Hvar eru þau nú?

18. nóvember 2020

Hvar eru þau nú?

Sr. Valdimar Hreiðarsson fyrrum prestur á Suðureyri við Súgandafjörð

Sr. Valdimar Hreiðarsson var þjónandi prestur í þjóðkirkjunni allt til ársins 2014. 

Hann hóf prestsskap sinn 1979 á Reykhólum en þar var hann í sjö ár. Sr. Valdimar gerði hlé á prestskapnum í tæpan áratug og tók sér margt fyrir hendur á þeim tíma. Árið 1995 varð hann sóknarprestur á Suðureyri við Súgandafjörð – nánar til tekið í Staðarprestakalli.

Eftir að hann lét af embætti á Suðureyri bjó hann áfram á staðnum. Eiginkona hans, Thanita Chaemlek, sem er tælensk, þurfti svo að fara til heimalands síns til að sinna aldraðri móður sinni en margvíslegur krankleiki ellinnar var farin að sækja hana heim. Sr. Valdimar fór nokkru síðar utan til Tælands og dvaldist þar í rúm þrjú ár.

Vestfirskur klerkur á Tælandi er að mörgu leyti mjög svo nýstárleg blanda og kirkjan.is spyr sr. Valdimar hvað hann hafi haft fyrir stafni í nýja landinu.

Maður gróðurs og dýra

„Í stuttu máli sagt fylgdi ég ráðum Voltaire og ræktaði garðinn minn og gerði ekki mikið annað,“ svarar sr. Valdimar léttur í bragði að vanda. „Við hjónin erum með um 1000 fermetra lóð við húsið og kennir þar margra grasa og ræktum við fjöldann allan af jurtum, bæði skrautjurtum og matjurtum.“

Og það sem sr. Valdimar telur síðan upp af því sem hann ræktar í garðinum sínum má sjá í verslunum hér norður í ballarhafi: mangó, banana, papaya, mórber, melónur og steinlausar eðallímónur. En auk þessara ávaxta er fjöldinn allur af plöntum að sögn sr. Valdimars sem vaxa í garði hans og eru lítt kunnar hér norður frá.

„Ég hugsaði aðallega um stærri trén, sagaði greinar og stofna og hélt þeim í rækt,“ segir sr. Valdimar. Auk þess þurfti hann að vökva garðinn svo að segja á hverjum degi og það var allnokkurt verk því að þessar jurtir allar eru vatnsfrekar – og svo er auðvitað uppgufun feiknamikil í miklum hita. En sr. Valdimar er heppinn að þurfa ekki að fara um langan veg eftir vatninu. „Við erum með tvær borholur í lóðinni og hafa þær dugað vel bæði til vökvunar og neyslu,“ segir hann og er augljóslega létt við tilhugsunina eina.

En það var ekki bara garðurinn sem átti huga hans heldur og dýrin. Sr. Valdimar sinnti einum hundi og fimm köttum. „Dýrin eru góðir félagar og hafa má af þeim bæði félagsskap og skemmtun,“ segir hann. Já, dýrin urðu svo góðir vinir hans að heimafólkið kvartaði undan því að þau skildu bara íslensku!

„Ef satt skal segja þá eru það dýrin sem ég sakna einna helst frá Tælandi,“ segir sr. Valdimar hugsi á svip.

Sr. Valdimar er líka býsna snjall ljósmyndari og hefur listrænt auga. Hann hefur birt fjölda mynda af skorkvikindum og blómum á Facebókarsíðu sinni og hafa þær vakið verðskuldaða athygli. Sumar eru návígismyndir af þessum undrum náttúrunnar og sköpunarverksins. Áhrifamiklar myndir og litríkar. 

Tælenska samfélagið

Sr. Valdimar hefur augljóslega kannað vel sögu og hagi Tælendinga. Auk þess er hann greinilega með hið fræga gestsauga sem ekki allir hafa.

„Tælendingar eru þekktir fyrir notalegt viðmót,“ segir hann, „þeir eru brosmildir og hjálpsamir.“

Hann segir að til skamms tíma hafi stórfjölskyldan verið algengt fjölskylduform í Tælandi.

„Það var þá ættmóðirin sem stjórnaði fjölskyldunni því sögulega séð hefur ríkt ákveðið mæðraveldi í Tælandi í gegnum tíðina,“ segir sr. Valdimar, „tælenskar konar standa karlpeningnum síst að baki.“

Vald ættmóðurinnar
Lengi vel var það svo að tælenska ættmóðirin hélt utan um fjármálin og önnur málefni fjölskyldunnar. Fjölskyldumeðlimir afhentu henni laun sín og svo var úthlutað eftir þörfum. Segir sagan að fjölskyldufaðirinn hafi hlýtt ættmóðurinni eða eiginkonunni að mestu leyti innan dyra en þegar hann var sloppinn út þá var hann orðinn sinn eigin herra! Sr. Valdimar segir að enn eimi eftir af þessu kerfi þó að í dag sé kjarnafjölskyldan algengasta fjölskylduformið í borgum. Aldraðir ættingjar fái þó oft að dvelja í skjóli afkomenda og er það talið nánast heilög skylda.

