Hin hliðin: Við rennibekkinn

28. september 2021

Hin hliðin: Við rennibekkinn

Sr. Viðar Stefánsson við rennibekkinn - mynd: Hann sjálfur - sjálfa

Hann er ungur prestur og hefur búið í fimm ár í Vestmannaeyjum ásamt konu sinni. Tíminn hefur liðið hratt, finnst honum. En spyr sig oft:  Eru þetta ekki bara tvö ár sem eru liðin?

„Já, tíminn hefur liðið rosalega hratt enda hef ég notið hans mjög vel,“ segir hann. „Samfélagið er gott, samstarfsfólkið gefandi og án þess að ég hreyki mér um of tel ég að hér sé almenn ánægja með mín störf“.

Þetta er sr. Viðar Stefánsson, prestur. Honum þykir alltaf skemmtilegt að skíra börn og segist sjálfur sakna altarisgöngunnar þegar þrengt er að henni á kórónuveirutíð því að hún hafi alltaf mætt hans trúarlegu þörf.

Nútímamenn vita meira um náunga sinn en fólk fyrr á tímum. Það er auðskýranlegt. Feisbók. Er þjóðin ekki þar? er stundum sagt. Og ef ekki þar, þá hvar?

Kirkjan.is tók eftir því að ungi presturinn er hagleiksmaður. Stendur við rennibekk eins og hann standi við altarið og gripirnir verða til eins og úr skaparans höndum. Þó er hann maður. Fallegir gripir og eigulegir.

Eru hagleiksmenn í ætt hans, spyr kirkjan.is.

„Pabbi hefur alltaf verið mjög handlaginn og hann hefur iðulega fundið lausnir á vandamálum sem ég sjálfur sá ekki fyrir,“ segir sr. Viðar. „Mamma hefur ávallt verið að vinna handverk og hin síðari ár hefur hún unnið t.d. með skinn og roð.“

En rennibekkurinn? Sr. Viðar kom sér honum upp í febrúar á þessu ári.

Það var aftur á móti samfélagsaugað, Feisbók, kom honum upp á lagið með að renna við.

Hvernig má það vera? Er auga herra Zuckerbergs svona öflugt?

Sr. Viðar fór eins og svo margir að ráðum sóttvarnayfirvalda um að ferðast innan lands. Fór hringinn. Áður en hann og kona hans, Sóley Linda Egilsdóttir, lögðu í hringferðalagið þá gaukaði Feisbók að honum myndbandi af manni sem var að renna úr tré. Eflaust hefur sr. Viðar gúgglað það einhvern tíma, meðvitað eða ómeðvitað, og það fært til bókar á æðri nördastöðum hvað þessi ungi maður hugsaði þá stundina. Þetta er náttúrlega samsæriskenning. Hvað um það. Ungi presturinn horfði á myndbandið. Og beit á agnið. Herra Feisbók renndi að honum enn fleiri myndböndum þar sem var verið að renna við. Og hann horfði. Renndi ekki í grun hvað kæmi út úr því – enda of seint að renna undan áskoruninni.

En hann fór hringinn. Gleymum því ekki. Á Seyðisfirði, milli hárra renndra fjalla, skráir sr. Viðar sig á námskeið. Hann ætlar að læra að renna. Fór í Handverkshúsið í Kópavogi og þar var snjall kennari, Andri Snær Þorvaldsson. Síðan er það reynslan sem kennir eins og fyrr eins og enginn sé morgundagurinn. Já, og svo auðvitað nútíminn með sína stóru kennslustofu þar sem Youtube er með öllum sínum kennslumyndaböndum. Þau eru óþrjótandi.

„Undanfarið hef ég mikið rennt penna og skálar,“ segir sr. Viðar, „Grípið í trérennslið í frítíma mínum og á kvöldin og finnst mér það ægilega gaman. Fyrir mig er trérennslið sennilega besta núvitundaræfingin fyrir utan bænina.“

Augljóst er að sr. Viðar hefur rennt sér á fullum krafti í verkið.

„Það skemmtilegasta við rennslið er hvernig viðurinn getur komið manni á óvart með sínum vígindum og litum,“ segir sr. Viðar, „Það sést svo vel að unnið er með lifandi efni sem skiptir máli að meðhöndla vel og vandlega.“

Vígindum. Kirkjan.is lærir nýtt orð:

Það var þetta með viðarilminn

En allur viður ilmar – það eru að minnsta kosti minningar úr smíðatímum á síðustu öld ásamt sterkri neftóbakslykt af smíðakennaranum sem hét Benedikt. Hefur ilmurinn breyst?

„Ég hef alltaf grímu fyrir vitunum þegar ég er að renna því varla er heilsusamlegt að anda að sér miklu sagi,“ segir ungi presturinn og finnur því ekki mikla lykt meðan hann er að vinna. „Þó myndi ég segja að lyktin af hlyn sé sennilega eðlilegasta timburlyktin,“ bætir hann við. „Já, og versta lyktin er af purpuravið en hún er mjög lík skemmdri mjólk.“ Þegar farið er nánar út í lyktarfræðina út frá viðarfræðinni segir sr. Viðar að í viði sem hefur mikla olíu í sér, til dæmis í hinu biblíulega ólífutré sé lyktin lík súrum gúrkum. „Það getur verið persónubundið hvort sú lykt er góð eða ekki,“ segir hann tvíráður á svip.

Rennibekkurinn er úti í bílskúr hjá sr. Viðari ásamt öðrum tækjum og tólum sem hann þarf til að sinna þessu hugðarefni sínu. Bílskúrinn er þéttur svo að saginu er haldið í skefjum, kemst ekki inn í hús. „Þetta var allt saman svolítið maus í upphafi,“ segir sr. Viðar.

Hentugar tækifærisgjafir

Þeir munir sem renna úr höndum sr. Viðars við rennibekkinn renna stundum úr greipum hans til annarra. Sem gjafir. Pennarnir eru sérstaklega heppilegir til tækifærisgjafa. Eins skálar. Margir hafa viljað kaupa gripi hans enda þeir fallegir og listilega vel unnir. En sumt selur hann auðvitað ekki eins og fyrsta pennann sem hann renndi og skál nokkra sem er í uppáhaldi hjá honum.

Og til samræmis við okkar Feisbókarnútíma þá segir sr. Viðar: „Ef einhver hefur áhuga á því sem ég renni er vel hægt að hafa samband við mig í gegnum Facebook - eða símleiðis.“

Sr. Viðar er hagleiksmaður og listasmiður. Verkin eru vitnisburður um það. Þegar hann er spurður hvort aðrir muni njóta kennslu af hans hálfu þá svarar hann af hógværð: „Ég hef verið svo stutt í þessu að ég teldi það hyggilegra að læra meira til að kenna öðrum.“ Hann segir alla velkomna heim í bílskúrinn til að fræðast um þessa tómstund og listiðn. „Ég fer ég í hverri viku á klukkustundar fyrirlestur í beinni á Youtube þar sem möguleiki er á að senda spurningar til að læra,“ segir hann.

Þetta er nútíminn – en samt líka gamli tíminn. Verið að smíða og handleika við – efni jafngamalt manninum. Svo er það hin rafræna veröld sem gerir allt mögulegt og iðnskólinn eða háskólinn er kominn inn í bílskúr til þín eða út á stétt.

Eyjamenn eiga þarna vænan mann sem renndi þar í hlað. Góðan prest og hagleiksmann sem unir hag sínum vel því hann hefur nóg fyrir stafni í þjónustu við fólkið og sinn eigin hagleiksanda.

Er nokkuð betra?

hsh


Presturinn