Konur prjóna

3. maí 2021

Konur prjóna

Prjónað af krafti í Árbæjarkirkju og víðar

Í mörgum söfnuðum eru starfandi kvenfélög enda þótt þeim hafi fækkað víða og önnur félög risið upp á grunni þeirra.

Við Árbæjarkirkju er kvenfélag. Það hefur verið við lýði í sókninni allt frá því að hún var stofnuð 1968. Markmið félagsins er fyrst og fremst velferð kirkju og safnaðarstarfs.

Þetta er kraftmikið kvenfélag.

Kvenfélag Árbæjarsóknar  hefur ekki setið auðum höndum öll þessi ár – þvert á móti. Og þær eru miklar prjónakonur og hafa prjónað til stuðnings mörgum góðum málefnum og virkjað aðra til verka.

Upp á síðkastið hafa kvenfélagskonurnar prjónað fyrir heimilislaut fólk og þær hafa líka kallað til sín allar konur sem vilja leggja málinu lið og það er ekki skilyrði að vera í félaginu.

Kirkjan.is sló á þráðinn til formanns Kvenfélags Árbæjarsóknar, Maríu Kristinsdóttur, en hún hefur staðið þar í stafni um fimm ára skeið, og spurði hana nánar út í prjónaskapinn.

„Þetta hefur staðið yfir í nokkurn tíma hjá okkur – eða frá 2019,“ segir María, „við vorum með Opið hús og prjónakvöld, konur gátu fengið garn eða komið með það sjálfar. Þetta var hugsað svo að við gætum náð til breiðs hóps í hverfinu en kófið sló það dálítið út höndunum á okkur.“ Hún segir að fólk hafi prjónað heima og látið ekki deigan síga.

Og hvað hafið þið verið að prjóna?

„Húfur, trefla, vettlinga og sokka,“ segir María, „við auglýstum líka eftir garni og ókláruðum prjónaverkefnum sem fólk var hætt við.“ Þær tóku við þessu fagnandi og dunduðu við að klára flikurnar og koma þeim í notkun.

Prjónaskapurinn var unninn af góðum hópi úr kvenfélaginu og íbúum í Árbæ, konum sem voru í félagsstarfi kirkjunnar. „Sú elsta er 93ja ára, og hefur prjónað sokka af miklum krafti.“ Síðan fréttu margar prjónakonur í Árbæjarhverfi af verkefninu og vildu styrkja það og einnig komu að verkinu prjónaklúbbar í bókasafninu í Árbæ.

Og hverjir fá að njóta prjónaskapsins?

„Við höfum farið með prjónið í gistiskýlið við Lindargötuna, gistiskýli úti á Granda sem er fyrir unga karlmenn, Konukot og nýlega fórum við í Skjólið sem er í Grensáskirkju. Einnig höfum við farið til Frú Ragnheiðar.“

María segir að fólk hafi líka gefið flíkur: „Ég tók einn og einn rúnt um bæinn og sótti þær og svo fórum við í gegnum þær með það í huga hverjum þær hentuðu.“ Síðan fórum við með flíkurnar til heimilislausa fólksins.

Fólkið tekur við þessum prjónaflíkum af miklu þakklæti.

Velvilji fólks er mikill og ljóst er að kvenfélaginu í Árbæ hefur tekist að vekja umhyggjusama athygli á þessum samfélagshópi þar sem heimilislaust fólk er. Enn og aftur sýnir það sig og sannar hve kvenfélög geta verið öflug og unnið að verkefnum sem eru þjóðþrifamál - og kærleiksþjónusta.

hsh


Í Árbæjarkirkju


  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Sjálfboðaliðar

  • Frétt

Ólafur Egilsson

Vinir Hjálparstarfsins fræðast um starfið

24. apr. 2024
...stilla saman strengi
Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta
Bænagangan 3.jpg - mynd

Bænagangan 2024

23. apr. 2024
...á sumardaginn fyrsta