„Þú verður að sjá hana!“

20. febrúar 2021

„Þú verður að sjá hana!“

Landslag í formi, sköpun, veggskálar fyrir vígt vatn?

Kirkjan.is rakst í gær á gamlan sveitaprest fyrir tilviljun fyrir utan verslun nokkra og hann sagði strax með brosi í augum: „Þú verður að sjá sýninguna, hún er hreint út sagt afbragð.“ Röddin var há og ögn spennt og svört sóttvarnagríman þandist taktbundið út við hvert orð.

Hvaða sýning er þetta? spurði kirkjan.is og fannst hinn ágæti prestur býsna seigur að þekkja hana í gegnum grímuna. Hann nefndi svo sem ekkert nafn og gat þess vegna aðeins hafa kannast við manninn með þessa einnota himinbláu andlitsgirðingu. En það var nóg. Það var samband.

„Á Kjarvalsstöðum,“ svaraði gamli sveitapresturinn, „hann er stórkostlegur listamaður og það er heilmikill boðskapur í verkunum.“ 

Hvaða boðskapur?

„Trú og umhverfi, eilífðin,“ sagði presturinn með áherslu. Hann kvaddi jafn snögglega og hann hafði heilsað. Um leið og hann vatt sér inn í bíl sinn kallaði hann hátt en þó mjúklega: „Áttu ekki annars menningarkort Reykjavíkur?“

Kirkjan.is tók áskoruninni og hélt niður á Kjarvalsstaði í föstudagsblíðviðrinu. Og dró dimmrautt menningarkortið upp úr plastkortatvisti veskisins. Starfskonan tók við því og rétti svo lítinn miða fram og sagði að hann ætti að límast á jakkaboðunginn. „Þá vitum við að þú ert búin að borga,“ sagði hún með festu í röddinni.

Listsýningin heitir ÓraVídd og listamaðurinn er Sigurður Árni Sigurðsson. Og sá er á heimsmælikvarða.

Salurinn á Kjarvalsstöðum er bjartur og tekur gestinum opnum örmum. Flest listaverkanna hanga á veggjum, önnur eru í glerpúltum, eða á gólfi.

Grænir litir eru ríkjandi í mörgum verka hans, flöturinn er rofinn af hringjum og hann leikur sér með birtu og skugga. Skuggaverkið sem gengur fram úr efnislega hluta verksins með dularfullu göngulagi skugganna er ekki síður kraftmikið en það sem elur þá af sér. Og skuggarnir eru síbreytilegir því að ljósið eltir þá á röndum og vill þá feiga. En hvort tveggja skuggi og ljós í sínu tregafulla sambandi reisa verkin upp til lífs af skjannahvítum veggjunum eða steingráu gólfinu.

Listamaðurinn leikur hvort tveggja á fjarvíddina, tvívíddina og þrívíddina. Hann er listamaður víddarinnar.

Hringirnir eru eilífðartákn. Fremri hlutar sumra verkanna eru hringir sem rofið hafa heilan flöt eins og risagatari og taka áhorfandann með inn í verkið. Þannig eiga líka alvöru listamenn að vera, taka áhorfandann eða hlustandann með í smá ferðalag. Inn í listina. Á vit æðri sviða. Upp til óravídda eins og nafn sýningarinnar ber með sér. Eða út á djúpið fræga þar sem andi skaparans sveif yfir áður en hann sagði: Verði ljós! 

Vel á minnst. Ljósið. Hinn eilífi bandamaður og hólmgöngumaður listamannsins. Hvernig ætlar þú að koma ljósinu áfram í listinni? Hvað er list án ljóss? Og skugga? Og þú getur sett orðið líf í stað listar. Listamaðurinn er ekki svo ólíkur lifandi guðfræðingum þegar öllu er á botninn hvolft.

Hvað sérðu? Eða hvað viltu sjá? Þorirðu að opna augun og taka áskorun nýrra vídda og ljósbrota? Kannski var þetta það sem gamli sveitapresturinn var að segja.

Annað tema hjá Sigurði Árna er garðurinn.