Búddistar og skipin tvö

Trúmál ber á góma. Þó undarlegt sé þá er Lúther gamla líka að finna á Tælandi. Sr. Valdimar segist hafa rekist á lútherskar kirkju en sú kirkja sem var honum næst var norska sjómannakirkjan og þar var honum vel tekið.

„Tælendingar eru Búddatrúar og er Búddasiður alltumlykjandi í samfélaginu,“ segir sr. Valdimar. „Þeir tilheyra þeim skóla Búddismans sem hefur verið kallaður litla skipið og einkennist af því að þar er litið svo á að einungis fáir muni öðlast nirvana eða sameiningu við alheimsvitundina.“ Þarlendir telja að sá/sú sem öðlast nirvana muni deyja skömmu eftir þann atburð og líkja því við hjól leirkerasmiðsins sem heldur áfram að snúast um stund eftir að leirkerasmiðurinn hefur hætt að knýja það áfram með fótum sínum.

„Hin greinin á Búddismanum er svo stóra skipið og þar er þeirri skoðun haldið fram að líf hér á jörð sé til eftir nirvana,“ segir sr. Valdimar og að Dalai Lama og hans fylgisfólk séu dæmi um háseta á hinu stóra skipi. „Ákveðinn munur er á fasi munka þessa tveggja skóla,“ bætir hann við, „þeir sem aðhyllast stóra skipið eru að jafnaði glaðlegri og taka ef eitthvað er virkari þátt í sýsli og basli mannlegrar tilveru. Tælensku munkarnir séu aftur á móti fremur alvörugefnir enda komist fáir um borð í litla skipið. „En þeir taka trú sína mjög hátíðlega og til þeirra eru gerðar miklar kröfur, bæði af almenningi og yfirvöldum,“ segir sr. Valdimar.

Tælensk hof og hinn guðlegi konungur

Öll trúarbrögð eiga sér sína siði og venjur og það hlýtur að vera forvitnilegt fyrir íslenskan prest að virða það fyrir sér.

Hofin og karmað
Sr. Valdimar segir Tælendinga duglega að sækja hofin á hátíðisdögum. „Hofin eru yfirleitt byggð á fremur stóru landsvæði sem rúmar vel mikinn mannfjölda,“ segir hann. „Fólkið kemur á staðinn, hlýðir á prédikun munkanna inni í hofinu en síðast og ekki síst þá blandar það geði við náungann þarna á grundum hofsins, kaupir sér gómsætan mat sem er matreiddur á staðnum og gerir sér glaðan dag.“ Sr. Valdimar segir að hofin bjóði gjarnan upp á margs konar lausnarleiðir frá hinu illumflýjanlega karma og lögmáli endurholdgunar. Hægt er að gefa til hofsins og er það talið vænlegt til að hressa upp á karmað. „Hins vegar er veraldarhyggja orðin mjög svo áberandi í samfélaginu,“ segir hann. „Menntað fólk og þeir sem yngri eru, virðast vera að veikjast í trúnni og sama má segja um hina nýju millistétt sem er farin að finna æ meira til sín.“

Tælenski konungurinn er að mati heimamanna guðlegrar ættar og það kemur víða fram.

„Það má ekki hallmæla konunginum og varðar slíkt hörðum refsingum,“ segir sr. Valdimar. „Ég sá eitt sinn auglýsingaspjald við fjölfarna hraðbraut í Bangkok þar sem sjá mátti ungmenni krjúpa fyrir konunginum eins og guðlegri veru.“

Tælenska konungdæmið og hin opinbera trú eru samofin órjúfanlegum böndum. Til dæmis er mæðradagur afmælisdagur drottningar og feðradagur er afmælisdagur konungs. „Haldið er upp á þessa daga með samkomum í hofunum,“ segir sr. Valdimar.

Nirvana
Í fornum tælenskum ritum er því lýst að þegar konungur deyr, endurholdgast hann í sjöunda og efsta himni, eða himnaríki. Þar situr hann á guðaþingi með öðrum guðlegum verum og deilir með þeim þeirri reynslu sem hann öðlaðist er hann ríkti yfir konungdæmi sínu á jörðu. Hins vegar er vistin í sjöunda himni ekki til eilífðar. Jafnvel þar fölnar og visnar hin guðdómlega dýrð og viðkomandi deyr til nýrrar endurholdgunar. Aðeins þau er öðlast nirvana eru lausir undan bölvun endurholdgunarinnar.

