Nýr Grænlandsbiskup vígður

15. október 2021

Nýr Grænlandsbiskup vígður

Frá biskupsvígslu sr. Munks í Hans Egede-kirkju í Nuuk 10. október s.l.

Sunnudaginn 10. október var sr. Paneeraq Siegstad Munk, vígð sem biskup Grænlands í Hans Egede-kirkju í Nuuk. Hún var kjörin á síðasta ári og hóf störf sem biskup án vígslu í desembermánuði. Kirkjan.is sagði frá því hér  á  sínum tíma.

Það er alltaf mikið um að vera þegar biskupsvígsla fer fram. Stundin er hátíðleg og oft mikið í hana borið. Margrét Þórhildur, Danadrottning, var að sjálfsögðu mætt til vígsluathafnarinnar.

Frá Danmörku komu sex biskupar, einn frá Færeyjum og frá Íslandi kom vígslubiskupinn í Skálholti, sr. Kristján Björnsson. Kaþólski Kaupmannahafnarbiskupinn var og viðstaddur.

Kirkjan.is ræddi við sr. Munk í tilefni vígslunnar og spurði hana að íslenskum sið hvernig veðrið hefði verið á vígsludeginum.

„Það var skýjað á vígsludaginn,“ sagði hún, „en dagarnir fyrir vígslu voru sólríkir og það var góður undirbúningur.“

En var ekki bara í lagi að starfa sem óvígður biskup? Breyttist eitthvað við vígsluna?

„Það að ég var ekki búin að fá vígslu truflaði svo sem ekki hversdagslegt starf mitt í biskupsumdæminu sem snýst meðal annars um guðfræði og lögfræði,“ segir hún hugsi og bætir við: „Kannski var eina breytingin sú sem kom með vígslunni að þá hafði ég ekki lengur samviskubit yfir því að ganga með biskupskrossinn og að skrýðast kórkápu þegar helgisiðirnir kröfðust þess.“

Hvernig skyldi grænlenska kirkjan vera á vegi stödd eftir kórónuveirufaraldurinn?

„Við vorum heppin hvað veiruna snertir í samanburði við önnur lönd,“ segir sr. Munk, „áður en bólusetning hófst voru vissulega fjöldatakmarkanir en okkur tókst að halda kirkjulífi í góðum skorðum þrátt fyrir það.“

Og hver skyldi vera framtíðarsýn nýja Grænlandsbiskupsins?

„Ég vona svo sannarlega að við náum betur til barna og ungmenna og getum sannfært þau um að við séum kirkjan þeirra,“ segir hún, „Biskupsstofan mun sjá til þess að meira fræðsluefni verði unnið til að efla barna- og æskulýðsstarfið.“ Hún segir það líka vera mjög mikilvægt að fá presta til að gegna störfum í jaðarbyggðum á Grænlandi. Sr. Munk ætlar að leggja sig alla fram um að svo verði.

Sr. Paneeraq Siegstad Munk
Sr. Paneeraq er 44 ára gömul og kemur frá Attu. Hún lauk BA-prófi í guðfræði frá Ilisimatusarfik og var vígð að því loknu til prests. Hún þjónaði víða sem prestur á Grænlandi og varð prófastur. Árið 2017 lauk hún svo kandídatsprófi í guðfræði frá Kaupmannahafnarháskóla. Sr. Paneeraq hefur verið formaður Prestafélags Grænlands.

hsh


Margrét Þórhildur, Danadrottning, var við vígsluna


  • Erlend frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Viðburður

  • Covid-19

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut