Nýtt barnaefni frumsýnt

30. september 2021

Nýtt barnaefni frumsýnt

Margrét Sverrisdóttir og sr. Oddur Bjarni Þorkelsson - mynd: N4

Það eru spennandi tímamót þegar nýtt íslenskt barnaefni er frumsýnt í sjónvarpi. Íslenskir höfundar og íslenskir leikendur – úr íslenskum veruleika.

Nokkuð langt er um liðið frá því að íslenskt kvikmyndað barnaefni var kynnt til sögunnar eða árið 2010, Daginn í dag, með þeim Klemma og Hafdísi. Skálholtsútgáfan stóð að útgáfu þess. Það efni náði gríðarlegum vinsældum og miklu áhorfi. Eins og annað efni þá eldist barnaefni misvel og líðandi stund kallar oft eftir nýju.

Við því kalli hefur nú verið brugðist með tólf þáttum, 15-20 mínútna löngum, sem bera nafnið Himinlifandi. Þeir verða sýndir á sjónvarpsstöðinni N4 á sunnudögum kl. 11.00 og kl. 14.00. Svo er hægt að nálgast þættina á heimasíðu N4. Hver horfir á þeim tíma sem hentar. (N4Safnið í Sjónvarpi Símans,  og á Youtube- síðu N4.)

Efnið er gert að tilhlutan fræðsludeildar Biskupsstofu og til þess voru fengin þau sr. Oddur Bjarni Þorkelsson og kona hans Margrét Sverrisdóttir. Hann er prestur í Dalvíkurprestakalli og hefur komið að starfi í leikhúsi og á söngvasviðinu. Margrét er leikkona, leikstjóri og leikskáld. Þau tvö voru því einstaklega vel til þess fallin að taka þetta verk að sér.

„Þessi heimur þáttanna er allur sprottinn úr höfði Margrétar,“ segir sr. Oddur Bjarni, „í vetur smíðaði hún þessar persónur og umhverfi þeirra, kófsveitt heima hjá okkur í Hörgársveitinni.“ Margrét skrifaði sömuleiðis öll handritin og segist sr. Oddur Bjarni hafa komið að samningu þriggja þeirra.

Sr. Oddur Bjarni segir að stefnan hafi verið sú að þetta efni ætti ekki að koma í stað sunnudagaskólans og ætti ekki að vera endursögn á biblíusögum. Markmiðið væri að boðskapurinn góði ætti að kristallast í þeim spurningum og verkefnum sem mæta okkur manneskjunum og þá ekki síst börnunum okkar, á hverjum degi. Horft var til þess að nálgunin væri opnari og samofnari veraldlegum nótum í ríkari mæli en áður.

Leikur er í höndum þeirra Margrétar og sr. Odds Bjarna og sömuleiðis leikstýrðu þau þáttunum ásamt með Stefáni Friðrik Friðrikssyni sem einnig stýrði tökum og framleiðslu þáttanna. Tvær stúlkur, Ásdís Auður Gunnarsdóttir og Sunneva Oddsdóttir koma að sögunni og sú fyrrnefnda er rödd Ráðavélarinnar mikilvægu og sú síðarnefnda gefur Bréfunum rödd.

Það verður spennandi að sjá hverjar verða viðtökur áhorfenda við þáttunum. Þeir eru besti mælirinn á það hvernig til tekst. Svo verður líka gaman að sjá hvernig þættirnir eldast. Ná þeir sama aldri og Klemma og Hafdís?

En eitt er víst að spennandi verður að fylgjast með þessu nýja efni.

hsh


Stikla úr Himinlifandi 


Skjáskot úr lok þáttar


  • Barnastarf

  • Fræðsla

  • Frétt

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Viðburður

  • Æskulýðsmál

Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta
Bænagangan 3.jpg - mynd

Bænagangan 2024

23. apr. 2024
...á sumardaginn fyrsta