Hrísgrjón, fiskur og bílar

Sr. Valdimar segir að Tæland hafi verið bændasamfélag en það hafi þó breyst mikið hina síðustu áratugi. „Í borgunum hefur myndast fremur öflug millistétt,“ segir hann og muni hún örugglega vilja láta til sín taka í framtíðinni.

„Landbúnaður er engu að síður aðalatvinnuvegur Tælendinga,“ segir sr. Valdimar. „Þó er hann fjölbreytilegur en hrísgrjónaræktun er stærsti hluti hans.“ Fáar þjóðir flytji út eins mikið af hrísgrjónum og Tælendingar. Þá framleiði þeir mikið af fiski í fiskeldisstöðvum og séu öflugir útgerðarmenn. „Þeir veiða til dæmis miklu meiri fisk en við Íslendingar,“ segir sr. Valdimar. Þá er og mikill iðnaður stundaður í landinu. „Tælendingar eru stórtækir í bílaframleiðslu og framleiða undir þekktum merkjum, bæði fyrir innanlandsmarkað og til útflutnings til annarra landa Asíu,“ segir sr. Valdimar.

Tæland býr við þingbundna lýðræðisstjórn. Á umliðnum öldum hefur gengið á ýmsu í sögu landsins að sögn sr. Valdimars og því miður sé enn mikil óvissa og ójafnvægi í tælenskum stjórnmálum. Hann segir að margt sé samt vel gert í landinu. Til dæmis sé heilbrigðiskerfið með því besta sem þekkist. Einnig sé mikið lagt upp úr hvers konar menntun. Vegakerfi og samgöngur séu góðar þó að ekki sé heiglum hent að aka vélknúnu ökutæki á strætum borga og bæja vegna frumlegs og gjarnan óvænts aksturslags heimafólks.

Melgrasskúfurinn harði

Og hvað ætlar sr. Valdimar að gera þegar kórónuveirufaraldurinn er yfirgenginn? Flytja aftur út til Tælands?

„Ég efast um að ég mundi dvelja langdvölum í Tælandi í framtíðinni,“ segir klerkurinn vestfirski. „Hins vegar er gott að koma þangað og njóta ylsins frá suðrænni sól um stund og hlýju og vináttu þessa góða fólks sem byggir landið“. Hann bætir því svo við eftir stutta þögn: „Ég hlakka náttúrlega líka til að hitta hundinn minn og kettina aftur og vona að þau hafi ekki misst niður íslenskuna.“

En hvernig er að vera kominn aftur vestur á firði eftir ferðalag og búsetu í suðaustur Asíu?

„Það var dásamleg og frelsandi tilfinning að vera kominn aftur vestur,“ segir sr. Valdimar. „Ytra var ég búinn að vera í strangri sjálfskipaðri sóttkví eða jafnvel einangrun frá því í febrúar og út júnímánuð.“ Hann segir að enda þótt umbúnaður og atlæti hafi verið gott þá hafi þetta verið mikið fásinni og tekið á þegar til lengdar lét. „Hér fyrir vestan hef ég ótalmargt fyrir stafni, svo mikið reyndar að ég sé varla fram úr því,“ segir hann. Hann býr um þessar mundir á Súðavík en þau hjón eru að flytjast til Bolungarvíkur. 

Já, og garðurinn hans sr. Valdimars – og Voltaire:

„Ég rækta líka hér vestra garðinn minn þó að hann sé með öðru móti en garðurinn úti í Tælandi,“ segir sr. Valdimar að lokum með bros á vör. Það er sem sé melgrasskúfurinn harði eins og hjá skáldinu sem heillar hann meira en hin skrautlegu, suðrænu blóm í garðinum hlýja þar sem nægur var nú áburðurinn og ljósið.

hsh


Sr. Valdimar og kona hans, Thanita Chaemlek


Quo vadis?


Sr. Valdimar er snjall ljósmyndari og hefur myndað skordýr og blóm



Sr. Valdimar fyrir altari kirkjunnar í Vatnsfirði


Búddamunkar - en hvoru skipinu tilheyra þeir, því litla eða stóra? Lesandinn verður að finna út úr því.


Thanita Chaemlek og sr. Valdimar Hreiðarsson fyrir framan hof í Tælandi


Tælenskur matur


Ein af mörgum myndum sr. Valdimars


  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Frétt

Frá Presta- og djáknastefnunni 2023 í Grensáskirkju

Presta- og djáknastefnan 2024 sett á morgun

15. apr. 2024
...í Stykkishólmi
Sr. Sigríður Gunnarsdóttir

Sr. Sigríður skipuð prófastur

15. apr. 2024
...í Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi
LWF logo.jpg - mynd

Verkefnastjóri á sviði helgihalds

12. apr. 2024
…hjá Lútherska Heimssambandinu