Syngjandi landsbyggð

7. október 2021

Syngjandi landsbyggð

Kór Akureyarkirkju - mynd: Margrét BóasdóttirÞað er margt sem er á könnu söngmálastjóra þjóðkirkjunnar, Margrétar Bóasdóttur. Eitt verkefnið er skipulagning og stjórn á upptökum á guðsþjónustum úti á landsbyggðinni. Þetta er umfangsmikið starf því að upptökur fara fram á einum stað en kórar og prestar koma víða að.

Í þetta sinn voru guðsþjónustur teknar upp á Akureyri dagana 1. -2. október. Þaulæfðir hljóðmenn á Akureyri héldu utan um þessa upptökur fyrir Ríkisútvarpið. Alls voru sjö messur teknar upp í rykk eins og um maraþon væri að ræða. Þær verða svo sendar út á Rás 1 að vanda.

Útvarpsmessur út kirkjuárið eru sem sé tilbúnar til flutnings en Ríkisútvarpið hefur haft þá stefnu undanfarið að taka sem flestar útvarpsmessur upp fyrirfram.

Þegar svona er staðið að verki gefst að sögn Margrétar upplagt tækifæri til þess að raddir kirkjunnar á landsbyggðinni heyrist.

Það eru söfnuðir á Eyjafjarðarsvæðinu sem áttu leikinn að þessu sinni. Þessum guðsþjónustum verður svo útvarpað sunnudag eftir sunnudag fram til aðventu með einni undantekningu.

„Hlustendur verða ekki fyrir vonbrigðum með framlag Eyfirðinga og Þingeyinga við Eyjafjörð,“ segir Margrét stolt af sínu fólki, „þar var valinn maður í hverju rúmi; prestar, organistar og fjölmennir kirkjukórar ásamt einsöngvurum og lesurum.“

Margrét segir að þátttakendur hafi verið sérlega vel undirbúnir.

„Það var einstaklega ánægjulegt að kirkjukórarnir komu svo fjölmennir og fágaðir til leiks, eftir hinn langa, sönglausa tíma kórónaveirunnar,“ segir Margrét.

Þetta er sjöunda árið sem slíkar upptökur fara fram á landsbyggðinni. Næstu upptökur fyrir sumarmessurnar 2022 eru fyrirhugaðar í Austurlandsprófastdæmi.

Nú þegar er búið að útvarpa einni guðsþjónustu og um hana sá kirkjufólk í Glerárkirkju – það var s.l sunnudag og er hægt að hlusta á hana hér. Sr. Sindri Geir Óskarsson prédikaði og þjónaði fyrir altari. Valmar Väljaots lék á orgel og Kór Glerárkirkju söng. Margrét Árnadóttir söng einsöng. Lesarar: Aníta Jónsdóttir og Hildur Hauksdóttir.

En svona lítur guðsþjónustulistinn út fram að aðventu

10. október – Ólafsfjarðarkirkja Sr. Guðrún Eggerts Þórudóttir, Ave Kara Sillaots organisti, Kór Ólafsfjarðarkirkju, einsöngvari: Jón Þorsteinsson. Lesarar: Anna María Guðlaugsdóttir og Dagbjört Gísladóttir
17. október – Dalvíkurkirkja Dagur heilbrigðisþjónustunnar Sr. Magnús G. Gunnarsson, Páll Barna Szabo, organisti, Kór Dalvíkurkirkju
24. október er minnst dánardags Hallgríms Péturssonar með messu í Hallgrímskirkju í Reykjavík
31. október. Siðbótardagurinn - Möðruvallaklausturskirkja Sr. Oddur Bjarni Þorkelsson, Sigrún Magna Þórsteinsdóttir, organisti, Kór Möðruvallaklausturskirkju
7. nóvember – Allra heilagra messa – Akureyrarkirkja Sr. Svavar Alfreð Jónsson, Eyþór Ingi Jónsson, organisti, Þorvaldur örn Davíðsson, kórstjóri og forsöngvari, Kór Akureyrarkirkju, lesari: Birgir Styrmisson
14. nóvember – Kristniboðsdagurinn – Laufásprestakall Sr. Gunnar Einar Steingrímsson, predikari: Katrín Ásgrímsdóttir, stjórnarkona í Kristniboðssambandi Íslands, Petra Björk Pálsdóttir, organisti, Kór Grenivíkurkirkju og Svalbarðskirkju
21. nóvember. Síðasti sunnudagur kirkjuársins – Grundarkirkja Sr. Jóhanna Gísladóttir, Þorvaldur Örn Davíðsson, organisti, Kór Laugalandsprestakalls, Lesarar: Hjörtur Haraldsson og Auður Thorberg

Alls komu 185 þátttakendur að þessum trúar- og menningarviðburði. Vel var haldið utan um þennan góða hóp, Héraðsjóður bauð upp á veitingar, kirkjuvörðurinn lét sér umhugað um alla og Akureyrarkirkja léði kirkju og safnaðarheimilið. Það gat ekki verið betra að sögn Margrétar.

mb/hsh


Kór Akureyrarkirkju