Þjóðkirkja á tíma faraldurs

11. nóvember 2020

Þjóðkirkja á tíma faraldurs

Fjöldatakmarkanir vegna kórónufaraldursins í aprílmánuði kölluðu á merkingar á kirkjubekkjum - úr Bústaðakirkju

Segja má að íslenska þjóðkirkjan hafi verið býsna sýnileg þann tíma sem liðinn er af kóróuveirufaraldrinum. Streymið frá kirkjum víðs vegar hefur verið mjög áberandi, góðar stundir og vandaðar. Um það hefur verið fjallað á vef kirkjunnar, kirkjan.is, síðast hér.

Kirkjan hefur haldið áfram starfi sínu í þessum þröngu aðstæðum og lagt sig í framkróka með að fara eftir öllum sóttvarnareglum. Verið til fyrirmyndar. Athafnir eins og skírn, fermingar, hjónavígslur og útfarir hafa farið fram en við annars konar aðstæður en venjulega.

Þegar samfélagið er skekið af jafn alvarlegum atburðum á borð við illviðráðanlegan veirufaraldur, horfir fólk eins og að líkum lætur til grundvallarstofnana samfélagsins sem hafa það hlutverk á hendi að sjá til þess að viðbrögð séu rétt og allt gangi sem best fyrir sig. Ábyrgð þeirra er umtalsverð og væntingar eru miklar til þessara stofnana: ráðuneyta, sóttvarna, lögreglu og landlæknis, svo dæmi séu tekin. En hversu miklar væntingarnar eru, það hefur ekki verið kannað.

Sömuleiðis veit íslenska þjóðkirkjan ekki heldur hverjar væntingar landsmanna hafa verið til hennar þann tíma sem faraldurinn hefur geisað.

Það veit hins vegar danska þjóðkirkjan - og 74% dönsku þjóðarinnar tilheyra henni. Rétt rúmlega helmingur Dana býst við því að þjóðkirkjan danska gangi vasklega fram gagnvart sárum vanda sem fylgir faraldrinum, hjálpi og styðji fólk. Þetta kemur fram í könnun sem gerð hefur verið og fjallar um viðbrögð kirkjunnar við kórónuveirufaraldrinum. Könnunin var birt í gær.

Í könnuninni voru Danir spurðir að því hvort þeir teldu að þjóðkirkjan ætti að koma fram með skýrum hætti á neyðar- og erfiðleikatímum í þjóðlífinu. Þessu svöruðu 53% játandi og 22% neitandi. Þá höfðu 25% ekki skoðun á málinu. Það var danska þjóðskráin (Danmarks Statistik) sem gerði könnunina frá febrúar og fram í apríl. 

Könnunin er hluti af viðamikilli skýrslu sem heitir: Þjóðkirkjan fer eftir reglunum – á nýjum slóðum, sem er unnin af mennta- og upplýsingadeild dönsku þjóðkirkjunnar. Þetta er í fyrsta sinn sem könnun af þessu tagi er gerð fyrir dönsku þjóðkirkjuna. Skýrslan er yfirgripsmikil úttekt á starfi dönsku kirkjunnar á kórónuveirutímanum. Fróðlegt væri að sjá skýrslu eða greinargerð um starf íslensku þjóðkirkjunnar á tíma kórónuveirufaraldurs. 

„Þetta er mjög hátt hlutfall sem svarar játandi þegar haft er í huga að þau sem svara eru bæði í þjóðkirkjunni og standa utan hennar. Maður hefði haldið að í jafn afhelguðu samfélagi eins og Danmörk er, væru fleiri sem vildu halda trúnni fyrir utan opinbera umræðu,“ segir Birgitte Graakjær Hjort sem fer fyrir mennta- og upplýsingadeild dönsku þjóðkirkjunnar. Hún bætir við að hún túlki þetta sem mjög öflugan stuðning frá þjóðinni um að þjóðkirkjan gangi fram á völl á erfiðum tíma eins og nú. En það megi líka lesa úr skýrslunni að danska þjóðkirkjan þurfi að styrkja hlutverk sitt sem sameiningartákn. Hún bendir einnig á að enda þótt sóknin sé enn mikilvæg sem grunneining í starfi kirkjunnar þá þurfi þjóðkirkjan að hefja sig upp yfir hana og sameina ólíka hópa í samfélaginu. Með því sé hægt að styðja jafnvel betur við sóknirnar.

Peter Skov-Jakobsen, biskup í Kaupmannahafnarstifti, telur að danska þjóðkirkjan hafi sinnt hlutverki sínu vel með nýjum og óvæntum hætti þegar faraldurinn skall á. Kirkjan þurfi hins vegar að skoða hvernig hún geti komið meira fram sem einingartákn dönsku þjóðarinnar: „Það eru margir sem hafa guðfræðilegar efasemdir þegar farið er að tala um þjóðina í þessu sambandi vegna þess að styrkleiki þjóðkirkjunnar liggur fyrst og fremst í vinnunni á heimavelli, úti í sóknunum,“ segir Peter, „en við getum nú svosem tengt þetta saman og verðum að huga að því með hvaða móti best er hægt að gera það.“ Hann telur að könnunin komi heim og saman við tilfinningu hans um að spurt verði eftir þjóðkirkjunni og hlutverki hennar þegar kemur að því að ræða um tillitssemi, huggun og miðlun vonarinnar enda þótt margir Danir séu kannski frekar afskiptalitlir um kirkjuna í hversdagslegu lífi sínu.

Hér má lesa dönsku skýrsluna – hún er viðamikil og unnin af fjölda manns - margt er hægt að læra af Dönum. Nú er bara að hressa upp á dönskukunnáttuna.

Kristeligt Dagblad/hsh


Hér má sjá áhrif faraldursins á fermingar, útfarir og skírnir - Danir eru með allar tölur á hreinu (sjá bls. 288 í skýrslunni)
  • Erlend frétt

  • Frétt

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Covid-19

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut