Kirkjan að störfum

23. janúar 2021

Kirkjan að störfum

Langholtskirkja í Reykjavík - m.a. er hægt að „líta inn“ í kirkjuna á netinu en það er athyglisverð nýjung - sjá punkt nr. 6

Helgin er að ganga í garð og þá er við hæfi að skoða hvaða kirkju- og menningarstarf er i boði þegar svalur þorrinn er mættur til leiks á kórónuveirutíð.

Messutilkynningadálkurinn í Mogganum er í styttra lagi. Það segir alls ekki allt um kirkustarfið. Margt er nefnilega í boði og meira en flesta grunar og þess vegna er um að gera að fylgjast vel með svo fólk missi ekki af neinu.

Kirkjan.is hvetur lesendur sína til að renna augum yfir þetta:

Sjö punktar

1. Skoða heimasíðu kirkjunnar þinnar eða Facebókarsíðu og athuga hvað boðið er upp á um helgina. Í mörgum kirkjum er barnastarf farið aftur af stað að viðstöddum börnum og helgistundir hafðar um hönd - að sjálfsögðu er allra sóttvarnareglna gætt. Fjölmargar sóknir hafa verið með öflugt streymi og fjölbreyttar stundir. Svo eru margar kirkjur opnar á vissum tíma. 

2. Hlusta á góðan hlaðvarpsþátt þeirra sr. Sveins Valgeirssonar og sr. Steinunnar Arnþrúðar Björnsdóttur. Þau hafa sent út marga þætti og sá nýjasti er hér. Flottir þættir og öflugt fólk!

3. Málþing verður haldið í dag, 23. janúar, til heiðurs Þóru Kristjánsdóttur (f. 1939), listfræðingi, kl. 13.00-15.00 - hún á afmæli í dag. Þóra sat um tíma í stjórn Skálholtsútgáfunnar – útgáfufélags þjóðkirkjunnar. Hún er listfróð um kirkju og kristni. Þetta málþing er rafrænt og hér má finna hlekk á viðburðinn. Margir áhugaverðir fyrirlestrar eru í boði. Kirkjan.is sendir Þóru að sjálfsögðu hlýja afmæliskveðju.

4. Það er gráupplagt að kíkja á texta morgundagsins og velta honum fyrir sér - það er síðasti sunnudagur eftir þrettánda. Þetta er með magnaðri textum.

5. Líta á sköpunarverkið - gönguferð úti í náttúrunni, muna bara að klæða sig vel, því kalt er og þorri blæs.

6. Kirkjuskoðunarferð – gakktu, hlauptu, hjólaðu eða aktu milli fimm kirkna og skoðaðu þær. Taktu jafnvel myndir frá ýmsum sjónarhornum og lestu um þær á netinu í símanum þínum. Svo er líka hægt að fara í kirkjuskoðunarferð á netinu - kíktu til dæmis inn í Langholtskirkju!

7. Kynna sér vef Hins íslenska biblíufélags sem er mjög fræðandi, skoða til dæmis eldri útgáfur Biblíunnar. Hví ekki að opna Guðbrandsbiblíu og sjá hvernig texti morgundagsins er orðaður þar?

hsh


  • List og kirkja

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Frétt

Aukakirkjuþing 2021 verður haldið í Katrínartúni 4 í þessum sal sem kallast Þingvellir - mynd: hsh

Aukakirkjuþing 2021

19. jún. 2021
...mánudaginn 21. júní
Útialtarið á Esjubergi, Kjalarnesi - mynd: hsh

Vígt á sunnudaginn

18. jún. 2021
...útialtarið á Esjubergi
Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir á leið til Dómkirkjunnar í morgun - mynd: hsh

Fólkið og menningararfurinn

17. jún. 2021
...prédikun biskups Íslands 17. júní 2021