Hin hliðin: Prestur skrifar krimma

10. október 2021

Hin hliðin: Prestur skrifar krimma

Þetta er sjöunda bók sr. Fritz Más - mynd: hsh

Þetta er sjöunda bókin hans. Hann slær ekki slöku við presturinn í Keflavík.

„Ég var líklega eitthvað í kringum átta mánuði að skrifa hana,“ segir hann þegar kirkjan.is spyr út í málið. „Það er svona minn venjulegi skriftími - auðvitað samhliða öðrum verkum.“

Sr. Fritz M. Jörgensson, prestur og rithöfundur, segir að yfirleitt sé flétta bókarinnar fædd þegar hugmyndin komi til hans. „Grunnurinn er allavega klár þegar ég byrja að skrifa en síðan gerist auðvitað alltaf eitthvað óvænt á leiðinni þannig að ég veit svo sem aldrei hvar þetta endar,“ segir hann og er greinilegt að skrifin geta verið jafn spennandi og verkið sjálft.

Margt breytist óænt
En það er ekki alltaf auðvelt að skrifa. Sumir rithöfundar fá ritstíflu. Aðrir skrifa gjörsamlega mislukkuð verk sem þeir telja vera meistarastykki og kannski verða þau það eftir hundrað ár. Svo lenda rithöfundar oft í alls konar ógöngum – gleyma jafnvel persónum, orðum þeirra og gjörðum. Kirkjan.is spyr sr. Fritz um mestu ógöngurnar sem hann hefur lent í við bókarskrifin. „Það var líklega þegar ég skrifaði Síberíu sem kom út 2010,“ segir hann, „hún átti ekki að vera krimmi, en svo varð hún að krimma á leiðinni og breyttist heilmikið, þannig að það var dálítið maus satt að segja en gekk ágætlega upp að lokum.“

Nýja bókin hans heitir Hjálp. Kunnar persónur úr bókum hans, teymið Addi, aðdáandi Fylkis og búinn að missa nett fjörutíu kíló, Hallur hressari en áður eftir að hafa verið í hjónabandsráðgjöf og partur af því var að „fara alltaf á deit einu sinni í viku“ með henni (bls. 59), og Jónas, nú með hugann við pallasmíð og pottamóttöku, og þá Margrét sem komin var með nýjan kærasta og ástfangin, þau glíma við flókið sakamál. Lík finnst við safnaðarheimili Dómkirkjunnar í Reykjavík – fórnarlambið kona um tvítugt. Það er dramatísk og djörf byrjun hjá prestinum.

Sem fyrr er brotamaðurinn alltaf við hliðina á lesandanum og sjónarhorn hans er skáletrað í bókinni. Það er snjallt bragð og vekur eflaust líka kaldan hroll hjá sumum lesendum. Morðinginn er viss um að lögreglan nái honum ekki „...hann var einfaldlega of klár fyrir lögguna.“ (Bls. 31).

Þær eru lifandi lýsingar á starfi lögreglunnar og úr einkalífi þeirra. Slíkar lýsingar gefa sögunni góðan blæ og draga fram allt hið mannlega og smásmugulega. Vel skrifaðar og snaggaralegar.

Inn í söguna er fléttað lítilli ástarsögu af Elínu og Ása. „Hann hafði langað í mann sem hún gæti deilt öllu með.“ (Bls. 37). Sú saga breytist eins og margar ástarsögur. 

Sögunni vindur hratt áfram og á kunnuglegum nótum. Lögreglumenn rannsaka íbúð hinnar látna og sumt kemur þar á óvart. Fléttusagan inni í sögunni tekur óvænta stefnu. Rannsóknarteymið fær viðbót sem það vill ekki sjá, einhver skussi er sendur til liðs við það en aðkoma hans breytir þó málum. Og Hallur lendir í bílslysi. Ótal margt annað gerist en er fléttað saman með eðlilegum hætti í bók af þessu tagi.

Presturinn séra Sigrún er á sínum stað til að tilkynna foreldrum fórnarlambsins hörmulegar fréttir, móðirin var heima en ekki maðurinn: „Þegar prestur og einhver maður sem alveg eins gat verið lögregluþjónn stóðu fyrir framan útidyr á heimi þá var nánast útilokað að þau væru að bera góðar fréttir.“ (bls. 49). Síðar hitta þau föðurinn sem séra Sigrún upplifir sem kaldan mann. Foreldarnir vissu nánast ekkert um lif dóttur sinnar (bls. 72) en með því að skoða Facebook og Messenger kemur eitt og annað í ljós. Í kjölfarið kemur víkingasveitin á vettvang og maður er handtekinn. En ekkert gengur. Eða þar til lausn fæst. Og þá verður þú lesandi góður, að krækja þér í bókina og lesa.

Bókin endurspeglar ágætlega veruleika dagsins. Raunveruleikann og svo samfélagsmiðla, Facebook og Messenger – o.fl. Þar skilur hver maður eftir sína slóð sem verður oft mikið rannsóknarefni þegar alvarleg mál koma upp. Undirheimar eru komnir í netheima. Skuggaheimar netsins gefa margvísleg tækifæri til svívirðilegra brota þar sem menn halda að þeir séu öruggir í krafti dulkóðunar og lykilorða. En enginn er öruggur. Hvort sem viðkomandi er háttsettur í samfélaginu eða ekki.

Hjálp er lipurlega rituð, og heldur lesanda vel við efnið. Það er skipt oft milli sviða en lesandi týnir ekki þræði. Það er alltaf eitthvað um að vera sem á vel við lesendur afþreyingarbókmennta. Bókin er góð afþreying og innsýn inn í samfélag sem er að breytast. Kirkjan.is óskar sr. Fritz til hamingju með bókina, Hjálp – þrúgandi spennu frá fyrstu síðu!

Útgefandi bókarinnr er Ugla og hún er 256 blaðsíður. 

hsh









  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Útgáfa

  • Frétt

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut