Kópavogskirkja fær gjafir

31. júlí 2021

Kópavogskirkja fær gjafir

Kópavogskirkja - málverk eftir Sigfús Halldórsson (1920-1996) í safnaðarheimilinu Borgum - mynd: hsh

Þegar Kópavogssókn varð til 1952 fékk söfnuðurinn aðstöðu fyrir allt helgihald í Kópavogsskóla og stóð svo þar til glæsileg kirkja safnaðarins var vígð tíu árum síðar.

Sögufélag Kópavogs hefur haldið ýmsu til haga eins og sögufélagi sæmir.

Á morgun, sunnudaginn 1. ágúst, að lokinni helgistund í safnaðarheimilinu Borgum, mun Þórður Guðmundsson, formaður Sögufélags Kópavogs, afhenda Kópavogskirkju alls tíu myndir sem tengjast sögu kirkjunnar. Helgistundin hefst klukkan 11.00 og þar prédikar og þjónar fyrir altari sóknarpresturinn sr. Sigurður Arnarson. Um tónlistarflutning sér Lára Bryndís Eggertsdóttir, organisti. Ef veður leyfir verður stundin haldin utan dyra.

Sögufélag Kópavogs mun svo leiða göngu um nágrenni Kópavogskirkju og þar kemur að sjálfsögðu saga kirkju og fólks mjög svo við sögu. Þegar göngu lýkur er öllum viðstöddum boðið í kaffi og kleinu í safnaðarheimilinu Borgum.

Myndirnar
Myndirnar tíu eru allt frá því áður en kirkjan var reist á Borgarholtinu og fram til dagsins í dag. Ein sýnir altarið sem notað var við helgihald í Kópavogsskóla áður en kirkjan reis, þar má og sjá altaristöflu Wilhelms Beckmanns (1909-1965). Við þetta gamla altari verður þjónað á morgun í safnaðarheimilinu Borgum vegna þess að vinna stendur yfir á vesturhlið kirkjunnar og verður henni lokið í haust. Þá eru myndir frá byggingartíma kirkjunnar á Borgarholtinu. Einnig mynd af fyrstu vindrafstöð á Íslandi sem stóð þar á holtinu og var ætlað að veita rafmagni til hælis í Kópavogstúni sem Kvenfélagið Hringurinn rak. Stöðin var sett upp 1926 af bræðrunum Eiríki og Jóni Ormssonum. Mynd af innrammaðri ræðu sem sónarpresturinn sr. Gunnar Árnason (1901-1985), flutti í nóvember 1954 við afhjúpun altaristöflu Beckmanns. Þetta eru aðeins dæmi um myndir en þær munu hanga uppi í safnaðarheimilinu og er fólk hvatt til að skoða þær þá það á leið þar um.Kópavogskirkja um 1960. Sr. Gunnar Árnason (1901-1985), fyrsti sóknarprestur Kópavogssóknar. Mynd: Herbert Guðmundsson