Kynning á störfum

24. janúar 2021

Kynning á störfum

Skírnarskál Digraneskirkju - myndbrot

Það er eitt og annað sem kórónuveirufaraldurinn hefur jákvætt í för með sér enda þótt enginn hefði nú viljað sjá hann né heyra. Þröngar aðstæður kalla á nýjar leiðir og breytt viðhorf. Ótrúlega margar nýjungar hafa skotið upp kolli í samskiptaleiðum fólks bæði á sviði einkalífs og starfslífs. Markmiðið hefur verið að láta kórónuveiruna valda sem minnstum usla í samfélaginu.

Fjöldi fólks er að störfum hjá kirkjunum. Starfið í kirkjuhúsunum sjálfum er háð ýmsum takmörkunum eins og kunnugt er. Hin hefðbundna guðsþjónusta er kjarnastarfsemi kirkjunnar og hún hefur verið svo segja á hliðarlínunni í kófinu en streymi á hvers kyns helgistundum hefur verið algengt.

Starfsfólk kirkjunnar hefur að sögn þurft að sinna sálusorgun í ríkara mæli en áður vegna heimsfaraldursins og afleiðinga hans. Það er skiljanlegt. Sú sálusorgun hefur til dæmis farið fram gegnum síma eða spjall á neti.

En það eru margir sem spyrja hvað í ósköpunum felist í þessu sem kallað er sálusorgun eða sálgæsla. Og sumir halda að sálusorgunin tengist alltaf glímu við dauða og sorg. Svo er ekki.

Danska þjóðkirkjan greip til þess ráð fyrir nokkru að kynna fyrir löndum sínum hvað í sálusorgun kirkjunnar fælist. Búnir voru til tíu hlaðvarpsþættir svo áheyrendur þeirra áttuðu sig á því hvað sálusorgun væri og hvernig sálusorgarinn (sálgætirinn) starfar. Þættirnir eru leiknir og viðmælendur eru á ýmsum aldri. Starfandi prestar eru í hlutverki sálusorgarans og þar á meðal tveir sjúkrahúsprestar.

Sálusorgunarviðfangsefnin tíu

1. Hvernig er hægt að lifa með sorginni eftir barnsmissi?
2. Hvernig er hægt að brjótast út úr sjálfseyðandi hugsanagangi?
3. Hvernig getur trúin hjálpað trúlausum einstaklingi að glíma við streitu, kvíða og þunglyndi?
4. Hvernig er hægt að heilga rofið samband við föður sinn?
5. Hvernig er hægt að vinna bug á nagandi tilfinningu um tilgangsleysi alls?
6. Hvernig er hægt að styðja við bakið á fólki í ástarsorg?
7. Hvernig er hægt að bregðast við óafturkræfum heilsubresti og sætta sig við hann?
8. Hvernig lærist það að vera móðir?
9. Hvernig er hægt að fyrirgefa þeim sem telur sig ekki hafa gert neitt rangt?
10. Hvernig er hægt að byggja upp nýtt samband með tvö börn í farteskinu?

Þau sem láta ekki dönskuna hrella sig geta hlustað hér

Hver veit nema hugmyndaauðgi Dananna kveiki upp í landanum og einhverju svipuðu verði ýtt á flot í okkar kirkju.

Svo öllu sé haldið til haga þá er hægt að segja að margvísleg kynning hafi farið fram á starfi kirkjunnar í öllu því streymi sem hefur séð dagsins ljós. Það eru ekki bara helgistundir heldur og umfjöllun um ýmis mál; kynning á kirkjum og umhverfi þeirra. Skemmst er að minnast hinna svokölluðu jóladagatala sem mörg prestaköll og prófastsdæmi stóðu að. Í þeim voru ýmsar hliðar á kirkju og kirkjustarfi dregnar fram í dagsljósið og var það vel gert. Þar steig fram kirkjufólk úr öllum áttum og sýndi hinn dulda styrk kirkjunnar sem rótgróinnar fjöldahreyfingar.

Kirke.dk / folkekirken.dk. / hsh


  • Erlend frétt

  • Frétt

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Trúin

  • Covid-19

Prestar í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra ásamt fyrirlesurum

Vorfundur presta í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra

26. apr. 2024
...síðasti prestafundur sr. Helgu Soffíu sem prófastur
Forsíðumynd-Sumardagurinn fyrst -skrúðganga á kirkjuplani.jpg - mynd

Sumardagurinn fyrsti í Bústaðakirkju

26. apr. 2024
...fjölsótt dagskrá í kirkjunni
Digraneskirkja

Laust starf

26. apr. 2024
...prests við Digranes- og Hjallaprestakall