„...veita vilja almennings vægi...“

30. janúar 2021

„...veita vilja almennings vægi...“

Samstillt átak félaga og samtaka getur lyft Grettistaki - myndin sýnir listaverk eftir Magnús Tómasson sem ber heitið Grettistak

Starfsemi þjóðkirkjunnar er víðtæk og þar ber mannréttindamál iðulega á góma. Þau mál geta verið einföld og flókin í senn en eiga það sammerkt að krefjast einhverra úrlausna.

Fyrir nokkru sendi Mannréttindaskrifstofa Íslands frá sér áskorun til íslenskra stjórnvalda að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum sem er þessi:

Eftirtalin félög skora á íslensk stjórnvöld að fullgilda Samning Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum en samningurinn var samþykktur af 122 ríkjum á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York þann 7. júlí 2017. Hinn 24. október sl. höfðu 50 ríki fullgilt samninginn og mun hann því taka gildi í dag, þann 22. janúar 2021.

Samningurinn festir í sessi afdráttarlaust bann við notkun kjarnorkuvopna á grundvelli alþjóðlegra mannúðarlaga sem tryggja skal eyðingu og afnám slíkra vopna, sem og bann við framleiðslu, flutningi, þróun, prófun, geymslu eða hótunum um notkun þeirra. Samningurinn undirstrikar þá alvarlegu hættu sem stafar af áframhaldandi tilvist kjarnorkuvopna og þeim óafturkræfu og gereyðandi afleiðingum sem slík vopn valda. Samningurinn skuldbindur ríki einnig til að koma þolendum kjarnorkuvopnanotkunar og tilrauna til aðstoðar ásamt því að koma á endurbótum vegna mengaðs umhverfis af völdum þeirra.

Nýleg könnun á vegum International Campaign to Abolish Nuclear Weapons (ICAN) á Íslandi leiddi í ljós að 86% þeirra sem spurðir voru eru hlynntir gildistöku samningsins á Íslandi. Þá eru jafnframt 75% hlynntir því að Ísland verði fyrst NATO ríkja til að skrifa undir og fullgilda samninginn. Sambærilegar kannanir voru gerðar í Belgíu, Danmörku, Hollandi, Ítalíu og á Spáni og leiddu í ljós að nálægt eða yfir 80% eru fylgjandi samningnum og endurspegla þannig yfirgnæfandi stuðning almennings í þessum ríkjum gagnvart samningnum og gildistöku hans.

Kjarnorkuvopn hafa í för með sér óafturkræfan eyðileggingarmátt. Engin læknis- eða mannúðaraðstoð er möguleg strax í kjölfar kjarnorkuárásar. Til frambúðar hefur slík árás skelfilegar afleiðingar fyrir mannfólk, dýraríki, umhverfi og loftslag, svo ekki sé minnst á neikvæð áhrif á landbúnaðarframleiðslu, ásamt skyndilegri hitalækkun og minnkun úrkomu á heimsvísu vegna reyks og rykmyndunar. Bann við kjarnorkuvopnum er því eina tryggingin gegn notkun slíkra vopna og þeim afleiðingum sem notkun þeirra hefur í för með sér.

Við undirrituð hvetjum íslensk stjórnvöld til þess að veita vilja almennings vægi og taka skref í átt að fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Aðild Íslands að samningnum er nauðsynleg til að stuðla að vernd almennra borgara, lífríkis og náttúru til framtíðar og styrkja enn fremur stöðu þeirra alþjóðlegu samninga um kjarnorkuvopn sem Ísland á nú þegar aðild að. Með undirritun og fullgildingu samningsins er fyllt upp í mikilvægar eyður sem fyrri samningar hafa ekki kveðið á um. 

Nánari upplýsingar um ICAN og skoðanakönnunina má nálgast hér.

Mannréttindaskrifa Íslands var stofnuð í tilefni af fimmtíu ára afmæli lýðveldisins árið 1994. Þetta er óháð stofnun sem lætur sig mannréttindi varða og liður í því eru rannsóknir, fræðsla, umræður og upplýsingasöfnun um stöðu mannréttindamála hér á landi og annars staðar.


Fjölmörg samtök stóðu að stofnun Mannréttindaskrifstofunnar á sínum tíma. Þar í flokki var þjóðkirkjan í gegnum Biskupsstofu og Hjálparstarf kirkjunnar.

Fulltrúi Biskupsstofu í stjórn Mannréttindaskrifstofunnar hefur verið Ragnheiður Sverrisdóttir, djákni, en þar sem hún hefur látið af störfum hefur varamaður hennar tekið við en það er sr. Arnór Bjarki Blomsterberg. Aðalfulltrúi Hjálparstarfsins er Kristín Ólafsdóttir og varafulltrúi er Bjarni Gíslason.

Kirkjan.is spurði Ragnheiði, fráfarandi stjórnarmann, nánar út í fyrirkomulag á samstarfinu. Sagðist hún hafa sem aðalfulltrúi í stjórninni upplýst Biskupsstofu, þ.e. biskup og biskupsritara, hverju sinni um gang ýmissa mála og skilað inn gögnum í skjalasafn skrifstofunnar. „Drög og endanlegan texta að þessari ályktun um bann við kjarnorkuvopnum sendi ég á Hólabiskup í leyfi biskups Íslands og biskupsritara sem samþykktu bæði endanlegan texta“, sagði hún.

Ragnheiður sagðist líka hafa verið að velta fyrirkomulaginu fyrir sér í sambandi við það hver hin formlega aðild þjóðkirkjunnar ætti að vera að Mannréttindaskrifstofunni. „Ætti það að vera kirkjuþing? Eða kirkjuráð?“ sagði hún og ítrekaði að mannréttindi væri málaflokkur sem kæmi kirkjunni svo sannarlega við.

Þessi undirrituðu áskorunina
Alda félag um sjálfbærni og lýðræði
Alþýðusamband Íslands
Íslandsdeild Amnesty International
Barnaheill
Biskupsstofa
Hjálparstarf kirkjunnar
Húmanistahreyfingin
Höfði friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands
Kvenréttindafélag Íslands
Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna
Landssamtökin Þroskahjálp
Læknafélag Íslands
Mannréttindaskrifstofa Íslands
Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna
Náttúruverndarsamtök Íslands
Rauði krossinn á Íslandi
Samtök hernaðarandstæðinga
Samtökin 78
Siðmennt
Soka Gakkai International á Íslandi
UNICEF á Íslandi
UN Women á Íslandi
Öryrkjabandalag Íslands.

hsh

  • Biskup

  • Fræðsla

  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Skipulag

  • Alþjóðastarf

logo.png - mynd

Síðari umferð kosningar biskups Íslands

25. apr. 2024
...hefst 2. maí næstkomandi.
Ólafur Egilsson

Vinir Hjálparstarfsins fræðast um starfið

24. apr. 2024
...stilla saman strengi
Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta