Sjálfstæð kirkja

9. febrúar 2021

Sjálfstæð kirkja

Kristin Gunleiksrud Raaum er forseti kirkjuráðs norsku kirkjunnar

Mörg muna þann tíma er prestar sem voru hættir störfum hlupu í afleysingar í lengri eða skemmri tíma. Helst var ekki vígt til aukaþjónustu.

Sprækir klerkar og margir vel yfir áttrætt þræddu jafnvel hvert prestakallið á fætur öðru í afleysingum og blésu vart úr nös.

Síðan breyttust lög með þeim hætti að starfsfólki kirkjunnar stóð ekki lengur til boða frekar en öðru starfsfólki hins opinbera að leggja fram starfsþrek sitt og lífsþrótt eftir sjötugt þó í íhlaupum væri.

Norska dagblaðið, Vårt land, sagði frá því fyrir skemmstu, að þjóðkirkjan þar í landi íhugaði að gefa starfsfólki sínu tækifæri til að þjóna allt til 75 ára aldurs. Það verði ekki sett í kirkjulög sem skýlaus réttur heldur sem kostur.

Kirkjuráð norsku kirkjunnar hefur sent út könnun til presta og safnaða og spyr hvað fólki finnist um hugmyndina. Þetta er sett fram sem sveigjanleg starfslok eftir sjötugt og hægt verði að framlengja starfstímann um eitt ár í senn í allt að fimm ár. Ekki ólíkt ökuréttindum sem endurnýjuð eru einu sinni á ári eftir sjötugt ef óbrjáluð sjón og sæmileg ferilvist leyfir.

Forseti kirkjuráðs norsku kirkjunnar er Kristin Gunleiksrud Raaum og var nýlega kjörin í þriðja sinn til að gegna þeirri lykilstöðu - kosið er til tveggja ára í senn.

Skemmst er frá því að segja að kennilýðurinn hefur tekið vel í þetta sem og annað starfsfólk á vettvangi kirkjunnar. Rétt er að taka fram að víða í Noregi er prestaskortur og ef þessi breyting gengi í gegn gæti hún slegið á hann í einhverjum mæli.

Þó eru vissar markalínur dregnar. Sókn getur neitað að framlengja starfstíma starfsfólks síns telji það nauðsyn á breytingum.

Mikinn mannauð er að finna í eldra og reyndara starfsfólki safnaða – og kirkjunnar. Heilsufar fólks er betra en áður sakir hollari lífshátta og framfara í læknavísindum. Líta megi á lög sem knýja fólk til starfsloka þótt það sé bráðheilsuhraust sem ótímabæra forsjárhyggju valdsins auk þess sem dýrmæt reynsla og þekking sé með því til fárra fiska metin. Svo er hitt sjónarhornið: unga fólkið kemst ekki að þar sem eldri kynslóðin vill ekki sleppa takinu. 

Íslenska þjóðkirkjan getur staðið í sömu sporum og sú norska áður en hún veit af. Mikil breyting verður þegar núverandi lög falla úr gildi (lesandinn athugi XII. bráðabirgðaákvæði þeirra) og ný lög taka við en hér má sjá frumvarp um þau (sjá 13. gr., í þessu samhengi) eins og kirkjuþing gekk frá því en getur vitaskuld breyst í meðförum Alþingis.

Kirkjuþing mun setja sínar eigin starfsreglur þegar ný þjóðkirkjulög verða orðin að lögum og með því móti getur hún stýrt mannauði sínum með öðrum hætti en áður og glatt hann kirkjunni til heilla og dáða. Þarna geta farið saman hagsmunir beggja aðila og slíkt getur verið farsælt.

Norska kirkjan gerir sér grein fyrir því að málið er vandmeðfarið. Það er nefnilega líka talið gott að hætta formlega störfum og snúa sér að öðru þegar árin færast yfir – og er reyndar viðteknari hugsun en sú sem kynnt er nú til sögu. Öll þekkja starfsmanninn sem getur ekki hætt að vinna. Visnar jafnvel niður í rót við starfslok. Aðrir blómstra og hafa kannski aldrei jafn mikið að gera eins og eftir starfslok á hinum almenna vinnumarkaði. Og kannski fengu þau meira að segja gullúr frá vinnuveitandanum í starfslok.

Norska kirkjan telur mjög æskilegt að horfa til hvers einstaklings fyrir sig þegar starfslok eru á dagskrá og meta stöðuna með honum – og opnum huga. Fólk er misjafnt og ekki sé rétt að draga alla í sama dilk þótt nýtt æviár birtist á tölvuskjánum á græna excelskjalinu.

En mikilvægast er að þekkja fólk og átta sig á því að það er ólíkt. Ekki hentar allt öllum heldur sumt. Og sumt hentar ekki öðrum þó sumir telji svo vera og það henti sérstaklega öðrum að áliti annarra og meðan enn aðrir sjá mörg ljón á þeim vegi sem hrellt gætu suma en ekki aðra. Þetta sumt og annað er nefnilega dálítið afstætt og teygjanlegt og ræðst af því hvort sumir vilji hafa vit fyrir öðrum á meðan aðrir telja sig vita snöggtum betur en sumir. Það er nú það. Tarna var skrítin þula, eins og skáldið sagði.

Spennandi verður að sjá hvað kemur út úr könnun norsku kirkjunnar. Niðurstaða verður ljós í næsta mánuði og mun þá kirkjuráðið taka málið aftur fyrir.

Vårt land – hsh


  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Skipulag

  • Starf

  • Erlend frétt

Aukakirkjuþing 2021 verður haldið í Katrínartúni 4 í þessum sal sem kallast Þingvellir - mynd: hsh

Aukakirkjuþing 2021

19. jún. 2021
...mánudaginn 21. júní
Útialtarið á Esjubergi, Kjalarnesi - mynd: hsh

Vígt á sunnudaginn

18. jún. 2021
...útialtarið á Esjubergi
Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir á leið til Dómkirkjunnar í morgun - mynd: hsh

Fólkið og menningararfurinn

17. jún. 2021
...prédikun biskups Íslands 17. júní 2021