Veiran, bálfarir og mengun

28. janúar 2021

Veiran, bálfarir og mengun

Duftker - þau eru til af ýmsu tagi - þetta er umhverfisvænt úr pappa

Kirkjan.is las það í blaðútgáfu The Daily Telegraph að verið sé að rannsaka aukna kvikasilfursmengun í andrúmslofti í Bretlandi vegna þess að fjöldi látinna hafi aldrei verið jafn mikill frá því á dögum síðari heimsstyrjaldarinnar.

Hvernig tengist kvikasilfursmengun því?

Jú, ástæðan er sú að yfir 80% Breta kjósa bálför eða um 470.000 manns á ári hverju. Hins vegar létust á síðasta ári 604.000 manns á Englandi og í Wales. Kórónuveiran er ástæða þessarar miklu hækkunar á fjölda látinna. 

Svo sem kunnugt er hefur kórónuveiran herjað illilega á Breta og þeir gripið til ýmissa aðgerða gegn útbreiðslu hennar, eins og útgöngubanns og lokunar skóla. Í gær var tilkynnt að 100.000 manns hefðu látist vegna veirunnar skæðu. 

Kórónuveirufaraldurinn hefur því umhverfisáhrif í þessu efni vegna þess að við líkbrennslu losnar kvikasilfur úr tannfyllingum hinna látnu út í andrúmsloftið. Á hverju ári fara samkvæmt mælingum Breta 590 kg af kvikasilfri út í andrúmsloftið vegna bálfara. Nú leikur sem sé sterkur grunur á því að kvikasilfursmengun sé meiri en alla jafna vegna fjölgunar andláta. Stjórnvöld hafa þegar skipað rannsóknarteymi til að varpa frekara ljósi á málið.

Kvikasilfursmengun er hættuleg þunguðum konum, nýrnasjúklingum og þeim er glíma við MS-sjúkdóminn.

Hátt hlutfall bálfara í Bretlandi vekur athygli og leiðir hugann að því hvert sé hlutfallið hér á landi.

Staða mála hér á landi
Kirkjan.is sló á þráðinn til sr. Þórsteins Ragnarssonar, forstjóra Kirkjugarðanna, og spurði hann út í stöðu mála hér á landi hvað þetta snertir.

„Á síðasta ári voru 976 líkbrennslur á Íslandi en samkvæmt bráðabirgðatölum létust 2.359 á landinu“, segir sr. Þórsteinn. „Það eru 41.37% sem kjósa bálför.“ Hann segir að hlutfall þeirra er kjósa bálför hafi aukist mjög hratt frá aldamótum en þá kusu 11.63% þann kost.

Líkbrennsluofnarnir í Fossvogi eru frá því á fimmta áratugnum og hefur þeim verið komið í það horf sem stenst allar kröfur um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Sr. Þórsteinn segir að í skýrslu frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands frá 2012 um hugsanlega mengun frá bálstofunni hafi niðurlagsorðin verið jákvæð og þessi:

Ekki verður séð að jarðvegur á þessu svæði sé mengaður af kvikasilfri, nema í mjög óverulegum mæli og ekki sérstaklega hægt að tengja þá mengun líkbrennslunni.

Bálfararfélag Íslands var stofnað árið 1934. Í stjórn þess voru kosnir dr. Gunnlaugur Claessen læknir, Benedikt Gröndal verkfræðingur, Ágúst Jósefsson heilbrigðisfulltrúi, Björn Ólafsson stórkaupmaður og Gunnar Einarsson prentsmiðjustjór. Fyrsta bálförin á Íslandi fór fram 31. júlí árið 1948 en það var bálför dr. Gunnlaugs Claessen, stjórnarmanns í Bálfararfélaginu.

The Daily Telegraph / hsh

  • Erlend frétt

  • Frétt

  • Samfélag

  • Umhverfismál

  • Covid-19

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut
Sr. Þorvaldur Víðisson

Sr. Þorvaldur skipaður prófastur

18. apr. 2024
...í Reykjavíkurprófastdsdæmi vestra