„Eilíft ljós“ á Seltjarnarnesi

14. maí 2021

„Eilíft ljós“ á Seltjarnarnesi

Í Seltjarnarneskirkju - mynd: hsh

Söngurinn fer senn að óma eins og söngur himinfuglanna.

Tónlistarlíf er víða blómlegt við kirkjur landsins enda kirkja og tónlist sem systur væru.

Nú er sem ísa leysi smám saman og kirkjulegt starf vítt og breitt um landið er að lifna við eins og gróður jarðar. Bjartsýnin er í fyrirrúmi og bólusetning gengur vel.

Kammerkór Seltjarnarneskirkju var stofnaður árið 1994 af Vieru Manasek þáverandi organista kirkjunnar. Hún kom frá Tékklandi.

Nú stýrir Friðrik Vignir Stefánsson, organisti kirkjunnar, kórnum.

Langþráðir tónleikar kórsins verða haldnir á morgun, laugardaginn 15. maí, kl. 17.00-18.00 en nú mega allt að 150 manns koma saman til kirkjulegra viðburða svo sem fremi sem allra gildandi sóttvarnareglna sé gætt. Yfirskrift tónleikanna er Eilíft ljós.

Enda þótt kórinn heiti Kammerkór Seltjarnarneskirkju þá eru fleiri í honum en Seltirningar. Félagar koma af öllu höfuðborgarsvæðinu og einn kemur meira að segja frá Keflavík. Svo er með marga kóra, þeir fara yfir öll sóknarmörk og velur hver sinn kór eftir eigin áhuga og smekk.

„Kórfólkið hefur meira og minna verið í löngu söngnámi og sumir í tónlistarháskólum erlendis,“ segir Friðrik Vignir, „og einsöngvarar koma allir úr röðum kórsins.“

Organistinn
Friðrik Vignir Stefánsson er fæddur og uppalinn á Akranesi. Hann byrjaði sem organisti 1984 við Innra-Hólms kirkju fyrir utan Akraness. Síðan var hann organisti Hjallasóknar í Kópavogi 1987-1988. Hélt svo til Grundarfjarðar og var þar organisti 1988-2006. Organisti við Grindavíkurkirkju 2006-2007. Friðrik Vignir hefur verið organisti við Seltjarnarneskirkju frá 1. ágúst 2007. „ Frábært starfsumhverfi og samstarfsfólk. Gæti ekki verið betra,“ segir hann.

Kirkjan.is spyr Friðrik Vigni út í valið á dagskránni og hann segir að í sambandi við það sé engin regla.

„Núna er prógrammið allt án hljóðfæris (a capella) nema eitt. Árið 2019 fluttum við Magnificat eftir J. S. Bach tvisvar sinnum í Seltjarnarneskirkju í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit áhugamanna sem æfir í kirkjunni,“ segir Friðrik Vignir og að samstarfið við hljómsveitina hafi verið einstaklega gott og að kórinn hafi stundum frumflutt stór kórverk með hljómsveitinni. „En stundum syngur kórinn auðvitað bara einn líka,“ bætir hann við.

Kammerkór Seltjarnarneskirkju hélt tónleika í Skálholtskirkju fyrir nokkrum árum og í Grundarfjarðarkirkju haustið 2019. Kórónuveirufaraldurinn hefur brugðið eins og sakir standa fæti fyrir allar tónleikaferðir. En þær eru á dagskrá.

Hvað er um orgel kirkjunnar að segja?

„Orgelið er íslensk smíð, 19 radda, og það var meistari Björgvin Tómasson, sem smíðaði það,“ segir Friðrik Vignir. „Frábært orgel í alla staði og fallegar raddir – mikil listasmíð.“

Semsagt. Glæsilegir og spennandi tónleikar Kammerkórs Seltjarnarneskirkju á laugardaginn kl. 17.00 til 18.00. Og það er ókeypis inn.

Tónlistin
Á efnisskrá eru m.a. kórverk eftir m.a. O.Gjelo, G.Sviridov, A.Part, B.Joel, S.Rachmaninov, Báru Grímsdóttur, Hauk Tómasson og Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur.

hsh

  • List og kirkja

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Trúin

  • Frétt

Aukakirkjuþing 2021 verður haldið í Katrínartúni 4 í þessum sal sem kallast Þingvellir - mynd: hsh

Aukakirkjuþing 2021

19. jún. 2021
...mánudaginn 21. júní
Útialtarið á Esjubergi, Kjalarnesi - mynd: hsh

Vígt á sunnudaginn

18. jún. 2021
...útialtarið á Esjubergi
Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir á leið til Dómkirkjunnar í morgun - mynd: hsh

Fólkið og menningararfurinn

17. jún. 2021
...prédikun biskups Íslands 17. júní 2021