Kirkjulandið

16. nóvember 2021

Kirkjulandið

Þykkvabæjarklausturskirkja - í forgrunni er minnigarsteinn um Þykkvabæjarklaustur. Mynd: Pétur Georg Markan

Árla morguns 9. nóvember hélt biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttur, í vísitasíu suður með landinu til heimsóknar við fólkið og kirkjuna í Kirkjubæjarklaustursprestakalli. Á Vegamótum við Landveg gekk sr. Halldóra Þorvarðardóttir prófastur suðursins til liðs við biskup og var þá orðið þrímennt – en biskupsritari fylgir biskupi eftir í vísitasíum, skráir og færir til bókar kirkjulífið.

Fyrsta stopp biskups Íslands var Þykkvabæjarklausturskirkja. Þar tók á móti biskupi, sóknarpresturinn sr. Ingimar Helgason og sóknarnefndarfólkið, Arnfríður Jóhannesdóttir og Jóhannes Gissurarson, sem sýndu kirkjuna og staðinn og buðu í kaffi í nýju og notadrjúgu þjónustuhúsi við kirkjuna. Biskup hélt helgistund í notalegri kirkjunni og var kirkjugarðurinn tekinn út. Nú var sr. Ingimar genginn til liðs við föruneyti biskups og áfram var haldið inn í prestakallið.

Næsti viðkomustaður var Grafarkirkja og Grafarkirkjugarður. Tóku á móti biskupi Ólafur Björnsson, kirkjuhaldari, Lilja Guðgeirsdóttir, meðhjálpari og Auður Guðbjörnsdóttir, formaður sóknarnefndar. Kirkjan falleg og í góðu standi.


Ólafur Björnsson, Auður Guðbjörnsdóttir, Lilja Guðgeirsdóttir, biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir, sr. Halldóra Þorvarðardóttir, prófastur og sr. Ingimar Helgason
.

Um kvöldið var síðan messa í Prestsbakkakirkju hvar sr. Ingimar Helgason þjónaði fyrir altari og biskup Íslands predikaði. Eftir messu var fundað með sómafólkinu í sóknarnefnd á heimili Elínar Önnu Valdimarsdóttur, formanni sóknarnefndar. Heimili Elínar er falllegur og sögufrægur bær, Kirkjubæjarklaustur, bær sem ber nafn með sóma og sanni.


Ómfagur og kátur kirkjukórinn með hjónunum Zbigniew Zuchowicz og Teresu Zuchowicz

Daginn eftir var haldið af stað fyrir dagsins roða og bænhúsið að Núpsstað heimsótt af biskupi.