Frægastur garða er sennilega Eden þar sem mannkyn og skaparinn áttust við um stund. Hvort það er nú Eden sem listamaðurinn er að fást við eða ekki þá er það ekki verra nafn á garðinum en hvað annað. Áhorfandinn túlkar, hann kemur með sjálfan sig inn á sýningu eða tónleika og listaverkið flæðir í gegnum huga hans og líkama eins og síu. Stundum gerir hið osmósíska ástand vart við sig sem mörgum fannst snilldarfyrirbæri þegar þau lásu um það í líffræðinni á menntaskólaárunum forðum daga. Þá er jafnvægi milli listarinnar sem er og hinna sem býður handan við hornið. Síðan þegar slaknar á listnautninni handan við himnuna streymir meiri list inn uns mettun er jöfn beggja vegna. Í sál og líkama.

Öll list verður til í umhverfi mannsins og hvort tveggja mótar skynjun mannsins á sjálfan sig og umhverfið. 

Garðurinn er í ótal útgáfum hjá listamanninum. Eins og hjá áhorfendum.

Má taka myndir hér? spyr kirkjan.is. Og varðkonan lítur hægt upp úr prjónum sínum og svarar játandi. Bætir við að sýningin sé líka fyrir auga myndavélarinnar. Þetta er skáld, hugsar kirkjan.is og tekur upp símann. Gengur um og tekur myndir. Bæði á símann og í huganum.

Kirkjan.is mælir með þessari sýningu og hvetur fólk til að sjá hana fyrr en síðar. Stundum er það með listsýningarnar að þegar maður ætlar að fara og njóta þeirra er gripið í tómt. Það er betra að fylgjast með en að fálma út í tómið. 

Um að gera að drífa sig nú á Kjarvalsstaði. Strax í dag. 

Þess má geta í lokin að Sigurður Árni Sigurðsson gerði afar fallegan bænaljósastjaka fyrir Kópavogskirkju sem tekinn var í notkun á síðustu aðventu.  

En hver er listamaðurinn?
Listamaðurinn Sigurður Árni Sigurðsson (f. 1963), hefur haldið um fimmtíu einkasýningar og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum, bæði hér heima og erlendis. Hann var fulltrúi Íslands á Tvíæringnum í Feneyjum árið 1999, verk eftir hann var valið táknmynd Reykjavíkur,- Menningarborgar Evrópu árið 2000 og um þessar mundir er Listasafn Reykjavíkur að setja upp yfirlitssýningu á verkum Sigurðar Árna þar sem farið er yfir feril listamannsins frá upphafi til dagsins í dag. Sýningin er liður í þeirri viðleitni Listasafnsins að skrá, greina og miðla íslenskri listasögu í gengum yfirlitssýningar sem endurspegla lykilþræði íslenskrar samtímalistasögu. Hann hefur hlotið opinberar viðurkenningar víða, má þar nefna Frakkland, Þýskaland, Sviss og Japan í formi sýninga, vinnustofa, styrkja og bókaútgáfu. Hann er virkur þátttakandi í íslensku myndlistarlífi, bæði með sýningum, kennslu og umræðu. Hann hefur starfað sem gestakennari við Listaháskóla Íslands, Myndlistarskóla Reykjavíkur og við Listaháskólann í Montpellier - École Supérieure des Beaux Arts Montpellier í Frakklandi og haldið fyrirlestra um myndlist bæði á Íslandi og í Frakklandi. Hann hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir Samband íslenskra myndlistarmanna, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar og Myndlistarráð og hlotið starfslaun frá Launasjóði íslenskra myndlistarmanna og styrki úr Myndlistarsjóði. Auk þess að eiga verk á öllum helstu listasöfnum landsins, opinberum söfnum og einkasöfnum víða erlendis hafa stærri útilistaverk verið sett upp eftir hann á opinberum stöðum, má þar nefna Sólalda við Sultartangavirkjun og árið 2011 var útilistaverkið L‘éloge de la nature, sett upp í bænum Loupian í Suður-Frakklandi.

hsh

  • Menning

  • Samfélag

  • Umhverfismál

  • Frétt

Prestar í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra ásamt fyrirlesurum

Vorfundur presta í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra

26. apr. 2024
...síðasti prestafundur sr. Helgu Soffíu sem prófastur
Forsíðumynd-Sumardagurinn fyrst -skrúðganga á kirkjuplani.jpg - mynd

Sumardagurinn fyrsti í Bústaðakirkju

26. apr. 2024
...fjölsótt dagskrá í kirkjunni
Digraneskirkja

Laust starf

26. apr. 2024
...prests við Digranes- og Hjallaprestakall