Kirkja og menning: Biblía sellóleikaranna

7. september 2021

Kirkja og menning: Biblía sellóleikaranna

Hvalsneskirkja á Rosmhvalanesi byggð 1886-1887 - mynd: hsh

Það var athyglisvert framtak þegar boðað var til tónleikaraðar í Hvalsneskirkju á Reykjanesi. Ekki hafði slíkt verið gert áður og fólk var að vonum ánægt og spennt með tiltækið. Listrænn stjórnandi er Magnea Tómasdóttir.

„Við héldum fyrstu tónleikana í júlí og þá komu rúmlega fimmtíu manns,“ segir Magnea. „Tónleikar Gunnars Kvaran verða í kvöld, 7. september, kl. 19.30 en þeim hafði verið frestað.“ Gunnar leikur sellósvítur eftir Jóhann Sebastían Bach (1685-1750) nr. 1 í G-dúr og nr. 2 í d-moll.

Kirkjan.is sló á þráðinn til Gunnars Kvaran, sellóleikara og prófessors emeritus, og spurði hann út í svíturnar og hann svaraði ljúfmannlega:

Sígilt verk fimmta guðspjallamannsins
„Tónlistarsögulega eru þetta alveg stórkostlega merkileg verk. Fyrir tíma Bachs voru engin sambærileg verk skrifuð fyrir einleik á selló. Þessi verk hafa verið nefnd Biblía sellóleikaranna. Eru verk sem allir sellóleikarar koma aftur og aftur að í lífi sínu og kljást við alla ævi. Þessar svítur samdi Bach í Köthen í Þýskalandi frá 1717-1723 sem er hamingjuríkasta æviskeið hans. Það sem er ótrúlegt við svíturnar er hve ólíkar þær eru að innri gerð þó að ytra form þeirra sé oft svipað, en hið innra sérstakt og persónulegt út af fyrir sig. Í raun eru þetta sex ólíkir heimar sem hann teflir saman. Það sem manni finnst svo ótrúlegt við Bach er hve hann getur notað sams konar dansform og brugðið sér í allra kvikinda líki sem hann gerir greinilega í þessum tveimur sem ég spila. Svíturnar eru dæmigerðar, mjög ólíkar að innri gerð þó kaflaheitin sé þau hin sömu, og eru stórkostlegt dæmi um ótrúlega snilld hans.“ Gunnar segir hvora svítu um sig taka um 23 til 24 mínútur í flutningi.

Þess má geta að Gunnar Kvaran mun líka kynna bók eftir sjálfan sig sem er að koma út þessa dagana. Hún heitir Tjáning. „Þetta eru hugleiðingar, ljóð og sögur, meðal annars um svíturnar,“ segir Gunnar glaður í bragði. Kirkjan.is óskar honum góðs gengis á tónleikunum og til hamingju með bókina.

Síðan verða aðrir tónleikar 14. september í Hvalsneskirkju. Sönglög með nýjum blæ og þar er Kjartan Guðnason á slagverkinu og Kjartan Valdemarsson fer fimum fingrum um píanóið og leikur einnig á harmonikku. Það er listrænn stjórnandi sumartónanna, Magnea Tómasdóttir, sem stígur á svið, og syngur. Lögin eru eftir Atla Heimi Sveinsson og Jón Ásgeirsson, við texta Jónasar Hallgrímssonar og Halldórs Laxness.

Magnea segir að kórónuveiran hafi sett dálítið strik í reikning sumartónleikanna eins og svo margt annað - en þeir séu komnir til að vera.

Hún segir í bígerð sé að efla tónleikahaldið í Hvalsnesi á næstu árum og bjóða upp á ýmis fræðsluerindi.

„Hljómburðurinn er mjög góður í kirkjunni eftir að tekin voru teppi af gólfum fyrir nokkrum árum,“ segir Magnea.

Kirkjan.is spyr hvað það taki langan tíma að aka úr borginni og í Hvalsnes og segir Magnea það vera tæpan klukkutíma. Þá er bara að skella sér suðureftir!

hshStytta af Bach fyrir utan Tómasarkirkjuna í Leipzig en þar starfaði hann sem organisti frá 1723 til dauðadags 1750  • List og kirkja

  • Menning

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Viðburður

  • Frétt

Frá biskupsvígslu sr. Munks í Hans Egede-kirkju í Nuuk 10. október s.l.

Nýr Grænlandsbiskup vígður

15. okt. 2021
...vígsla tafðist um eitt ár
Björn Steinar Sólbergsson, organisti Hallgrímskirkju - mynd: Hrefna Harðardóttir

Hausttónar í Hallgrímskirkju

14. okt. 2021
...kirkjan er flaggskip tónlistar
Fallegar og stöðugar kertahlífar til að setja útikerti í - mynd: hsh

Góð markmið

13. okt. 2021
...handlagið fólk