfti að inna af hendi á stóru heimili. Einstaka sinnum bauðst hann til að hjálpa til á heimilinu, en þar af leiðandi tók verkefnið mun lengri tíma en ella, þar sem ég þurfti að hjálpa honum eða laga hlutina eftir hann. Hann skildi sjaldnast hvað ég var að gera allan daginn.“ (Bls. 147).

En auðvitað var honum ekki alls varnað. Þegar hann kom heim frá Skotlandi eftir jarðarför föður síns flutti hann með sér húsgögn sem hann hafði keypt á fornsölu í Leith: rúmstæði, svefnsófa, borðstofuborð, eldhúsborð og stóla (bls. 142).

Síðan rak hvert árið annað á Tjörn, dæmigert sveitalíf þess tíma. Góð ár og skemmtileg fyrir börn og fullorðna. Prestssetrið var samkomuhús sveitarinnar vegna stærðar sinnar. Jólaböll haldin þar, þorrablót og almenn böll. Lífið er hamingja – sveitin umvefur þau. Þau tóku einnig að sér sumarbörn og voru með veikar konur frá Kleppsspítalanum. Þannig að oft var býsna mannmargt á bænum.

Síðan segir Vigdís nánar frá börnum sínum og örlögum þeirra. Hefur hún lifað að missa tvö börn sín af slysförum. Sonur hennar sem hún átti þá hún vann í hvalstöðinni lést í vinnuslysi 1967, sautján ára gamall. Fallegur minningarsteinn um hinn unga verkamann var reistur á þeim stað þar sem hann lést, á Djúpavogi. Annar sonur, Pétur, drukknaði 1983. Í sambandi við dauða hans segir hún frá yfirskilvitlegum atburði en sr. Róbert vaknaði upp við draum þar sem hann hafði farið inn í kirkjuna á Tjörn og sá þar opna kistu þar sem sonurinn hvíldi í. Þetta var eftir hádegið og þau hringdu til að athuga með hann og fengu þá fréttir að báts hans væri saknað (bls. 176-177).

Hér hefur aðeins verið drepið á nokkur atriði í ljómandi góðri og lifandi mann- og samfélagslýsingu. Það er fengur í svona bók – hér geymast margir hversdagslegir atburðir.

Kör – sem stofnun
Eitt enn. Sagt hefur verið að kör hafi verið nánast eins og sérstök stofnun í íslensku sveitasamfélagi. Hjá Vigdísi og sr. Róbert var gömul kona sem bankaði upp á hjá þeim á Tjörn – hafði verið hjá þeim úti í Grímsey – og spurði hvort hún mætti hjálpa til við sláturgerð. Hún fór ekki frá þeim, var þar í þrjátíu ár. Sú sláturtíð stóð því alllengi. Hún hjálpaði til við búskapinn og eitt og annað þar til einn góðan veðurdag að hún lagðist í rúmið og sagðist ekki gera meira. Þá 97 ára gömul. „Nei, ég er hætt,“ svaraði hún ef beðin var um eitthvert viðvik. Þegar Vigdís og sr. Róbert fluttu frá Tjörn var gömlu konunni komið fyrir á spítalanum á Hvammstanga. Meðan prestshjónin voru að pakka niður deyr hin aldna kona, og fór svo að líkkista hennar var flutt með búslóð prestshjónanna – og jörðuð syðra (bls. 182-185). (Bls. 147).

Sr. Róbert lauk störfum rúmlega sjötugur að aldri en vildi ekki í fyrstu flytja frá Tjörn. Var þar í eitt ár. Vigdís „setti hnefann í borðið“ og sagðist flytja suður hvað sem hann gerði. Hún fór en hann varð eftir þar í ár – en: „Róbert varð þó í raun mjög takmarkað fyrir norðan en mestmegnis fyrir sunnan.“ (Bls. 188).

Þau komu sér fyrir í Kópavogi og ráku umönnunarsambýli fyrir veikar konur í hliðarhúsi við heimilið.

Róbert lést 1990, 76 ára. Svo sannarlega var lífsferill hans sérstakur: kemur sem knattspyrnuþjálfari á vegum Vals til Íslands árið 1936, svo aftur ári síðar, þjálfar svo Skagamenn og Vestmannaeyinga. Lokast af hér í stríðinu og lýkur svo prófum guðfræði frá Háskóla Íslands lýðveldisárið 1944.

Vigdís, hin félagslynda kona lætur ekki deigan síga þó árin færist yfir hana. Hún tekur þátt í íþróttastarfi aldraðra, kvenfélagi Kópavogs, starfar fyrir Rauða krossinn, sinnir verkefninu Jól í skókassa og margt fleira tekur hún sér fyrir hendur.

Kirkjan.is veit ekki hvort það er einsdæmi að komið hafi út á íslensku æviminningar prests og prestsfrúar í sitt hvorri bókinni. Árið 1988 kom út Séra Róbert Jack: sjálfsævisaga: knattspyrnuþjálfarinn, sem gerðist sveitaprestur á Íslandi. – Jón Birgir Pétursson bjó til prentunar.

Á síðustu öld var nafni Prestskvennafélags Íslands breytt í Prestsmakafélag Íslands. Skýringin er augljós. Konum fjölgaði í prestastétt og maki þeirra var ekki frú. Sögur íslenskra prestsmaka eru ekki margar. Í fljótu bragði kemur þetta upp í hugann: Guðrún L. Ásgeirsdóttir sagði sögu sína sem prestsfrú í fjórum bindum: Á meðan ég man – atburðir ævi minnar - fjórða bindið kemur nú út fyrir jól. Í bókunum Öll þau klukknaköll má lesa viðtöl við margar prestsfrúr – þær bækur skráði sr. Ágúst Sigurðsson. Saga vígslubiskupshjónanna á Hólum, Aðalbjörg og Sigurður, bókin geymdi frásögur þeirra beggja. Kannski má nefna fleiri.

Kirkjan.is þakkar fyrir og mælir með þessari fallegu og einlægu sögu heilsteyptrar dugnaðarkonu sem færir okkur þessa hlið kirkjusögunnar – sögu prestsfrúarinnar.

hsh

 


  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Útgáfa

  • Frétt

Prestar í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra ásamt fyrirlesurum

Vorfundur presta í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra

26. apr. 2024
...síðasti prestafundur sr. Helgu Soffíu sem prófastur
Forsíðumynd-Sumardagurinn fyrst -skrúðganga á kirkjuplani.jpg - mynd

Sumardagurinn fyrsti í Bústaðakirkju

26. apr. 2024
...fjölsótt dagskrá í kirkjunni
Digraneskirkja

Laust starf

26. apr. 2024
...prests við Digranes- og Hjallaprestakall