Biblía með hlutverk

22. janúar 2021

Biblía með hlutverk

Joe Biden, 46. forseti Bandaríkjanna, leggur hönd á helga bók - mynd: Kristeligt Dagblad - Saul Loeb/AFP/Ritzau Scanpix

Það var margt sem vakti athygli við innsetningarathöfn Joe Bidens í embætti Bandaríkjaforseta á dögunum.

Þeir voru fallegir lopavettlingarnir sem Bernie Sanders bar og margur hér á Fróni horfði fast á þá og spurði sjálfan sig hvort einhver þeim nákominn hefði prjónað. Svo kom upp úr dúrnum að þeir voru frá konu sem endurnýtir lopa með þessum hætti. Segja má að þessir vettlingar hafi orðið heimsfrægir um stund.

Nú svo var það glæsilegur ljóðaflutningur unga skáldsins, Amöndu Gorman – hún var framtíðartákn.

En það var líka borið fram annað sígilt tákn fortíðar og framtíðar.

Þegar komið var að því að sverja sjálfan embættiseiðinn var margt sem dró athyglina og þar á meðal forláta Biblía sem dr. Jill Biden, verðandi forsetafrú, hélt á.
Joe Biden lagði hönd á þessa gömlu og að því er virtist lúnu Biblíu og sór eiðinn sem 46. forseti Bandaríkjanna. 

Nær allir forsetar Bandaríkjanna frá dögum þess fyrsta, Georges Washington, hafa lagt hönd á helga bók þegar þeir sverja embættiseið sinn og hafa þeir gjarnan notast við eigin Biblíur eða aðrar sem eru í opinberri eigu en hafa komið að þessari mikilvægu athöfn. Barak Obama sór forsetaeiðinn við Biblíu sem notuð var við innsetningu Abrahams Lincolns – sama gerði sá frægi Donald Trump. Obama bætti um betur við seinni innsetningarathöfn sína og studdist þá líka við Biblíu úr eigu séra Marteins Lúthers Kings, yngri. Jimmy Carter og Bush eldri notuðu Biblíu Washingtons og eins vildi Bush yngri nota hana en þar sem spáð var rigningu við embættistöku hans og Washington-Biblían orðin lasleg fyrir aldurs sakir var ekki orðið við því. Hann notaði því sína eigin Biblíu.

Joe Biden er annar forseta Bandaríkjanna sem er rómversk-kaþólskur – hinn var John F. Kennedy. Hann fer ekki leynt með að kristin trú skiptir miklu máli í lífi hans. Að morgni innsetningardagsins sótti hann guðsþjónstu í St. Matthews-dómkirkjunni i Washington. Joe Biden hefur vitnað um trú sína í mörgum viðtölum en hún hefur reynst honum mikill styrkur í ýmsum þrengingum. Hann missti til dæmis fyrri einkonu sína og ársgamla dóttur í bílslysi 1971.

Biblían sem var í heiðurssæti við innsetningarathöfnina á miðvikudaginn var fjölskyldubiblía hans og hefur verið það frá 1893. Á henni er upphleyptur keltneskur kross eins og sjá má á myndinni. Fremst í hana eru skrifaðar dagsetningar sem skipta miklu máli fyrir fjölskyldu hans, og að sjálfsögðu var þeim sögufræga degi, 20. janúar 2021 bætt við.

Fjölskyldubiblían er 128 ára gömul. Hún snertir líka við viðkvæmum og persónulegum streng í hjarta hins nýja forseta Bandaríkjanna þar sem sonur hans lagði hönd á þessa sömu Biblíu þegar hann sór eið sem ríkissaksóknari en hann lést úr krabbameini fyrir fimm árum.


Hér ber á góma mikilvægi Biblíunnar fyrir Joe Biden, forseta Bandaríkjanna

Kristeligt Dagblad / The Guardian / hsh


  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Erlend frétt

Aukakirkjuþing 2021 verður haldið í Katrínartúni 4 í þessum sal sem kallast Þingvellir - mynd: hsh

Aukakirkjuþing 2021

19. jún. 2021
...mánudaginn 21. júní
Útialtarið á Esjubergi, Kjalarnesi - mynd: hsh

Vígt á sunnudaginn

18. jún. 2021
...útialtarið á Esjubergi
Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir á leið til Dómkirkjunnar í morgun - mynd: hsh

Fólkið og menningararfurinn

17. jún. 2021
...prédikun biskups Íslands 17. júní 2021