Margt getur fylgt jólum

20. nóvember 2021

Margt getur fylgt jólum

Seljakirkja í Breiðholti - námskeiðið fer þar fram - fagrir steindir gluggar prýða kirkjuna og er myndefni þeirra sótt í ýmsar frásagnir Biblíunnar - mynd: hsh

Kirkjan.is rak augun í orð fyrir skömmu sem vakti athygli hennar og var það orðið jólaórói.

Allir þekkja orðið órói sem er einhver fallegur hlutur sem hangir gjarnan úr lofti og snýst, gefur jafnvel frá sér mjúk hljóð og fagra liti. Úr pappír, pappa eða málma. Svo þekkja margir jólaóra sem fjögur lítil kerti standa á og knýr hitinn klingjandi engla fyrir ofan logana. Því er í fyrstu nærtækast að tengja jólaóróa við slíkt.

En þessi jólaórói sem varð á vegi kirkjunnar.is er annars eðlis. Hann er miklu alvarlegri.

„Jólaórói er tilvísun í kvíða og ónot sem sumt fólk fær þegar jólin nálgast,“ segir sr. Bára Friðriksdóttir þegar kirkjan.is spyr hana um málið. „Það getur stafað af mörgu eins og erfiðum tilfinningum vegna sorgar, fjölskylduerfiðleika, einsemdar eða félagsfælni svo eitthvað sé nefnt.“

Kirkjunnar fólk er hugmyndríkt og segir sr. Bára að vinkona hennar, sr. Petrína Mjöll Jóhannesdóttir hafði lengi velt fyrir sér hinni hlið jólaundirbúnings og jóla sem reynir verulega á þegar fólk upplifir kvíða, vonbrigði og erfiðar tilfinningar gagnvart stórhátíðinni. „Hún átti hugmyndina að námskeiði til að mæta þörfum þeirra sem finnst tilstand jóla þrúgandi fremur en gleðjandi,“ segir sr. Bára. „Sr. Petrína kallaði okkur sr. Bryndísi Möllu Elídóttur að borðinu. Við bjuggum til námskeið sem samanstendur af fræðslu, stuðningi, samfélagi og samtali.“

Sr. Bára segir að námskeiðssamverurnar verði haldnar í Seljakirkju næstu fimm þriðjudaga frá 23. nóvember til 21. desember kl 19.00 -21.00. Allir séu velkomnir og námskeiðið er ókeypis. Samkvæmt núverandi sóttvarnarlögum mega 50 koma saman svo það er hámark þátttakenda, ef sóttvarnir breytast á tímabilinu verður þeim reglum fylgt. „Þar sem þetta námskeið er haldið í fyrsta sinn rennum við blint í sjóinn með aðsókn og aldur þátttakenda og þegar kemur að skiptingu í hópa vinnum við það út frá samsetningu hópsins,“ segir sr. Bára. „Við munum gæta ýtrustu sóttvarnarreglna, það er grímuskylda og hvetjum við fólk að gæta að einstaklingsbundnum sóttvörnum en við krefjumst ekki hraðprófs.”

Hver samvera er byggð upp með fræðslu og samtali í stuðningshópum, kaffipásu og endað með samfélagi í einum hóp. Við tökum á viðfangsefnum eins og væntingum jóla og vonbrigðum, hlutverkum okkar, fjölskyldugerð, kvíða, streitu, sorg, einmanaleika og desember-depurð. Krafan um að allt eigi að vera gleði og hamingja á jólum getur orðið hjá þeim sem kvíða jólum að enn meiri togstreitu og vonbrigðum. Við ætlum ekki að leysa málið í eitt skipti fyrir öll heldur viljum við fá samtalið með þátttakendum svo að við getum fundið leiðir saman til að draga úr jólaóróanum.

Er eftirfylgni af hálfu þeirra sem standa fyrir þessu?

„Tilgangurinn með námskeiðinu er öðrum þræði að skapa samfélag þeirra sem eru í svipuðum sporum “ segir sr. Bára. „Það getur hugsanlega opnað dyr inn í eitthvað nýtt.“

Hún segir að námskeiðið sé hugsað sem stuðningur og samfylgd á viðkvæmum tíma. Bein eftirfylgni prestanna sé annars vegar fólgin í sálgæsluviðtölum fyrir þau sem þess óska og síðan að bjóða upp á helgihald og safnaðarstarf í kirkjunum.

Er einhver svipaður innri órói í kringum aðrir hátíðar, t.d. páskaórói? Hvítasunnuórói? Verslunarmannahelgarórói? Er ástæða til að bregðast við því með svipuðum hætti? Spyr kirkjan.is í lokin.

„Óróinn leynist víða en við höfum ekki hugsað lengra en að jólaóróanum,“ segir sr. Bára og bætir við í lokin: „Við höfum hugmyndir um aðra stuðningshópa sem kemur í ljós seinna.“ 

Námskeiðshaldarar eru prestarnir Petrína Mjöll Jóhannesdóttir, Bryndís Malla Elídóttir og Bára Friðriksdóttir.

Kirkjan.is hvetur lesendur sína til að huga að því hvort þetta námskeið eigi erindi til þeirra.

hsh
  • Frétt

  • Menning

  • Námskeið

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Trúin

  • Fræðsla

logo.png - mynd

Síðari umferð kosningar biskups Íslands

25. apr. 2024
...hefst 2. maí næstkomandi.
Ólafur Egilsson

Vinir Hjálparstarfsins fræðast um starfið

24. apr. 2024
...stilla saman strengi
Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta